Páll Vilhjálmsson skrifar:
Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands boðar í ,,bransapartí" í dag fyrir blaðamenn og áhugasama um blaðamennsku. Teitið er í tilefni af veitingu verðlauna fyrir vel unnin störf.
Þrír sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu eru tilnefndir: Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan og Ingi Freyr Vilhjálmsson.
Innanbúðarmenn telja gefið að Aðalsteinn fái verðlaun. Hann er varaformaður Blaðamannafélagsins og áskrifandi að þakklæti og virðingu félagsins sem hann er í forystu fyrir. Helgi er meðtilnefndur og fengi einnig blóm og krans, afsakið, verðlaunaskjal. Meiri spurning sé hvort Ingi Freyr hreppi hnoss.
Tilfallandi hefur sannfrétt að dómnefndin hafi haft til athugunar að verðlauna sérstaklega þá ritstjórn sem hýst hefur flesta sakborninga í fjölmiðlasögu Íslands. Þar með fengi Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar einnig verðlaun. Hætt var við hugmyndina.
Sigríður Dögg formaður hyggst í partínu kynna ,,vitundarherferð um blaðamennsku". Um er að ræða sjónvarpsauglýsingu sem verður frumsýnd í dag. Án efa verður þar útlistað hvernig best sé að falsa gögn, slíta úr samhengi tilvitnanir, skipuleggja byrlun og afritun á illa fengnum símtækjum. Að ekki sé talað um húsbrot á hamfarasvæðum. Átti almenningur sig á hve blaðamenn leggja mikið á sig til að afla frétta mun virðingin fyrir blaðamennsku vaxa.
Ekki verður í teitinu í dag tilkynnt um nýjan framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins. Málum háttar þannig að Sigríði Dögg var gert að yfirgefa vinnustað sinn, RÚV, eftir að hún var afhjúpuð í haust sem skattsvikari. Sigríður Dögg tók þann kostinn að flæma úr starfi í janúar framkvæmdastjóra félagsins til tveggja áratuga og setjast sjálf í stól hans. Til málamynda var auglýst starfframkvæmdastjóra. Engar spurnir eru af ráðningu.
Við hæfi er að skattsvikari stjórni Blaðamannafélaginu og fari með fjárreiður félagsins. Samtök sem verðlauna sakborninga undir glæparannsókn verða að standa undir nafni.
Tilfallandi er áhugamaður um blaðamennsku og fær sem slíkur boð í partíið síðdegis. Því miður getur ekki orðið af mætingu. Tilfallandi þarf að undirbúa málsvörn vegna stefnu varaformanns Blaðamannafélagsins og sakbornings í byrlunar- og símastuldsmálinu, Aðalsteins Kjartanssonar. Aðalmeðferð er á mánudag. Varaformaðurinn, og aðrir RSK-blaðamenn, telja ótækt að bloggari út í bæ segi tíðindi sem blaðamenn vilja ekki að almenningur heyri. Fólk gæti haldið að afbrotamenn og siðleysingjar réðu ferðinni í íslenskri blaðamennsku. Enda hlaðnir verðlaunum.