Leyniskjöl: Nató undirbýr stríð gegn Rússlandi

frettinErlent, Gústaf Skúlason, NATÓLeave a Comment

Gústaf Skúlason skrifar:

Í leyniskjölum þýska hersins sem lekið hefur verið til fjölmiðla er búist við að full styrjöld geti brotist út á milli Nató og Rússlands árið 2025. Samkvæmt Bild hefur þýski herinn gert framtíðarsýnina „Bandalagsvarnir 2025.“ Nær hún frá febrúar 2024 og fram á sumarið 2025, þegar opin styrjöld getur brotist út á milli Rússlands og Nató.

Atburðarásin er sögð hefjast á því, að Rússar bæti við um 200.000 hermönnum til viðbótar í rússneska herinn í febrúar 2024. Eftir það á vorsókn Rússa að hefjast í Úkraínu, eftir að hernaðarstuðningur hins vestræna heims þrýtur. Því er spáð að sókn Rússa leiði til mikils sigurs þeirra á vígvellinum.

Í júlí hefst síðan næsti áfangi með víðtækum rússneskum upplýsingatækni árásum og annars konar blendingshernaði Rússa. Einkum gegn Eystrasaltsríkjunum þremur Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Rússar eru eru sagðir muni hvetja til hatursglæpa gegn rússneskum minnihlutahópum í löndunum þremur til að koma á upplausnarástandi. Í september munu Rússar hefja umfangsmikla heræfingu, Zapad 2024 sem verður notuð sem afsökun fyrir stórfelldri hersöfnun Rússa í Hvíta-Rússlandi.

Markmiðið: Að tryggja Suwalki-ganginn

Samkvæmt þýsku skjölunum er „leynilegt markmið“ Rússa að ná stjórn á svokölluðum Suwalki-gangi sem skilur Hvíta-Rússland frá Kalíngrad sem sífellt er að einangrast meira og meira. Í nóvember er sagt, að Joe Biden verði endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Pútín mun notfæra sér „leiðtogalaust“ ástand sem myndast í Washington vegna kosninganna. Gert er ráð fyrir, að Pútín sendi enn fleiri hermenn til Hvíta-Rússlands.

Í maí 2025 er gert ráð fyrir að Nató bregðist við uppbyggingu rússneska herliðsins með því að senda eigin her til Eystrasaltsríkjanna og norðausturhluta Póllands. Eftir það gæti opin stórstyrjöld brotist út á milli Rússlands og Nató. Bild skrifar að samkvæmt þessari leyniáætlun sé því haldið opnu, hvort takist að afstýra stríði eða ekki. Þetta er hins vegar sú sviðsmynd sem þýski herinn vinnur eftir.

Skildu eftir skilaboð