Blaðamenn gegn tjáningarfrelsi

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Blaðamenn voru lengi vel milliliður atburða og almennings. Fyrir daga netsins og félagsmiðla voru fjölmiðlar, s.s. dagblöð, tímarit, útvarp og sjónvarp, vettvangur nær allrar samfélagslegrar umræðu. Þar fléttuðust saman fréttir og skoðanir á málefnum líðandi stundar.

Blaðamenn geta enn með nokkrum rétti sagst nauðsynlegir lýðræðinu. Þrátt fyrir að fjölmargir aðrir leggi í púkkið, segi fréttir og skoðanir, sínar eigin eða annarra, eru blaðamenn atvinnumenn í faginu. Aðrir taka þátt sem almennir borgarar, sumir nokkuð reglulega.

Það er í þágu starfandi blaðamanna að tjáningarfrelsið sé ekki takmarkað. Lýðræðisleg umræða er best fallin til þess að skilja hismið frá kjarnanum, ekki boð og bönn um hvað megi segja og hvað ekki. Frjáls umræða leiðir fram, ef ekki bestu, þá skástu niðurstöðuna í álitamálum. Svipað og lýðræðið er skásta stjórnarfyrirkomulagið. Fyrsta grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands endurspeglar þessa afstöðu:

Blaðamaður hefur sannleikann að leiðarljósi, stendur vörð um tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga, svo veita megi nauðsynlegt aðhald í lýðræðisþjóðfélagi.

Tjáningarfrelsið er ekki, og getur ekki verið, fyrir útvalda. Ef tjáningarfrelsið væri aðeins fyrir þá sem uppfylltu tiltekin skilyrði, s.s. menntun og þjóðfélagsstöðu, væri í raun um að ræða skoðanakúgun gagnvart þeim sem ekki uppfylltu skilyrðin.

Allt sem að ofan er sagt ætti að vera sjálfsögð sannindi þeirra sem fallast á tjáningarfrelsi sé ómissandi þáttur lýðræðis.

Varaformaður Blaðamannafélags Íslands, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Heimildinni, áður Stundinni, er ekki þeirrar skoðunar að tjáningarfrelsið sé hornsteinn lýðræðisins. Aðalsteini finnst ótækt að fjallað sé um byrlunar- og símastuldsmálið en þar er varaformaðurinn sakborningur.

Aðalsteinn stefndi tilfallandi síðast liðið sumar. Þá var bloggað:

Aðalsteinn vill tvær milljónir í miskabætur og málskostnað. Auk kröfu um ómerkingu átta ummæla gerir Aðalsteinn kröfu að tilfallandi bloggari fjarlægi af bloggsíðu sinni ummælin, að viðlagðri dagsekt upp á 50 þús.

Ef ummælin átta, sem Aðalsteinn krefst ómerkingar á, eru úr lausu lofti gripin, líkt og segir í stefnu, væru þau löngu gleymd. Það er eðli lýðræðislegrar umræðu. Orðræða sem veður villu og svíma fellur niður dauð og ómerk. Það þarf ekki atbeina dómstóla til að fella úr gildi ein eða önnur ummæli sem ekki halda vatni.

Lögreglurannsókn stendur yfir á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans og meðferð á einkagögnum. Aðalsteinn er einn fimm sakborninga úr röðum blaðamanna RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Það er staðreynd. Út frá þeirri staðreynd má eitt og annað álykta um vinnulag blaðamanna og freista þess að setja í samhengi. Eins og tilfallandi hefur gert. Blaðamenn RSK-miðla, sem gerst þekkja málavöxtu, segja það eitt að almenningi komi ekki við hvernig efni úr stolnum síma komst í hendur þeirra. Né heldur skýra þeir þá undarlegu staðreynd að blaðamenn keyptu síma til að afrita símtæki skipstjórans fyrir byrlun og stuld. Hvernig vissu blaðamenn að von væri á síma skipstjórans?

Áður hafa tveir meðsakborningar Aðalsteins, þeir Þórður Snær og Arnar Þór, stefnt tilfallandi og fengið hann dæmdan í héraðsdómi. Þeim dómi var áfrýjað til landsréttar, sem tekur málið fyrir í maí.

Blaðamenn RSK-miðla krefjast þagnar um byrlunar- og símastuldsmálið. Þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af starfsfélögum sínum á öðrum fjölmiðlum, sem þegja að stærstum hluta meðvirkri þögn. Enga heildstæða umfjöllun um byrlunar- og símastuldsmálið er að finna í fjölmiðlum. Tilfallandi stendur utan við félagsskap starfandi blaðamanna og nýtir tjáningarfrelsið til að fjalla um brýn málefni, eins og aðild RSK-blaðamanna að sakamáli. Í hátíðarræðum blaðamanna kallast þetta að veita aðhald, spyrja gagnrýnna spurninga og bregða ljósi á misfellur í starfsháttum aðila sem eiga að fara að lögum - fjölmiðla í þessu tilviki.

Aðalmeðferð í dómsmáli Aðalsteins gegn tilfallandi er í dag.

Skildu eftir skilaboð