Krónprinsessan okkar og drottning Dana kveður

frettinJón Magnússon, PistlarLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Margrét Þórhildur II Danadrottning hefur stigið til hliðar eftir farsælan feril. Þar með eru endanlega rofin hin formlegu tengsl okkar við dönsku krúnuna. Margrét var skírð íslensku nafni og gert ráð fyrir því að hún mundi í fyllingu tímans verða drottning Íslands. En þannig varð það ekki þar sem að Ísland ákvað að verða lýðveldi árið 1944.

Konungar og drottningar eru leifar frá liðnum tíma og viðhorfum passa satt að segja ekki við lýðræðis- og jafnræðishugmyndir okkar tíma. Samt sem áður eru ekki lengur sterkar hreyfingar fyrir að afnema konungsveldi í þeim löndum sem eru næst okkur. Sennilega vegna þess að þjóðhöfðingjarnir hafa verið farsælir í störfum sínum. 

Það er samt sem áður ekki samrýmanlegt í lýðræðisþjóðfélagi að búa við það að hafa þjóðhöfðingja sem byggja á þeirri hugmyndafræði að þeir hafi við fæðingu öðlast rétt til að verða  þjóðhöfðingjar í framtíðinni á þeirri forsendu að þeir séu öðruvísi og merkilegri en annað fólk. 

Við virðumst samt ætla að sætta okkur við þetta enn um hríð hvað sem öðru líður og vissulega finnst mörgum gaman að sjá tindátana og prjálið í kringum konungsveldin, sem eru hrein tildurembætti. Raunar ekki ólíkt því sem að forsetaembættið á Íslandi hefur þróast í, þar sem að reynt er að líkja eftir siðum og venjum arfakóngana.

Við megum vel við una samskipti okkar við Margréti Þórhildi, sem og föður hennar Friðrik 9 Danakonung, sem hafa reynst Íslandi vel eftir því sem þau höfðu eitthvað með mál að gera.

Skildu eftir skilaboð