Ísland þyrfti einna helst á hlýrra loftslagi að halda

Gústaf SkúlasonGústaf Skúlason, Landbúnaður, Loftslagsmál, Viðtal1 Comment

Það var einstök ánægja að ná tali af hinum önnum kafna prófessor emeritus, Ragnari Árnasyni, í viðtal fyrir Fréttina.is Margir Íslendingar þekkja til Ragnars Árnasonar sem oft hefur komið fram í fjölmiðlum í sambandi við störf sín, þá aðallega fyrir sjávarútveginn og sjómenn. En allir þekkja ekki til mannsins enda fylgir Ragnar Árnason því góða lögmáli að láta verkin tala og það hafa þau svo sannarlega gert. Ragnar Árnason hefur unnið með sjávarútveginum til fjölda ára og þar aðstoðað sjómenn og útgerðir við að hagræða framleiðslunni svo hún skili sem mestum verðmætum. Árangurinn af þessu samhenta og sameiginlega átaki allra aðila sjávarútvegsins lét ekki á sér standa og hefur skilað greininni og öllu þjóðarbúinu auknum verðmætum sem eru ein veigamesta burðarstoð samfélagsins gegnum tíðina. Árangur íslensks sjávarútvegs spurðist fljótlega út fyrir landsteinana og hafa mörg lönd tekið sér íslenska útgerðarhætti til verðskuldaðrar fyrirmyndar. Ragnar notaði orðið samherji um það fólk sem vinnur saman að velferðarmálum sjálfs síns og annarra og er það vel til fallið. Fréttaritari og Ragnar Árnason eru gamlir samherjar frá menntaskólaárunum og því kærir endurfundir að eiga þetta spjall saman.

Landbúnaðurinn verið undir þungum hrammi opinberra afskipta í allt að 100 ár

Ragnar greindi frá því, að hann vinni að verkefnum fyrir íslenska landbúnaðinn um þessar mundir. Hann segir afskipti hins opinbera ekki ætíð skila góðum árangri og hann muni reyna að aðstoða við að sníða af helstu vankantana í þessari grein.  „Stuðningur“ við bændastéttina hefur oftar skilað meiri kotbúskap sem mætti líkja við „fátækrafangelsi“ sem hefti þrótt og þróunarmöguleika sjálfstæðra, frjálsra bænda í stað þess að virkja dugnað þeirra. Ragnar segir um landbúnaðinn:

„Landbúnaðurinn hefur verið undir þungum hrammi opinberra afskipta í 80, 90 jafnvel 100 ár eða svo með þeim afleiðingum að kerfið hefur þróast eins og íslenska birkihríslan, orðið dálítið kræklótt og lágvaxin án þess að hlutlægar aðstæður geri kröfur um að svo sé. Í rauninni er það, að tæknibreytingar og hagþróun í heiminum, mannfjölgun og fleira gerir það að verkum, að landbúnaður á Íslandi verður æ hagkvæmari sem atvinnuvegur.“

Ragnar vill leysa sköpunarkraft bænda úr læðingu með hvatakerfi í landbúnaðinum, þannig að bændur fái meira fyrir dugnaðinn og ráði meira sjálfir og íhlutun hins opinbera minnki. Prófessorinn segir bændur á Íslandi í svipaðri stöðu og bændur innan Evrópusambandsins sem að undanförnu hafa verið í uppreisn gegn grænum loftslagsmarkmiðum ESB og alls kyns reglugerðarfargani frá Brussel.

Valdhafar hafa tilhneigingu að vilja auka við völd sín og auð

Ragnar Árnason ræðir meðal annars um breyskleika mannfólksins og tilhneigingu fólks í valdastöðum að sækjast sífellt eftir meiri tekjum og völdum fyrir sig. Hann bendir á illmenni sögunnar t.d. Hitler og Stalín sem dæmi um hámark þeirrar miðstýringar sem við þekkjum og allt það tjón sem hún leiddi af sér. Ragnar Árnason segir að engin skuli efast um það að ekki muni koma fram nýir einstaklingar sem vilja sópa til sín auði og völdum á svipaðan hátt eins og sagan hefur kennt okkur.

Prófessorinn nefnir hræðsluáróður sem tæki valdasækinna hópa til að ná fram markmiðum sínum og tekur sem dæmi áróðurinn um hamfarahlýnun. Sameinuðu þjóðirnar sem eru uppiskroppa með hræðsluorð um stiknun mannkyns og vítisloga, eru í raun miðstýrt vald – „enn eitt ríkisvaldið“ – sem vinnur meira fyrir sig sjálft og búrókratana en að hjálpa þeim fátæku í heiminum. Hann leggur áherslu á að röng vinnubrögð sem borgað er fyrir með skattakrónum geri þá fátæku fátækari og í andstöðu við gefin loforð.

Hinar spáðu loftslagsbreytingar eru ekkert umtalsvert vandamál fyrir fólkið í heiminum

Ragnar Árnason lýsir baráttunni gegn loftslagsbreytingunum sem hann telur yfirdrifnar og engin ástæða til að fara í óðagoti í gang með alls kyns fjárfestingar gegn vanda sem er óljós og ekki vitað hversu stór er enn sem komið er. Segir hagfræðiprófessorinn betra að nota fjármunina til að auka velsæld jarðarbúa, sem þá verða betur í stakk búnir að aðlaga sig og leysa þann vanda sem kemur, ef og þegar hann kemur og í þeim mæli sem enginn veit mikið um í dag.

Hagfræðiprófessorinn bendir á,  að hagfræðingum hafi verið ýtt út úr alþjóðaráði Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar „International Panel for Climate Change“ og að  núna sé orðið loftslagsbreytingar notað, því loftslagið sé í stöðugri breytingu. Var afar upplýsandi að hlýða á útskýringar Ragnars um samstarf annars vegar og skort á samstarfi hins vegar á milli ólíkra vísindagreina eins og náttúruvísinda, hagfræði, félagsfræði, verkfræði og hugsanlega sagnfræði. Á meðan náttúruvísindamenn skilgreina og rannsaka náttúruna, þá vinna hagfræðingar með efnahagslegar stærðir og koma með tillögur til viðbragða út frá þeim staðreyndum. Ragnar segir:

„Varðandi þessa svo kallaða hlýnun jarðar eða loftslagsbreytingar, þá eru það aðallega náttúruvísindamennirnir sem hafa algjörlega mótað hugmyndirnar að viðbrögðum. Þær hugmyndir – eðlilega frá sjónarhóli náttúruvísindamanna eru í fyrsta lagi þær að koma í veg fyrir þessa hlýnun og eiginlega sama hvað það kostar.“

„Í fyrsta lagi eru hinar spáðu loftslagsbreytingar ekkert umtalsvert vandamál fyrir fólkið í heiminum og lífríki heimsins.“

„Niðurstaða hagfræðinga, sem hafa fjallað um þessi mál með heimslíkönum af öllu hagkerfinu og takandi þessar spár náttúruvísindamanna sem gefnar stærðir, er sú að það beri að fresta aðgerðum, þangað til við erum orðin ríkari. Nota peninginn í dag til þess að gera okkur enn þá ríkari, fjárfesta í vélum, tækjum og þekkingu. Verða ríkari í framtíðinni og bregðast síðan við vandanum – þegar og ef hann kemur upp.“

Ragnar segir að ef eitthvað er, þá „þyrfti Ísland einna helst á hlýrra loftslagi að halda.“ Umræðan hélt áfram yfir í efnahagsmál á Íslandi, verðbólguna og aðferðir til að vinna gegn henni ásamt spurningunni um vísitölubundin húsnæðismálalán og svo stafrænan gjaldmiðil sem Ragnar Árnason varar við að geti fært skráningarhöfum alræðisvald yfir einstaklingum.

Smelltu á hljóðbandið hér að neðan til að hlusta á viðtalið:

 

 

 

 

 

One Comment on “Ísland þyrfti einna helst á hlýrra loftslagi að halda”

  1. „Var afar upplýsandi að hlýða á útskýringar Ragnars um samstarf annars vegar og skort á samstarfi hins vegar á milli ólíkra vísindagreina eins og náttúruvísinda, hagfræði, félagsfræði, verkfræði og hugsanlega sagnfræði.“

    Já og trúarbragðafræði líka því þessi „climate“ þvæla er trúarbragð fyrst og fremst.

Skildu eftir skilaboð