Verið er að sprengja og grafa á fullu í Skärholmen í suðurhluta Stokkhólms. Hér er verið að leggja grunninn að byggingu stærstu mosku í Skandinavíu. Stór hluti kostnaðarins lendir á skattgreiðendum. Að tjaldabaki bíða róttækir íslamistar. Hin risastóra moskusamstæða verður 3.000 fermetrar. Vilyrði fyrir moskunni sem hluta af skipulagsáætlun var veitt árið 2014 og fyrstu skóflustungurnar voru teknar síðastliðið haust. Núna sést að eitthvað stórt er í gangi.
Garður og útivistarsvæði hverfur
Til að rýma fyrir risamoskunni hefur þurft að sprengja mikið magn af grjóti í burtu. Bygging moskunnar ryður einnig burtu opnum grassvæðum, göngu- og hjólastígum fyrir almenning. Yfirvöld Stokkhólmsborgar skrifa á vefsíðu borgarinnar, að krafan um að hvelfdur bænasalur moskunnar snúi í átt að Mekka hafi verið uppfyllt. Moskan verður einnig með tvíbura bænaturna þar sem múslímskt bænakall á arabísku mun berast úr hátölurum og heyrast víða. Á heimasíðu borgarinnar segir:
„Moskan er ekki aðeins bygging fyrir hollustu og bæn. Þetta er lifandi fjölvirknimiðstöð fyrir fræðslu, félagslíf, leiki, hreyfingu og hátíðahöld.“
Skattgreiðendur látnir greiða fyrir róttækan íslamisma
Flytja þarf gangstéttir o.fl fyrir stórt bílastæði við moskuna. Ekki er ljóst hvort sú fjármögnun lendi á skattgreiðendum. Hins vegar er ljóst, að stjórnmálamennirnir í ráðhúsi borgarinnar hafa afhent 13 milljónir sænskar af fé skattgreiðenda í moskubygginguna án þess að skattgreiðendur hafi beðið um það. Borgaryfirvöld eru harðlega gagnrýnd vegna þess að aðstandendur moskunnar hafa náin tengsl við íslamistahreyfinguna Milli Görüs.
Reiknað er með að Mevlana moskan og menntamiðstöðin í Stokkhólmi, eins og samstæðan mun formlega heita, verði tilbúin til vígslu sumarið 2025. Fjármagn skortir til að klára bygginguna og óljóst hvort borgaryfirvöld taka meira af skattpeningum til að borga í bygginguna.