Forsetaviðtalið: Halla Tómasdóttir vill vera boðberi friðar og taka samtalið við þjóðina

frettinInnlent, Kosningar, Margrét Friðriksdóttir, ViðtalLeave a Comment

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi er gestur Margrétar Friðriksdóttur í Forsetaviðtalinu á Fréttin.is.

Halla hefur verið hástökkvari framboðsins eftir kosningasjónvarpið á RÚV þar sem kjósendur fengu að kynnast öllum frambjóðendum. Halla mælist nú í öðru sæti í flestum könnunum og m.a. í skoðanakönnun hér á Fréttinni.

Halla Tómasdóttir er fædd í Reykjavík 11. október 1968. Hún er alin upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vestfjarða. Halla er frumkvöðull og rekstrarhagfræðingur, með meistaragráðu. Hún hóf starfsferil sinn í Bandaríkjunum hjá fyrirtækjunum Mars og Pepsi Cola. Halla kom að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík þar sem hún stofnaði og leiddi meðal annars Opna háskólann.

Halla hefur ávallt haft brennandi áhuga á forystu og frumkvöðlastarfsemi og hefur kennt þúsundum nemenda á öllum aldri. Hún varð fyrst kvenna framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs vorið 2006. Ári síðar stofnaði Halla ásamt Kristínu Pétursdóttur fjármálafyrirtækið Auður Capital. Fyrirtækið lagði áherslu á ábyrgar fjárfestingar og að skila hagnaði á grunni góðra gilda. Auður Capital og viðskiptavinir þess fóru tjónlaust gegnum efnahagshrunið árið 2008. Halla kom í kjölfarið að stofnun Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009. Hjá Mauraþúfunni vann slembiúrtak þjóðarinnar að sameiginlegri framtíðarsýn og gildum.

Halla er gift Birni Skúlasyni, þau eiga tvö börn, Tómas Bjart og Auði Ínu sem bæði eru í háskólanámi í New York. Tómas Bjartur stundar þar nám í viðskiptafræði og spilar fótbolta og Auður Ína nemur sálfræði.

Farið var yfir víðan völl í viðtalinu, Halla er m.a. spurð út í grunngildin, jákvæðnina og hvað henni finnist betur má fara í íslensku samfélagi, tækifærin og hvar henni finnist styrkleiki þjóðarinnar liggja.  Halla segist vilja vera boðberi friðar á heimsvísu og segir að mikilvægt sé að taka samtalið við þjóðina um ýmis mál og segist hún vilja byrja á unga fólkinu sem sé framtíðin.

Halla hefur verið orðuð við World economic forum í Davos(WEF), og er hún spurð út í orðróm varðandi það. Þá ræddum við auðlindir, Landsvirkjun, trúmál, framtíðarsýn, nýsköpun, heimsófriðinn og margt fleira.

Viðtalið í heild má sjá hér neðar:

Skildu eftir skilaboð