Geir Ágústsson skrifar:
Ég les af mikilli undrun um kröfur ríkisins um að leggja undir sig allskyns svæði og kalla þjóðlendur. Þjóðlenda er lagatæknilegt hugtak, og af öðru tagi en eignaland, eins og útskýrt er hérna:
Þjóðlenda er skilgreind í þjóðlendulögum sem „landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi“.
Þjóðlendur eru með öðrum orðum svæði þar sem ríkisvaldið hefur nokkuð um það að segja hvernig þeim er ráðstafað.
En hvers vegna er ríkisvaldið að reyna troða sér inn á stór landflæmi núna? Það er ekki eins og það hafi efni á fleiri eftirlitsmönnum til að koma í veg fyrir að landeigandi reisi gistihús eða að sveitarfélag ráðist í innviðaframkvæmdir.
Er það einfaldlega að þenja sig út, af því bara? Þjóðlendur kalla jú á allskyns flækjustig og leyfi sem þarf að meðhöndla. Eða svo vísað sé í 3. gr. laga 58/1998:
Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa þar mannvirki, gera jarðrask, nýta hlunnindi, vatns- og jarðhitaréttindi, sbr. þó 5. gr., nema að fengnu leyfi skv. 2. eða 3. mgr. og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti.
Sama lagagrein segir líka þetta:
[Þjóðlendur skulu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum.]
Er ríkisvaldið að reyna tryggja svæði til að troða á vindmyllum án þess að nokkur geti að hafist? Mér finnst það vafasamt, en ekki útilokað. Það er þekkt, t.d. frá Svíþjóð, að allskyns ívilnanir fyrir tískumál dagsins fái greiða leið í gegnum kerfið og sleppi við skatta. Um leið sýnir reynslan að slíkt er ávísun á gjaldþrot, en á kostnað skattgreiðenda auðvitað.
Það er gott að sjá marga spyrna við fótum. Ríkisvaldið er hérna að reyna hrifsa til sín svæði sem hafa verið nýtt á einn eða annan hátt, formlega eða óformlega, án nokkurra vandræða.
Kannski það sé hollt að rifja upp að munurinn á fasisma og kommúnisma er ekki stærri en svo að í fasisma þá áttu eitthvað, en mátt ekki nýta það nema að hentisemi hins opinbera, en í kommúnisma þá áttu ekkert, en færð úthlutað einhverjum afnotum. Þegar ríkið er að lýsa yfir að eitthvað svæði sé orðið þjóðlenda þá er það að stunda fasisma.