Geir Ágústsson skrifar:
Ég velti því af alvöru fyrir mér hvort íslensk börn sem eru að vaxa úr grasi á Íslandi í dag eigi einhvern möguleika á að verða að heilbrigðum fullorðnum einstaklingum í nokkurn veginn andlegu jafnvægi.
Ég skrifa þetta ekki af því ég tel yngri kynslóðir vera alveg ómögulegar og miklu verr staddar en ég á mínum æskuárum. Krakkar munu alltaf þurfa að upplifa mótlæti og vonandi njóta velgengni í félagsskap jafninga, fá til skiptis góða og lélega kennara, lenda í eða ná að forða sér frá vondum félagsskap, og svona mætti lengi telja. Auðvitað eru krakkar í dag líka berskjaldaðri fyrir allskyns áreiti og slæmum áhrifum í gegnum netið (eigin netnotkun eða annarra) en fyrri kynslóðir.
Nei, áhyggjur mínar snúast að auknum áhuga fullorðinna á að brengla þau á bæði líkama og sál.
Börnum er núna sagt að þau séu mögulega fædd í röngum líkama. Þetta nær sérstaklega til barna sem síðar munu komast að því að þau eru samkynhneigðir einstaklingar, og ekki bætir úr skák ef þau eru einhvers staðar á einhverfurófinu. Lyfjaglasið opnast upp á gátt fyrir slík börn og kynþroski þeirra settur í lamasess undir þeirri röngu fyrirsögn að allt sé afturkræft, sem það er ekki.
Þeim er mokað í skemmtiþætti í sjónvarpi og látin syngja um kynlíf og áfengisneyslu undir handleiðslu frægra djammara. Góð auglýsing fyrir djammarann, vond áhrif á litla krakka.
Skólarnir eru víða hættir að kenna þeim að lesa og reikna og öll skólastig ofar grunnskóla byrjuð að kvarta undan óundirbúnum nemendum.
Þau eiga á hættu að þurfa baða sig kviknakin með fullorðnum einstaklingum af hinu kyninu. Gott og vel, ungir strákar fagna kannski því að sjá brjóst í karlaklefanum, en litlar stelpur kannski ekki eins sáttar að sjá loðið slátur í kvennaklefanum.
Þau voru gerð eins hrædd og hægt var á veirutímum á sama tíma og þeim var bannað að mæta í skóla og eiga félagslíf. Þau voru einfaldlega álitin ásættanleg fórn. Börnum fórnað fyrir gamla. Mörg börn, sem sum eru orðnir unglingar í dag, eru með varanlegt sár á sálinni í kjölfarið.
Ég legg til að fullorðið fólk á Íslandi setji sjálft sig aðeins til hliðar. Það getur verið krúttlegt að sjá 7 ára krakka syngja um áfengisneyslu með frægum djammara, en ætti að vera skemmtun sem við fullorðna fólkið getum neitað okkur um. Börn höfðu enga rödd þegar fullorðna fólkið var hrætt við veiru en ættu kannski að hafa verið eina röddin sem skiptir máli. Þau eru heilaþvegin í skólunum þar sem þau ættu að vera í námi. Þau eru sett á lyf þegar það ætti kannski frekar að ræða við þau.
Mögulega eru flestir foreldrar og flestir skólar að reyna gera sitt besta. Verja ungviðið og undirbúa það undir lífið. En baráttan er kannski svolítið töpuð þegar við umberum uppsprettur eiturs og skaða sem breiðir úr sér, oft án þess að mikið fari fyrir því.
Sem dæmi um mál sem lítið fer fyrir er aukinn þrýstingur á að gera börn á Íslandi föðurlaus. Það er sprengja sem springur í formi andlegra vandamála og glæpa í framtíðinni, eins og tölur sýna.
Það eina sem skiptir framtíð samfélags máli eru börnin. Við fullorðna fólkið eigum einfaldlega að taka þá skelli sem til þarf svo þau fái að vaxa úr grasi, andlega og líkamlega eins vel undirbúin fyrir framtíðina og hægt er.
En ekki að kenna þeim að syngja um áfengisneyslu, éta lyf, hata pabba sinn og láta skóladaginn fara til spillis.