Innleiðum fasisma (formlega)

frettinGeir Ágústsson, Innlent, Pistlar3 Comments

Geir Ágústsson skrifar:

Fasismi sem hugmyndafræði er að nafninu til ekki eins vinsæl í dag og hún var á uppgangsárum Mussolini og Hitlers. Á þeim tíma var henni hrósað sem skilvirku stjórnarfari og varð innblástur fyrir ýmsa leiðtoga í lýðræðisríkjum. Þetta voru kreppuár en fasistaríkin létu það ekkert á sig fá og reistu hraðbrautir og vopnaverksmiðjur eins og enginn væri morgundagurinn.

Lýðræðið lítur vel út á blaði en er óskilvirkt og leiðir til þess að góðum lausnum er fórnað með málamiðlunum og langdreginni umræðu, og þegar ríkisvaldið er með alla anga úti í sérhverjum krók og kima samfélagsins þá veldur þetta miklum vandræðum. Betra væri að hafa sterkan leiðtoga sem keyrir góð mál í gegn. Þannig mætti leysa vandamál Íslendinga í hælisleitendamálum með einum fundi. Eins mætti mæta orkuskortinum með einföldum hætti. Engar skýrslur eða nefndir. Bara sterkur leiðtogi sem tekur af skarið.

Gagnrýni á fasisma er fjölbreytt en öll byggð á misskilningi. Henni má líkja við að börn á heimili gagnrýni foreldra sína fyrir að ákveða háttatíma og matartíma og segi börnum sínum að sinna heimanámi sínu og baða sig. Viljum við heimilishald þar sem börnin ráða öllu? Fasismi setur ábyrgðina í hendur foreldra og börnin njóta góðs af.

Á Vesturlöndum erum við mjög upptekin af málfrelsi og eignarrétti. Fasismi er í engri andstöðu við þessi réttindi. Það þarf vitaskuld að setja tjáningu skynsamleg takmörk en það gerum við nú þegar með allskyns lögum um þessa umræðu og hina, frá hatri til upplýsingaóreiðu. Eignarréttur er sömuleiðis bundinn mjög eðlilegum mörkum. Ekki viljum við að menn virki hvern læk og plægi hverja spildu. Fasismi einfaldar allt það aðhald sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut í dag en dregur úr skrifræðinu og óskilvirkninni.

En leggur fasismi ekki meiri áherslu á velferð ríkisins á meðan lýðræðið leggur meiri áherslu á velferð einstaklingsins? Þessu er einfalt að svara: Lýðræði á pappír er annað en lýðræði í framkvæmd. Í framkvæmd er lýðræðið sammála fasismanum um mikilvægi ríkisins og hagsmuna þess, enda erum við öll ríkið. Þessum ruglingi mætti eyða með því að innleiða einfaldlega fasisma, opinskátt og að fullu leyti.

Það er kominn tími til að endurskoða fasisma sem raunverulegan valkost við lýðræðið eins og það er framkvæmt í dag, af stóru ríkisvaldi sem sinnir mörgum verkefnum. Skrif Mussolini og annarra samtímamanna hans sem boðuðu fasisma ríma mjög vel við stefnur ýmissa stefnumarkandi einstaklinga í dag. Sleppum orðagjálfrinu og ræðum hlutina eins og þeir eru. 

Eða eigum við að ræða valkostinn - frjálst markaðshagkerfi þar sem ríkisvaldið er lítið og hefur mjög fá og vel afmörkuð verkefni á sinni könnu? Ég er til í það auðvitað.

3 Comments on “Innleiðum fasisma (formlega)”

  1. En að innleiða Fnrazisma? Fasisti,Nazismi,og Razismi í einu orði.

  2. Sjá má vel í Rússlandi hvernig virkar fasismi virkar vel. Þeir sem ekki eru sammála eru settir í fangelsi og myrtir. Draumaríki Sjálfstæðisflokksins og annara hægri flokka. Boða frelsi en það á bara að vera fyrir þá og restin skal þræla fyrir þá eða deyja

  3. Fasismi er samruni stórfyrirtækja og ríkisvaldsins , borgaður af oligörkum og hugmyndum um okkur og hina, Rússland er ekki fasistaríki en djo er Pútin buinn að gera góða hluti þar….

Skildu eftir skilaboð