„Bretland verður að undirbúa sig að ganga úr WHO“

Gústaf SkúlasonCOVID-19, Erlent, WHOLeave a Comment

Brexit leiðtoginn Nigel Farage telur, að Bretar ættu frekar að yfirgefa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina WHO en að gefa stofnuninni vald til að þvinga landið til lokana í „faröldrum“ og kreppum framtíðarinnar. Farage telur að WHO sé „misheppnuð, dýr, ókjörin, óábyrg, yfirþjóðleg stofnun“ sem vill „keyra yfir“ þjóðríkin með því að stjórna heilbrigðisstefnu þeirra fram hjá lýðræðinu.

Þurfum að vera viðbúin því að þurfa að ganga úr WHO

Fréttin.is hefur vakið athygli á skipun Tedros Adhanom Ghebreyesus aðalritara WHO,  að lönd heimsins skuldbindi sig til að samþykkja tillögurnar sem eru á borðinu í Genf í lok mánaðarins. Þrátt fyrir að WHO hafi brotið 4 mánaða birtingareglu á breytingartillögum fyrir fundinn. Tedros Ghebreyesus fullyrðir að samþykkt tillagna WHO muni leiða til „öruggari framtíð“ fyrir alla jarðarbúa. Langt er frá að allir séu sammála þeirri skilgreiningu og hafa lögfræðingar og læknar víða um heiminn varað ríkisstjórnir og valdhafa við því að samþykkja alræðisyfirtöku WHO í heilbrigðismálum aðildarríkjanna. Sameinuðu þjóðirnar vilja að sáttmálinn sé lagalega bindandi fyrir öll aðildarríki og feli í sér lögþvingaðar lokanir og bólusetningar.

Breska ríkisstjórnin fullyrðir að hún ætli ekki að láta utanaðkomandi aðila ákveða, hvort Bretar beiti lokunum eða ekki en Farage segir, að ráðherrar verði að ganga miklu lengra en það og alfarið yfirgefa WHO, ef þörf krefur.

Verðum að taka umræðuna um til hvers WHO er

Farage hefur tekið höndum saman við alþjóðlega þrýstihópinn „Action on World Health, AWH“sem vill breyta WHO. Bent er á að stofnun Sameinuðu þjóðanna hafi ítrekað mistekist að vernda almenning, þar á meðal með rangri fullyrðingu í janúar 2020 um að engin Covid-19 dreifist ekki á milli manna. Einnig brást stofnunin ekki við ebólufaraldrinum 2014-16 í Vestur-Afríku og Sars-faraldrinum 2003 í Austur-Asíu.

AWH vill skera niður 5,5 milljarða punda fjárveitingu til WHO, sem er að mestu fjármögnuð af Bandaríkjunum, Bretlandi og ESB og koma í veg fyrir að stofnunin hafi áhrif á valdhafa til að taka ákvarðanir á bak við luktar dyr án almennra áhrifa og gegnsæi.

Farage heldur áfram: 

„Við skulum taka almennilega umræðu um til hvers WHO er. Við viljum ekki að þessi sáttmáli verði undirritaður, við teljum að WHO ætti að fara aftur til upprunalegs regluverks.“

„Við erum meira en ánægð með að hafa viðvörunarkerfi fyrir heimsfaraldra og erum ánægð með að hjálpa öðrum löndum, en allt verður framkvæmt á samvinnugrundvelli. Ef það gerist ekki, þá ættum við að segja, að okkur þyki það mjög leitt en það sé ekki fyrir okkur.“

Að sögn Farage hefur WHO möguleika á að „vera afl til góðs í heiminum“ – en hann telur að samtökin hafi í dag farið út fyrir valdsvið sitt.

„Það er átakanlegt að einhver í Genf sem enginn hefur kosið geti neytt okkur til lokana.“

WHO í áróðursherferð gegn Nigel Farage og segir hann dreifa falsfréttum

WHO hefur opinberlega ráðist á Nigel Farage sem samsæriskenningarmann og ásakar hann um að dreifa fölskum upplýsingum. Fullltrúi WHO sagði:

„Fullyrðingar um að samningsdrögin muni framselja fullveldi til WHO og veita WHO vald til að koma á lokunum eða þvingandi bólusetningum eru rangar. Aldrei hefur verið farið fram á það né slíkt lagt til. Þessi samningur mun ekki og getur ekki veitt WHO fullveldi.“

Aðrar netherferðir gegn alræðisbrölti WHO eru þegar í gangi í Bretlandi. Tvær þeirra – „Say No To WHO“ og „Save My Vape“ – tengjast þrýstihópi gegn ESB sem er stýrt af Brian Monteith, almannatengslaráðgjafa og fyrrverandi stjórnmálamanni.

Skildu eftir skilaboð