Íslenska kvennalandsliðið vann glæsilegan sigur og varð Evrópumeistari í hópfimleikum í dag með 57,250 stig. Liðið fékk jafn mörg stig og Svíþjóð en Ísland vann tvö áhöld, gólf og trampólín. Svíþjóð hafði einungis betur á dýnunni og fór því titillinn heim til Íslands.
Íslenska kvennalandsliðið byrjaði mótið á frábæru trampólíni og fór liðið í gegnum öll stökkin sín án falls.
Kolbrún Þöll Þorradóttir, ein reynslumesta landsliðskonan í liðinu,var með eitt erfiðasta stökk mótsins er hún gerði tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu.
Kolbrún lokaði svo síðustu umferð íslenska liðsins á stökki yfir hest og negldi það. Íslensku stuðningsmennirnir tylltust í kjölfarið enda skilaði þetta mikilvægum stigum í baráttu liðsins um Evrópumeistaratitilinn.
Íslenska kvennaliðið lenti í smá örðugleikum á trampólíni í undankeppninni en það er ljóst að þjálfarar liðsins hafa gert viðeigandi breytingar fyrir úrslitin í dag. Liðið hækkaði sig um 1,5 stig frá undankeppnina á trampólíninu og fékk 17,750 stig.
Næst fór liðið á gólf en gólfæfingarnar hafa verið sterkasta áhald íslenska liðsins. Stelpurnar voru með hæstu einkunn mótsins á gólfi í sínum flokki í undankeppni og gerðu þær enn betur í úrslitunum. Liðið fékk 22,300 stig fyrir gólfið sem og munaði bara 0,6 stigum á Íslandi og Svíþjóð eftir tvö áhöld.
Íslensku stelpurnar áttu þá bara dýnuna eftir á meðan þær sænsku áttu eftir að fara á trampólín.
Sænsku stelpurnar voru með tvö föll á trampólíninu og var því öll pressan á íslenska liðinu fyrir dýnuna. Íslenska liðið ákvað að gera þetta spennandi og var einnig með tvö föll á dýnunni og því allt í járnum.
Andrúmsloftið var rafmagnað þegar stelpurnar biðu eftir að sjá lokaeinkunn liðsins og ætlaði allt um koll að keyra úrslitin voru ljós.