Hnattræn stríðshætta

frettinBjörn Bjarnason, Erlent, StríðLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Í lok greinar sinnar segir Hal Brands að hrikalegar hörmungar virðist oft óhugsandi þar til þær verði. Þegar hernaðarlega umhverfið versni sé tímabært að viðurkenna hve mjög hugsanlegt sé að það verði hnattræn átök.

Á ensku er til þessi málsháttur: The more you talk about war, the more likely it will besem mætti íslenska á þennan hátt: Því meira sem talað er um stríð því líklegra verður það. Í orðunum felst að með því að ræða eða hugsa stöðugt um stríð kunnum við í ógáti að stuðla að átökum. Íslendingasögurnar geyma margar frásagnir um að umtal leiði til átaka, þeir sem ekki grípi til vopna verði að minni mönnum.

Að á þetta sé minnst hér er ekki að tilefnislausu. Ekki þarf að verja löngum tíma til að renna augum yfir erlenda fjölmiðla og tímarit til að átta sig á hve miklar umræður eru um stríð og hættuna á að það verði stríð.

Svíar hafa ekki háð stríð öldum saman enda fullsaddir af því eftir daga Karls 12. en her hans tapaði orrustunni við Poltava í Úkraínu við Pétur mikla Rússakeisara árið 1709.

Orrustan markaði þáttaskil í Norðurstríðinu, veldi Svía í Norður-Evrópu hrundi og rússneska keisaradæmið náði yfirhöndinni. Rússar segja að Svíar hefni nú ósigursins við Poltava með stuðningi við Úkraínumenn og inngöngu í NATO.

Í byrjun janúar hvatti almannavarnaráðherra Svía þjóðina til að búa sig undir stríð og yfirmaður sænska hersins brá upp glærum með myndum af hörmungum í Úkraínu og gaf til kynna að svipað gæti beðið Svía tækju þeir sig ekki á almanna- og hervörnum.

Varnarmálaráðherra Þýskalands talaði á svipuðum nótum þegar hann ávarpaði nemendur í háskóla þýska hersins í Hamborg og sagði að það kynni að koma til átaka við Rússa í Evrópu eftir fimm til 20 ár.

Þýska vikuritið Der Spiegel birti þetta korrt til að sýna ítök Írana í Mið-Austurlöndum. Íran dökkblátt en yfirstrikuðu svæðin eru undir óbeinni stjórn Írana: Írak, Sýrland, Líbanon, Gaza og Jemen í suðri.

Á vefsíðu bandaríska tímaritsins Foreign Affairs birtist 26. janúar grein eftir Hal Brands, prófessor í hnattrænum málum við Johns Hopkins School of Advanced International Studies. Heiti greinarinnar er: The Next Global War – How Today´s Regional Conflicts Resemble the Ones that Produced World War II.

Prófessorinn tekur sér fyrir hendur að bera saman þróunina sem leiddi til annarrar heimsstyrjaldarinnar og svæðisbundin stríðsátök sem við erum vitni að um þessar mundir. Þrenn svæðisbundin átök á fjórða áratugnum hafi verið undirrót þess að til varð eitt ófriðarbál sem náði til heimsins alls: Æðið sem rann á Japani í Kína og á Kyrrahafssvæði Asíu; tilraunir Ítala til að drottna yfir Afríku og Miðjarðarhafi og yfirgangur Þjóðverja til að ráða lögum og lofum í Evrópu og utan hennar. Það hafi í raun verið einhvers konar tengsl á milli alls þessa hvað sem leið landafræðinni. Að baki valdbeitingunni hafi í hverju tilviki verið einráð stjórn eða stjórnarherra sem hneigðist til kúgunar og ofbeldis.

Þetta ber höfundur saman við það sem nú gerist að frumkvæði einræðisherrans Pútins í Úkraínu (Evrópu), að undirlagi íranska klerkaveldisins fyrir botni Miðjarðarhafs (Hamas ræðst á Ísrael) og fyrir áhrif kínversku kommúnistastjórnarinnar á Kyrrahafssvæði Asíu (spenna á Suður-Kínahafi, hótanir Norður-Kóreumanna).

Í lok greinar sinnar segir Hal Brands að hrikalegar hörmungar virðist oft óhugsandi þar til þær verði. Þegar hernaðarlega umhverfið versni sé tímabært að viðurkenna hve mjög hugsanlegt sé að það verði hnattræn átök.

Skildu eftir skilaboð