Geir Ágústsson skrifar:
Ég veit að verkalýðsfélög eru vinsæl á Íslandi. Nánast allir eru í þeim og sætta sig við að láta þau semja fyrir sig um kaup og kjör, bjóða sér upp á aðgang að sumarbústað og gleraugnastyrkjum, bjóða upp á námskeið og fyrirlestra og svona mætti lengi telja. Það er gott að geta í skiptum fyrir félagsgjald treyst á ákveðna þjónustu, svo sem að stíga til leiks ef atvinnurekandi misnotar aðstöðu sína. Ég skil þetta allt saman. Ég er sjálfur í verkalýðsfélagi þar sem sitja lögfræðingar tilbúnir að aðstoða mig ef þörf er á. Engin sumarhús til leigu samt, svo því sé haldið til haga.
En það er allt í lagi að hugsa upphátt.
Þeir eru til sem telja að verkalýðsfélög hafi komið á ýmsum kjarabótum fyrir launafólk og ég skil vel að margir telji það. Án þeirra væru vinnudagarnir 10 klukkustundir og yfirvinna ólaunuð, ekki satt? En kannski kom hænan á undan egginu: Samkeppni um hæft starfsfólk þrýsti á vinnustaði til að bæta kjörin og stytta vinnudaginn til að laða að sér hæft fólk. Í dag eru til vinnustaðir þar sem vinnuvikan er fjórir dagar. Það fær starfsmenn annarra vinnustaða til að þrýsta á eitthvað svipað. Ekkert mál í raun ef þú ert ekki að sinna neinni þjónustu í rauntíma. Vinnuvikan styttist og í kjölfarið koma verkalýðsfélögin og þrýsta á lagabreytingar og eitthvað svipað fyrir alla aðra. Þetta er ein leið til að horfa á hlutina.
Að launafólk sætti sig við að bindast fast við launataxta hefur síðan ókosti. Lélegustu starfsmennirnir fá of mikið í laun og þeir bestu fá of lítið. Hvoru tveggja hlýtur að vera letjandi á hvorn sinn hátt.
Síðan eru það átökin. Þau kosta sitt - verðmæti sem hefðu annars runnið í hirslur fyrirtækja og þaðan í vasa launþega. Gleymum svo ekki þeim mörgu tilvikum þegar kjarabæturnar urðu að kjaraskerðingu vegna verðbólgu og gjaldþrota sem komu í kjölfarið.
Kannski voru verkalýðsfélög einu sinni nauðsynleg en eru núna orðin að bagga á samfélaginu. Þegar launþegar semja í breiðfylkingum þá þurfa atvinnurekendur að gera það saman, og gera það með því að stilla saman strengi og samræma launastefnur sínar. Er það ekki einokun? Hvernig væri ástandið ef bæði launþegar og atvinnurekendur væru án samhæfingar? Kannski það gæti aukið samkeppni um gott fólk og fengið fyrirtæki til að leita leiða til að skera sig úr í samkeppninni. Lagerstarfsmaður fær væntanlega lítið aukalega í vasann við að skipta frá einum lager til annars. Er hann ekki fastur?
Annars er mér nokkuð sama hvort fólk er í verkalýðsfélagi, og fyrirtæki í samtökum eða ekki, en í ljósi reynslunnar seinustu ár er kannski tækifæri til að endurskoða aðeins þetta kerfi átaka og breiðfylkinga og gefa launþeganum meira svigrúm til að prútta, og um leið minnka aðeins þá vernd sem launagreiðendur hafa gegn samkeppni um besta fólkið.
One Comment on “Þurfum við öll þessi samtök í atvinnulífinu?”
Spurning einnig hversu mikið skilduaðild að SA hækki verðlag á Íslandi ?