Notkun okkar á þunglyndislyfjum tvöfalt meiri en Finna

frettinIngibjörg Gísladóttir, Innlent1 Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Skýrsla á vegum OECD um notkun þunglyndislyfja er nýkomin út og við erum þar enn á toppnum með 161.1 skammta á hverja 1,000 íbúa og hefur notkun þeirra aukist hérlendis ár frá ári. Í grein Ólafs B. Ein­ars­son­ar, verk­efn­is­stjóra hjá embætti land­lækn­is, frá 2020 kemur fram að notkunin hafi verið  141 dagskammt­ur á hverja þúsund íbúa árið 2018 en meðal­notk­un­in í OECD-lönd­un­um á sama tíma 103 skammt­ar. Þetta er sem sagt ekki nýtt vandamál. Mesta aukn­ing í fjölda not­enda segir Ólafur hafa verið hjá stúlk­um á grunn­skóla­aldri - meira en 90% frá 2009 til 2019 en einnig segir hann að kann­an­ir bendi til þess að al­gengi þung­lynd­is sé 3,8-4,8% á Íslandi sem sé sam­bæri­legt við hin Norður­lönd­in.

Hamingjuskýrslan (World Happiness Report) er líka nýkomin út. Samkvæmt henni eru Finnar hamingjusamasta þjóð heims og hafa verið það mörg ár í röð en Íslendingar eru í þriðja sæti á eftir Dönum.

Bæði Finnar og Danir taka þó mun minna af þunglyndislyfjum, Finnar 81 dagskammt og Danir 84, skv. grein í Daily Mail þar sem því er slegið fram með tilvísun í Al Jazeera að ástæða mikillar notkunar hérlendis gæti legið í því að þunglyndislyf séu sjö sinnum ódýrari en meðferð.

Er lyfjagjöf oft eini valkosturinn?

Ef við miðum okkur við Finna þá virðumst við vera að taka tvöfalt of mikið af þunglyndislyfjum. Eitthvað hlýtur það að kosta sjúkratryggingarnar og sjúkrahúsin. Svo virðist sem lyfjagjöf sé oft fyrsti eða eini valkosturinn þótt að vitað sé að samtalsmeðferð hjá sálfræðingi skili góðum árangri. Eiríkur Örn Arnarson, sem er sérfræðingur í klínískri sálfræði, segir í grein frá 2022 að skima ætti fyrir þunglyndi á unglingastigi grunnskólanna og hjálpa þeim sem eiga þá við andlega erfiðleika að stríða, sem eru gjarnan stúlkur. Slíkar forvarnir myndu létta mikið á heilbrigðiskerfinu til lengri tíma; segir hann. Hann segist hafa gert rannsókn á slíkri skimun hjá 14-15 ára krökkum fyrir um áratug. Ungmenni með einkenni þunglyndis hafi farið í hugræna atferlismeðferð og m.a. lært að snúa neikvæðu hugsanamynstri í jákvætt. Í eftirfylgd ári síðar hafi komið í ljós að samanburðarhópurinn hafi verið fimm sinnum líklegri til að þróa með sér einkenni geðlægðar á árinu en þau er tóku þátt í meðferðartilrauninni.

Hvernig væri að yfirvöld okkar tækju mark á Eiríki Erni og færu í fyrirbyggjandi aðgerðir til að bæta geðheilsu landsmanna og minnka með því þörfina á þunglyndislyfjum? Auðvitað kostar það eitthvað, en öll þessi lyfjagjöf kostar líka. Kannski gætu ráðamenn farið að hugsa aðeins meira um okkur er byggja þetta sker en minna um að blíðka Loftslagsguðinn eða um að halda uppi spilltustu stjórnvöldum Evrópu auk þess að moka ótakmörkuðum peningum í útlendinga er sækja hér um hæli á tæpum forsendum? Hvernig væri það?

One Comment on “Notkun okkar á þunglyndislyfjum tvöfalt meiri en Finna”

  1. Hvar var allt þetta þunglyndi þegar Kristin fræði voru enn í boði í grunnskólum?
    Það hefur margt farið úrskeiðis síðan Jesú var skipt út fyrir Djöfulinn.

Skildu eftir skilaboð