Páll Vilhjálmsson skrifar:
Rússar gerðu Nató óformlegt tilboð í víkunni um skiptingu Úkraínu. Nató-ríkin Pólland, Rúmenina og Ungverjaland fái stór landssvæði í vestri og suðri, Rússland alla Austur-Úkraínu og allt land við Svartahaf, Odessu-borg meðtalin. Garðaríki hið forna yrði endurreist með Kænugarð sem höfuðborg nærsveita; héti Úkraína en væri í raun smáríki á borð við Lúxemborg.
Medvedev fyrrum Rússlandsforseti og einn af æðstu Kremlarherrum á eftir Pútín forseta kynnti óformlega tilboðið og birti landakort af nýrri skipan mála.
Tilboðið fær litla sem enga umfjöllun á vesturlöndum. Vestrænir fjölmiðlar gera enn ráð fyrir að Selenskí forseti marséri til Moskvu og leggi Pútín að velli. Þeir sem fylgjast með vígvellinum vita aftur að klukkan glymur Kænugarði en ekki Kreml.
Rússar hafa í austurhéruðum Úkraínu brotist í gegnum aðalvarnir Úkraínuhers. Á næstunni má búast við að æ stærri landsvæði falli Rússum í skaut. Fyrir skemmstu bjuggust flestir við að Rússar létu af sókn sinni er þeir kæmu að Dnípró-ánni sem sker Úkraínu í tvennt. Kort Medvedev gefur aftur til kynna að matarlyst Rússa hafi aukist. Velgengni á vígvelli býr til kröfur um meira herfang.
Pólverjar, Rúmenar og Ungverjar eiga landakröfur á Úkraínu, byggðar á aðstæðum fyrir fyrra stríð. Sígilt er að breyta landamærum með friðarsamningum. Danir, svo dæmi sé tekið, töpuðu syðsta hluta Jótlands til Þjóðverja eftir Slésvíkurstríðið 1864. Í friðarsamningum íhuguðu þeir að bjóða Þjóðverjum Ísland og halda meira af landi byggðu Dönum. Ekkert varð úr þeim makaskiptum, góðu heilli. Danir fengu tilbaka stóran hluta af töpuðu landi í Versalasamningunum eftir fyrra stríð.
Í Nató ráða ekki ferðinni nágrannar Úkraínu. Þrjú ríki taka helstu ákvarðanir. Bandaríkin annars vegar og hins vegar Frakkland og Þýskaland. Macron Frakklandsforseti viðraði tillögur um að senda Nató-hermenn á vígvöllinn en fékk afsvar frá Þjóðverjum. Bandaríkin ljá ekki máls á beinni aðild. Sérhæfðir Nató-hermenn starfa í Úkraínu en þeir eru flokkaðir sem málaliðar. Opinber stefna Nató er að slavnesku blóði skuli úthellt í austri.
Staða Úkraínu er enn ekki það slæm að vilji sé til að semja við Rússa. Litlar líkur eru á að Úkraínuher stöðvi framrás Rússa. Spurningin er hve lengi er hægt að tefja. Bandaríkin taka líklega enga stóra ákvörðun um Úkraínu fyrr en að afloknum forsetakosningum í nóvember. Nái Trump kjöri gæti Nató verið úr sögunni, segir í Telegraph. Án Bandaríkjanna og Nató er stjórnin í Kænugarði dauðadæmd.
Rússneska kortið sem sýnir skiptingu Úkraínu að stríði loknu er diplómatískt herbragð. Í einn stað auglýsir það sigurvissu Rússa. Í annan stað er þrem Nató-ríkjum boðið land í Úkraínu. Kalt stríð er milli Póllands og Úkraínu, þótt ekki fari það hátt. Pólverjar vilja ekki landbúnaðarafurðir að austan sem keppa við heimaframleiðslu. Allir vöruflutningar yfir landamærin eru torsóttir. Pólverjar vilja gjarnan ,,heim" austurhéruðin gömlu sem Stalín tók af þeim og lagði undir Úkraínu eftir seinna stríð.
Ráðandi öfl í Nató, þ.e. Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland (með Bretland í aukahlutverki) taka ekki stórar ákvarðanir að sinni, heldur bíða og sjá hverju fram vindur, á vígvellinum annars vegar og hins vegar alþjóðastjórnmálum. Sum ríki, t.d. Tyrkland og Kína, hvetja til friðarsamninga. Ekki er lengur rætt um að einangra Rússland í alþjóðasamfélaginu. Sú tilraun mistókst.
Mulningsstríðið heldur áfram og býr til harðar staðreyndir þar sem landi er skipt fyrir blóð. Þegar friður kemst á vonum seinna blasir við mesta tilfærsla á landamærum evrópskra þjóðríkja frá lokum seinna stríðs. Reginmunur verður þó á. Enginn spurði eftir þýska uppgjöf vorið 1945 til hvers stríðið var háð. Seinna stríð var nánast barátta góðs og ills. Úkraínustríðið er það ekki, þótt sumir láti þannig. Auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir ófriðinn. Úkraína sem hlutlaust ríki utan hernaðarbandalaga væri í dag kannski ekki gróðurvin friðsældar og lýðræðis en svo sannarlega ekki vígvöllur milljón manna herja.
Til hvers? verður spurt eftir Úkraínustríðið. Sama spurning brann á vörum margra veturinn 1918 er fyrra stríði lauk. Fyrir hundrað árum kunnu menn engin svör. Óreiðuöfl fengu byr undir báða vængi. Stríðið 1939-1945 varð framhald fyrra stríðs. Ófrið er auðvelt að kveikja, erfiðara að slökkva.