Héraðsdómur: Þórður Snær og Aðalsteinn fengu verðlaun fyrir þjófnað

frettinDómsmál, Innlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti á föstudag að Páli skipstjóra Steingrímssyni hefði verið byrlað, síma hans stolið vorið 2021 og gögn úr símanum komist í hendur blaðamanna. Nánar tiltekið í hendur Þórður Snæs Júlíussonar og Arnars Þórs Ingólfssonar á Kjarnanum og Aðalsteins Kjartanssonar á Stundinni.

Nýmæli eru að dómstóll staðfestir tilfallandi frásögn að án byrlunar og stuldar hefðu aldrei verið skrifaðar fréttir um skæruliðadeild Samherja. Bloggari var einn um þá frásögn í umræðunni fram að dómi héraðsdóms. Blaðamennirnir þræta fyrir, segja trúnaðarmál hvernig atvikaðist að þeir fengu gögn úr síma skipstjórans. En lögbrot, að ekki sé talað um alvarleg brot, eru ekki einkamál gerenda. Blaðamenn og fjölmiðlar ættu að upplýsa en ekki þegja meðvirkri þögn með grunuðum starfsfélögum. Það ætti ekki að vera einyrki á bloggakrinum sem ber hitann og þungann að upplýsa stærsta hneykslið í sögu íslenskrar blaðamennsku.

Þórður Snær gengur manna lengst í afneitun á staðreyndum. Ritstjórinn segir skipstjóranum aldrei hafa verið byrlað. Enginn glæpur var framinn, segir Þórður Snær fyrir tveim mánuðum. Nú liggur fyrir dómsniðurstaða að byrlun og þjófnaður voru forsenda verðlaunafrétta blaðamannanna þriggja. Verðlaun hafa verið afturkölluð af minna tilefni.

Í úrskurði héraðsdóms var tilfallandi bloggari dæmdur til að greiða Aðalsteini tæpar tvær milljónir í miskabætur og lögfræðikostnað. Sum ummæli voru dæmd dauð og ómerk. Fyrir ári var tilfallandi dæmdur til að greiða Þórði Snæ og Arnari Þór tæpar þrjár milljónir króna vegna sömu bloggskrifa.

Dómurinn á föstudag er ólíkur þeim fyrri, máli Þórðar Snæs og Arnars Þórs gegn bloggara. Á föstudag staðfestir héraðsdómur að byrlun og þjófnaður voru undanfari frétta sem blaðamennirnir þrír birtu samtímis 21. maí 2021 í tveim óskyldum fjölmiðlum, Stundinni og Kjarnanum. Héraðsdómur segir tilfallandi hafa:

verið heimilt að halda því fram í bloggfærslu sinni að fréttaflutningur blaðamannanna hefði byggst á upplýsingum sem aflað hefði verið með refsiverðum hætti...

Ennfremur, segir í dómnum, er

óumdeilt í málinu að fréttaflutningur stefnanda [Aðalsteins], sem hann hlaut verðlaun fyrir, byggðist að hluta til á gögnum er tilheyrðu Páli Steingrímssyni.

Aðalsteinn krafðist ómerkingar ummæla, um að hann hefði fengið blaðamannaverðlaun fyrir fréttir er aflað var með byrlun og stuldi. Dómurinn féllst ekki á það. Þegar Þórður Snær og Arnar Þór stefndu tilfallandi á sínum tíma var sama bloggfærsla miðlæg. Tvímenningarnir sögðu að laugardaginn 2. apríl 2022 hafi orðið ,,kaflaskil" í umfjöllun tilfallandi um byrlunar- og símastuldsmálið. Þann dag birti tilfallandi blogg undir fyrirsögninni Blaðamenn verðlauna glæpi. Daginn áður höfðu þremenningarnir hlotið verðlaun Blaðamannafélags Íslands. Blaðamannaþríeykið taldi hoggið nærri sér með efasemdum um réttmæti verðlaunanna. Lítum á upphaf færslunnar.

Þrír blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans sem fengu verðlaun Blaðamannafélags Íslands eru sakborningar í lögreglurannsókn. Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi.

Arn­ar Þór Ing­ólfs­son og Þórður Snær Júlí­us­son, blaðamenn á Kjarn­an­um, og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.

Dómurinn segir bloggara heimilt að skrifa fyrri efnisgreinina en sú seinni skuli dauð og ómerk. Lykilorðin eru ,,eiga aðild, beina eða óbeina." Tilfallandi telur að hagnist einhver á refsiverðum verknaði megi kalla það óbeina aðild hið minnsta. Seinni efnisgreinin er rökrétt framhald af þeirri fyrri. Annað tveggja eru báðar efnisgreinarnar góðar og gildar eða hvorugar. Dómurinn er ósammála, segir að öflun frétta með refsiverðum hætti sé ekki til marks um aðild, hvorki beina né óbeina.

Með fullri virðingu fyrir héraðsdómi Reykjavíkur sýnist tilfallandi að hér skorti nokkuð á þekkingu um hvernig frétt verður til. Grunnlögmál blaðamennsku er að engin frétt er betri en heimildin fyrir henni. Þetta þýðir að blaðamaður verður að ganga úr skugga um trúverðugleika heimildar áður en hann skrifar og birtir fréttina. Blaðamaðurinn skal sannreyna heimildina áður en hún er notuð, t.d hvort hún sé ófölsuð. Það er því brýnna sem fréttin varðar meiri hagsmuni og hvort hún sé til þess fallin að valda saklausum miska. Ef heimildin er gögn, líkt og hér um ræðir, hvílir fagleg skylda á blaðamanni að þekkja uppruna gagnanna. Annars er blaðamaðurinn ekki starfi sínu vaxinn. Blaðamennirnir þrír, sem skráðir eru höfundar fréttanna, bæði máttu og áttu að vita uppruna gagnanna og hvernig þeirra var aflað.

Það er mjög á reiki hvernig sama fréttin í tveim útgáfum, um skæruliðadeild Samherja, birtist í Stundinni og Kjarnanum að morgni dags 21. maí 2021. Blaðamennirnir þrír eru þöglir sem gröfin. Þeir eru grunaðir í sakamálarannsókn og þegja að hætti góðkunningja lögreglunnar. Tilfallandi telur líklegast að tvær útgáfur sömu fréttar hafi verið skrifaðar að stofni til á RÚV og sendar á Stundina og Kjarnann. Samráð var um hvenær skyldi birta fréttirnar.

Á Efstaleiti var innihald síma Páls skipstjóra afritað á annan síma. Harla ólíklegt er að afritunarsíminn hafi farið á flakk á milli Stundarinnar og Kjarnans, til að blaðamenn ynnu fréttir úr frumgögnum. Í skæruliðafréttunum tveim er ekki um að ræða sjálfstæða blaðamennsku, heldur samræmda herferð. Markmiðið var að virkja almenningsálitið gegn norðlensku útgerðinni. RÚV hélt sig til hlés í fyrstu umferð en steig síðar inn í atburðarásina, rak hljóðnema fram í ráðamenn og spurði: er ekki voðalegt, sem Stundin og Kjarninn segja frá, að Samherji reki skæruliðadeild. Vel að merkja, skæruliðadeildin er uppspuni blaðamanna. Engin slík deild var starfandi. Gögnin í síma skipstjórans voru spjall samstarfsfélaga sem vildu bera blak af vinnuveitanda sínum. Heiðarlegt fólk varð fyrir árás blaðamanna sem skeyta hvorki um heiður né skömm - að ekki sé sagt landslög.

Byrlun, stuldur, birting og eftirfylgni var skipulögð aðgerð. Miðstöðin var á Glæpaleiti.

ps.

tilfallandi greindi frá dómi héraðsdóms á laugardag. Lesendur höfðu þegar haft samband til að liðsinna með kostnað vegna þöggunarmálssókna blaðamanna. Hálft hundrað og rúmlega það hefur sýnt vilja sinn í verki. Hjartans þakkir. 

One Comment on “Héraðsdómur: Þórður Snær og Aðalsteinn fengu verðlaun fyrir þjófnað”

  1. Hvenær ætlar sá mikli blaðamaður og sannleiksriddari sem þú telur þig vera Páll að fjalla um glæpi Samherja sem enginn vafi leikur á um að hafi verið framdir. Hvenær fáum við ítarlega grein um mútugreiðslur þeirra og þjófnað á þjóðarauðlindum þjóða? Þurfum við að biða eftir því að Samherji taki þig af mútugreiðslu skrá sinni til að þú snúist gegn þeim eða ertu búinn að tryggja þér ævilanga greiðslur af illa fengnu féi Samherja? Þú munt náttúrulega ekki svara verandi sú gunga sem þú ert. Ef þú værir nú raunverulega blaðamaður þá værir þú stétt þinni til skammar en þar sem þú skrifar bara á vefsíðu sem haldið er út af öfgatrúarmanneskju sem heldur að ímyndaði vinur sinn sé raunverulegur þá ertu lítið annað en málpípa siðblindra drullusokka sem stela öllu því sem þeir geta á meðan þau njóta þess að eyða tekjunum af þjóðarauðlindum.

Skildu eftir skilaboð