Páll Vilhjálmsson skrifar:
RÚV rekur TikTok rás á samnefndum félagsmiðli en neitar að veita upplýsingar um starfsemina. Það veit ekki á gott stafræna auglýsingasölu. Blekkingar og undirferli einkenna starfsemina á Efstaleiti.
Varaformaður stjórnar RÚV, Ingvar Smári Birgisson, óskaði í desember eftir greinargerð útvarpsstjóra vegna rásar sem RÚV rekur á samfélagsmiðlinum TikTok. Ingvar Smári spurði hvaða viðmið væru um umfjöllunarefni á TikTok rásinni og hvaða starfsmenn ynnu efni á rásina. Hann spurði einnig um hótanir, m.a. um líkamsmeiðingar, og níð sem birtist á TikTok rásinni og hver ábyrgð RÚV væri. Þá spurði Ingvar Smári um kostnað við rásina og hvernig hún samræmdist lögbundnu hlutverki RÚV.
Allt gildar og góðar spurningar um stafræna starfsemi RÚV. Tilefnið er ærið, TikTok rás RÚV virðist vettvangur fyrir miður fallegt efni s.s. hótanir um líkamsmeiðingar og níð. Þá er sérkennilegt að á sama tíma og skorður eru reistar við umfangi ríkisfjölmiðilsins sækir RÚV á ný stafræn mið.
Stefán útvarpsstjóri neitar að upplýsa TikTok starfsemina. Í síðustu fundargerð er sagt að upplýsingar um TikTok rásina varði ekki almenning, hún sé innanhússgæluverkefni sem unnið er með á bakvið tjöldin. Vitanlega segir útvarpsstjóri ekki hreint út að leyndarmálið um TikTok rásina skuli geymt innan veggja Efstaleitis, eins og ýmis önnur myrkraverk sem ekki þola dagsins ljós.
Í fundargerðinni segir í kansellístíl að ósk varaformanns um greinargerð útvarpsstjóra sé svarað í ,,stjórnargátt". Leyndarmál, sem sagt, sem engir aðrir en innvígðir fá vitneskju um.
RÚV krefur reglulega aðra um gagnsæi og upplýsingar. Ríkisfjölmiðillinn sjálfur er undirlagður leyndarhyggju og neitar almenningi upplýsingum um starfsemina.