Times of Israel greinir frá því, að ísraelsk stjórnvöld vara landsmenn sína, sem hyggjast heimsækja Eurovision í Malmö, að láta ekki bera á „síonisma sínum.“ Ísraelskur embættismaður sagði á blaðamannafundi, samkvæmt blaðinu:
„Við erum ekki að segja, að þið eigið ekki að ferðast þangað, en þeir sem ferðast ættu ekki að láta síonisma sinn í ljós.“
Samkvæmt ráðleggingunum er í lagi að tala hebresku í Malmö, en „þú ættir ekki að hrópa á fjölskyldumeðlimi eða vini á hinum enda götunnar.“
Ísraelar eiga heldur „ekki að ganga um með litla ísraelska fána“ að sögn embættismannsins. Hann bætti við að á þessari stundu séu engar sérstakar ógnir þekktar. Hann sagði:
„Malmö er óvingjarnlegt svæði fyrir Ísraela.“
Eurovision fer fram dagana 4.–11. maí og mun listamaðurinn Eden Golan syngja fyrir hönd Ísraels í sönglagakeppninni.