Stormur í aðsigi í Eurovision

frettinErlent, Krossgötur, Pistlar, TónlistLeave a Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

Í ljósi aðstæðna á botni Miðjarðarhafs eru margir ósáttir með það að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision. Þetta fólk vill sniðganga keppnina vegna þess að Ísrael tekur þátt, og hvetur aðra til þess sama. RÚV og þátttakendur í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2024 hafa orðið fyrir þrýstingi af hendi aktívista sem vilja að við drögum okkur úr keppni. Tveir af dómurum söngvakeppninnar skoruðu opinberlega á RÚV að sniðganga Eurovision þetta árið. Þrátt fyrir þessa mótstöðu var valinn fulltrúi sem vildi taka þátt í keppninni. Sagt er að símaatkvæði í lokaeinvígi hafi ráðið úrslitum. Nú hefur verið staðfest að Hera Björk fari til Malmö fyrir Íslands hönd.

Undanfarnar vikur hefur þeim sem eru andvígir þátttöku Ísraels í Eurovision hins vegar verið gefinn vonarneisti um að landinu verði meinuð þátttaka eftir allt saman. Það er reyndar ekki vegna hernaðaraðgerða þeirra – allavega ekki beint. Ástæðan er öllu heldur sú að framlag Ísraels var talið of pólitískt fyrir keppnina. Ég held því fram að laginu hafi “ekki beint” verið hafnað vegna ástandsins, því að ef ekki væri fyrir ástandið hefði lagið auðvitað flotið í gegn. Ef eitthvað annað land, eins og Portúgal, hefði sent sama lag og texta fyrir fjórum árum, hefði enginn kippt sér upp við það. Undir réttum kringumstæðum hefði það jafnvel þótt vænlegt til sigurs.

Upprunalega útgáfan af framlagi Ísraels bar heitið “October Rain”, og er sungið af söngkonunni Eden Golan. Nafnið vísar til októbermánaðar, en það var þá sem Hamas-samtökin réðust inn í Ísrael og myrtu yfir þúsund manns, og tóku yfir 200 gísla – tugir þeirra eru enn í haldi Hamas. Textinn var ritskoðaður í von um að lagið fengi að vera með í keppninni. Nafninu var breytt í “Hurricane” og heiti októbermánaðar fjarlægt úr texta lagsins. Fáeinum orðum til viðbótar hefur verið breytt, en laglínan og flytjandinn eru þau sömu.

Upphafsorðum lagsins:

“Those that write history, stand with me”

var breytt í:

“Lighter of my symphony, play with me”.

Orðið “flowers” mátti víst ekki koma fram í textanum, vegna þess að það er talið vísa til þeirra sem fallið hafa í stríðinu; því var skipt í “empowers”.

Frasanum “Life is no game for the cowards” var breytt í “Life is no game, but it’s ours”.

Orðunum “Take me home”, sem sagt var að gætu vísað til þess að frelsa gísl úr greipum Hamas og færa það heim til sín, var breytt í “Take it out”.

Lokaorð lagsins eru á herbresku. Upprunalega útgáfan þýddist sem:

“There’s no air left to breathe, no place, no me,
from day to day, they’re all good kids, each one of them.”

En nýja útgáfan þýðist sem:

“Don’t need big words, just prayers,
Even if it’s hard to see, you always leave one small light.”

Með þessum breytingum hefur lagið verið samþykkt til þátttöku í Eurovision. Sumum þykja þessar breytingar hins vegar ekki nægjanlegar. Þetta er sennilega sama fólkið og vill einfaldlega meina Ísrael um þátttöku, óháð laginu. Fyrir þá sem lesa eitthvað pólitískt úr frösum á borð við “Take me home”, er ennþá á mörgu að taka. Oft má lesa nánast hvað sem maður vill úr ljóðrænum textum sem hafa einhverja merkingu og dýpt – hafi maður nægilega fjörugt ímyndunarafl.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að þegar ég las textann fyrst sá ég ekkert pólitískt við hann. Mig grunar að það sama muni eiga við um flesta áhorfendur keppninnar. Margir eiga erfitt með að skilja og greina lagatexta, sérstaklega ef hann er á útlensku. Þó svo við gætum það, þarf maður að leggja ansi mikið á sig til að sjá eitthvað pólitískt við orð eins og “flowers”. Alflestir munu einfaldlega heyra tilfinningaþrungna ballöðu, án frekari umhugsunar.

Gengur ritskoðun á list of langt?

Eitt af yfirlýstum markmiðum Eurovision er að hún sé ópólitísk í eðli sínu. Í því felst að það eigi ekki að vera pólitískur boðskapur í atriðunum sem eru flutt. Mörgum þykir þetta örugglega góð almenn regla. Það er ekkert gaman að hlusta á keppni þar sem annað hvert atriði snýst augljóslega um eitthvert pólitískt málefni.

Dæmi eru um að lagahöfundar reyni ekki einu sinni að fela skilaboðin. Rússland sigraði Eurovision árið 2008 og réðist inn í Georgíu seinna sama ár. Það er ekki gott að segja hvers vegna Rússland var ekki rekið úr keppninni þá eins og eftir innrás sína í Úkraínu. Næsta ár vildi Georgía senda lagið “We Don’t Wanna Put In” (einnig þekkt sem “Put In Disco”) til Moskvu! Það kemur kannski ekki á óvart að Georgíu hafi verið meinuð þátttaka það árið – þó ekki væri nema til að tryggja öryggi georgísku keppendanna.

Munurinn á því lagi og framlagi Ísrael í ár er þó mikill. Georgíska lagið var augljóst skot á þjóðarleiðtoga annars ríkis; þar skiptir einu hvort skotið hafi haft rétt á sér eður ei. Upphaflega útgáfan af framlagi Ísraels í ár innihélt ekki eins augljósan pólitískan boðskap. Hefði ekki dugað að biðja þá um að breyta orðunum “October Rain” í “Hurricane”?

Þó er vert að velta því fyrir sér hvort hægt sé að framfylgja þessari reglu um að atriði eigi ekki að innihalda pólitískan boðskap án þess að brjóta á rétti keppenda til að tjá sig með listrænum hætti. Er það þess virði, og hvenær er raunverulega þörf á því? Getur verið að reglan hafi þau áhrif, að lagahöfundar þurfi að standa í stöðugri sjálfsritskoðun fyrir þessa keppni?

Það hlýtur að vera áfall fyrir tónlistarfólk að semja lag, til þess eins að höfundaverkinu sé rústað með ritskoðun. Sem betur fer, höfundanna vegna, held ég að það hafi tekist að bjarga þessari tilfinningaþrungnu ísraelsku ballöðu ágætlega.

Greinin birtst fyrst á Krossgötur 16.3.2024

Skildu eftir skilaboð