Guðrún Bergmann skrifar:
Við erum oft ósátt með ýmislegt í líf okkar. Hið merkilega er þó að það er ekki fyrr en við sættum okkur við hlutina og kringumstæður eins og þær eru, að við getum farið að gera breytingar. Ásættanleiki er oft byrjunin á góðum bata eða miklum umbreytingum í eigin lífi.
Eitt það helsta sem við þurfum að sættast við í lífi okkar er að ekkert breytist, fyrr en við breytumst, vegna þess að allar breytingar eiga sér í raun stað innra með okkur. Þegar við tökum nýjar ákvarðanir, breytum viðhorfum okkar og förum að sjá hlutina í nýju ljósi, hefjast breytingarnar.
Við eigum alltaf val
Ásættanleikinn tengist svo mörgu í lífi okkar. Hann byggist líka á því að við skiljum að við eigum alltaf val og að við getum valið að gera breytingar. Þær kunna að reyna á okkur, á þrek okkar og þol, á úthald okkar og staðfestu, en í flestum tilvikum leiða breytingarnar til betra lífs fyrir okkur, við öðlumst meiri innri ró og höfum skýrari fókus á líf okkar.
Ásættanleikinn hjálpar okkur að sjá að við getum ekki breytt öðrum, en við getum breytt okkur sjálfum. Við getum sætt okkur við að við getum ekki breytt þeim sem gert hafa eitthvað á hlut okkar, en við getum fyrirgefið viðkomandi og hætt að burðast með hatur, reiði, særindi og aðrar neikvæðar tilfinningar. Með því að fyrirgefa sleppum við tökum á þessum tilfinningum og losum okkur við þann bagga sem þær hafa verið í lífi okkar.
Óskilyrtur kærleikur
Við erum öll einstök og þegar við hættum að bera okkur saman við aðra og virkilega sættum okkur við okkur sjálf, getum við lagt okkur af einlægni fram um að elska okkur sjálf. Sýna okkur sjálfum sömu mildi og sama kærleika og við myndum sýna litlu barni.
Ein leið til að æfa ásættanleikann og auka kærleika í eigin garð er að gera þessa litlu æfingu áður er farið er fram úr rúminu á morgnana. Leggðu lófa þína á hjartað og segðu upphátt við sjálfa/-n þig: “Ég er frábær, ég er örugg/-ur, ég er elskuð/elskaður” – og taktu með opnu hjarta á móti þessum fallegu orðum frá sjálfri/sjálfum þér.
Önnur leið er að standa fyrir framan spegilinn í baðherberginu og segja við spegilmynd sína: “Ég elska mig eins og ég er” – og gefa þér svo einn “high five”, í spegilinn til að staðfesta hversu frábær þú ert.