Flugumferð gæti raskast ef gýs í Grímsvötnum

frettinInnlendar

Flugmálayfirvöld búa sig undir að eldgos í Grímsvötnum geti valdið verulegum truflunum á flugumferð, bæði hérlendis og víðar í Evrópu. Eldstöðin er komin á appelsínugula viðvörun gagnvart alþjóðaflugi, sem táknar vaxandi líkur á gosi.

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að Grímsvatnahlaupið er núna talið hafa tæmt vötnin að mestu en hlaupvatnið rann fram í Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Þar sem nokkur dæmi eru um að svona skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hafi hleypt af stað gosi klingdu allar viðvörunarbjöllur í morgun þegar skjálftahrina hófst.

„Stærsti skjálftinn var 3,6, sem er töluvert öflugur skjálfti, sérstaklega miðað við þessa eldstöð. Þannig að við brugðumst við því,“ segir Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur og hópstjóri náttúruvöktunar á Veðurstofu Íslands.

Það var gert með því að hækka viðvörunarstig Grímsvatna vegna alþjóðaflugs úr gulum lit í appelsíngulan.

„Og ætlum að halda því núna líklega í svona sólarhring að öllu óbreyttu. Við erum sem sagt í rauninni bara komin ennþá meira á tærnar varðandi það að þarna geti komið eldgos,“ segir Kristín.

Og það yrði öskugos en síðasta Grímsvatnagos árið 2011 truflaði flugumferð um hríð, bæði hérlendis og erlendis.

Visir greindi frá.