Þór Gunnlaugsson: Maður verður að byrja á sjálfum sér

frettinGústaf Skúlason, ViðtalLeave a Comment

Gústaf Skúlason skrifar:

Það var einkar athyglisvert að ræða við Þór Gunnlaugsson fyrrum lögreglumann, sem var á sínum tíma ráðinn sá yngsti, 19 ára, í lögregluna. Hann hefur starfað vel á fimmta áratug í þjónustu Íslendinga heima og erlendis. Meðal annars hjá Sameinuðu þjóðunum, þegar hann fór til Miðausturlanda við gæslustörf. Það sem einnig vekur athygli er, að Þór Gunnlaugsson er skyggn frá blautu barnsbeini. Sem miðill aðstoðar hann fólk við sambönd og einnig lækningar eins og kemur frá á heimasíðu hans „Heilun og Kærleikur.“

Það var því margt að ræða um og tíminn engan vegin nægur og komst ekki allt með í rúmlega klukkustundar viðtal. Þór Gunnlaugsson lýsti störfum sínum hjá lögreglunni og hvernig hann var ráðinn til starfa á Blönduósi yngstur á þeim tíma aðeins 19 ára gamall. Hann hafði gaman af því, að fréttist þegar þeir voru að að stöðva bíla m.a. vegna of hraðs aksturs. Þegar hann hóf síðar störf hjá Sameinuðu þjóðunum voru ýmsir sem þekktu hann sem tilheyrandi „svörtu refunum fyrir norðan.“

Lögreglan þarf meiri þjálfun

Þór Gunnlaugsson er maður rósemi og friðar til að lægja öldur sem kunna að vera til staðar. Lýsti hann því á marga vegu t.d. hvernig hann betrumbætti aðkomu að vettvangi einfaldlega með því að sýna kurteisi, bjóða góðan daginn og ræða málin við viðkomandi. Hann varar við vaxandi ofbeldi og telur að frekar eiga að leita friðsamlegra lausna en að láta vopnin tala. Sagðist hann einungis hafa beitt kylfunni tvisvar á lögregluferli sínum gagnvart einstaklingi. Kylfan kom honum meira að gagni, þegar nauðsyn krafðist þess að lögreglan kæmist inn í hús, að brjóta upp hurð. Spurður um hvað honum finndist mikilvægast fyrir lögregluna í augnablikinu svaraði Þór: „Meiri þjálfun.“

Mannkyni stafar hætta af núverandi stríðsátökum

Þór Gunnlaugsson er uggandi yfir stríðsátökum í heiminum, Ísrael/Hamas, Pútín/Úkraína. Sagði hann engu líkar en að forsætisráðherra Ísraels og forseti Rússlands hefðu orðið fyrir gjörningum, því hatur þeirra væri svo mikið. Nefndi hann sérstaklega stríð Ísraels og Hamas og án þess að vera neitt sérstakur stuðningsmaður Hamas, þá þætti honum skelfilegt að sjá ung börn og konur deyja í slíkum mæli og í þessu stríði. Hann ásakar Ísraelsmenn um að drepa óbreytta að óþörfu.

Skyggn frá barnsaldri

Það var ótrúlegt að heyra lýsingu Þórs á hvernig hann uppgötvaði hæfileika sína að sjá framliðna og vera í sambandi við aðila að handan. Hann er fæddur skyggn sem uppgötvaðist, þegar hann var 5 ára gamall. Hæfileiki hans hefur þróast gegnum árin og leitt til opinbers starfs við að hjálp öðrum t.d. í sambandi við sjúkdóma. Nefndi hann eitt dæmi sérstaklega, þegar hann gat stuðlað að lækningu 7 ára drengs í Stokkhólmi sem hafði ólæknandi krabbameinsæxli í heila. Leiddi tenging góðu kraftanna við drenginn til þess að æxlið hvarf og gátu læknar á sjúkrahúsi í Stokkhólmi engar skýringar gefið á þessum skjóta bata hálfum mánuði síðan.

Nýta ber undantekningarákvæði Schengen

Vandamál öfga-íslamista sem beita ofbeldi til að ná markmiði sínu að byggja upp ríki Íslams kom til umræðu. Nýlega handtók lögreglan einn slíkan á Akureyri. Þór Gunnlaugsson telur fleiri slíka þegar vera í landinu. Hann segir:

„Ég vil að undantekningarákvæði Schengen verði nýtt til að stöðva flakk Evrópubúa hingað.“

Það er mikið vandamál fyrir Ísland, að fólk flykkist til landsins sem kemur frá öðrum löndum innan ESB sem er þeirra fyrsta land en halda síðan áfram til Íslands. Sumir stjórnmálamenn eru orðnir svo heilaþvegnir af svipu „alþjóðlegra samninga“ að þeir geta ekki lengur hugsað sjálfir. En málið er ekki svo flókið bendir Þór á.

Kærleikurinn kemur innan frá

Þór vill að sem flestir komi með í starf þess góða á jörðunni gegn þeim illu öflum sem leika lausum hala. Vegur hans er vegur ljóss og kærleika og eins og Þór segir:

„Maður verður að byrja á sjálfum sér.“

Smelltu á spilarann hér að neðan til að hlusta á viðtalið:

Skildu eftir skilaboð