Jón Magnússon skrifar:
Allt of langlíf ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist starfa eftir þeirri meginreglu, að gera ekkert nema í algjört óefni sé komið. Ekki er gætt hagsmuna skattborgarana og meðferð opinbers fjár í höndum ríkisstjórnarinnar er eins og peningar í höndum barns í sælgætisverslun. Ekki er hugað að því að tryggja þjóðinni næga vistvæna orku- og er þá fátt eitt talið.
Verst af aðgerðarleysi og roluhætti ríkisstjórnarinnar er þó aðgerðir eða mun frekar aðgerðarleysi í málefnum útlendinga þá sérstaklega hælisleitenda. Aðgerðirnar hafa miðað að því að troða inn í landið svonefndum kvótaflóttamönnum og aðgerðarleysið birtist helst í algjöru stjórnleysi á landamærunum.
Landamærin eru galopin og þar ríkir algjört stjórnleysi. Þó svo hafi verið um langa hríð, hefur ekkert raunhæft verið gert. Margir hafa séð að nauðsynlegt væri að ganga úr Schengen strax sem einn lið í að ná stjórninni en þrátt fyrir Schengen er hægt að grípa til aðgerða til að ná stjórn á landamærunum ef stjórnvöld hafa vilja dug og þor.
Vanrækt var að tryggja að erlent afbrotafólk verði sent tafarlaust úr landi. Stjórnvöld hafa ekki gert neinn reka að tryggja öryggi fólksins í landinu gagnvart þeim. Afleiðingin er m.a. sú, að enginn er óhultur ekki einu sinni einn æðsti maður réttargæslunnar í landinu.
Breytingar á lögum um leiguakstur, er síðan gott dæmi þar sem vanrækt var að gæta að nauðsynlegri neytendavernd varðandi gjaldtöku og öryggi farþega. Viðskiptavinir leigubifreiðastjóra eru iðulega í viðkvæmri stöðu og því brýn nauðsyn að gæta að öryggi þeirra. Nánast daglega má lesa í fréttum vandamál sem þessi algjöru lausatök ríkisstjórnar og Alþingis valda.
Stefnulaus ríkisstjórn óeiningar og sundurlyndis gerir engum gagn með því að sitja nema e.t.v. þeim ráðherrum sem telja að ríkisstjórnarseta sé eitt stórt partý sem nauðsynlegast sé að standi sem lengst.