Eftir Benedikt S. Lafleur rithöfund (birt í Morgunblaðinu 6. des. 2021)
„Það sætir furðu að háværar raddir skuli heyrast úr röðum nútímalegra og jafnréttissinnaðra þjóðarleiðtoga, sem og virtra fræðimanna, um að skilja að bólusett fólk og óbólusett í stríðinu við Covid-19.“
Gyðingastjarnan var og verður um ómunatíð tákn helfarar sem þjóðarleiðtogar sammælast reglulega um að megi aldrei endurtaka sig. Jafnvel þótt mögulega megi viðurkenna arðránstilburði auðugra gyðinga gagnvart sveltandi samlöndum sínum á kreppuárunum fyrir stríð eru flestir sammála um að gyðingar Þriðja ríkisins hafi verið gerðir að blórabögglum flóknari samfélagsvanda og hvað sem öllu því líður hafi ekkert getað réttlætt hina eitruðu hugmyndafræði nasista og þá aðskilnaðarstefnu sem þeir höfðu í frammi gagnvart gyðingum og öðrum minnihlutahópum. Sama má segja um aðskilnaðarstefnu hvítra og svartra í Suður-Afríku. Hvorug stefnan gekk upp og varð langlíf.
Í þessu ljósi sæti því furðu að háværar raddir skuli nú heyrast úr röðum nútímalegra og jafnréttissinnaðra þjóðarleiðtoga, sem og virtra fræðimanna, víða um heim, um mikilvægi þess að skilja að bólusett fólk og óbólusett í stríðinu við hina þrautseigu og næsta ósýnilega veiru, Covid-19, hvað þá berja niður mótmæli gegn slíkum áformum og víkja um leið strangvísindalegum og siðfræðilegum kröfum til hliðar til lengri eða skemmri tíma.
Þótt vissulega megi færa rök fyrir því að bólusetningar þær sem við þekkjum nú í glímunni við veiruna kunni líklega að fækka sjúkrainnlögnum benda aðrar rannsóknir til þess að bólusettir smiti ekkert síður en óbólusettir. Öðru nær. Þeir sem bólusettir séu kunni jafnvel að vera kærulausari í samskiptum við aðra en hinir sem ekki hafa látið bólusetja sig og þar að auki grunlausir um að þeir megni að smita aðra einkennalausir með öllu, eins og rannsóknir benda nú til. Þá virðast fæstir vita hvenær lyfin byrja nákvæmlega að virka eða hve lengi þau virka.
Á sama tíma og þessum rannsóknum fjölgar samfara fleiri efasemdaröddum um heim allan verða birtingarmyndir hinnar nýju aðskilnaðarstefnu æ öfgafyllri og afdráttarlausari: Í Austurríki var nýverið komið á útgöngubanni ætluðu óbólusettum og í Ástralíu stendur jafnvel til að skipuleggja sérstakar búðir til að einangra óbólusetta frá hinum bólusettu. Okkur berast fregnir frá Danmörku og öðrum vinveittum löndum þar sem óbólusettum hefur verið gert að bera grímu á ýmsum vinnustöðum, óbólusettir fá ekki lengur að sækja opinbera viðburði, veitingahús eða fjölmenna staði. Þessi aðskilnaðarstefna minnir óneitanlega á aðskilnaðarstefnur Þriðja ríkisins og í Suður-Afríku forðum.
Þótt við Íslendingar höfum enn sem komið er ekki gengið jafn langt í hinni nýju aðskilnaðarstefnu hafa sumir hér á landi tekið undir hugmyndir í svipaða veru, þar á meðal Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem lagði það á sig að leitast við að uppræta gyðingafordóma skáksnillingsins Bobbys Fischers. Þá halda íslensk stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld áfram að herja á allan almenning, líka börn og gamalmenni, með endalausum bólusetningaráróðri, aldraðir og fatlaðir fá ekkert svigrúm til að verjast endurteknum sms-skilaboðum um að mæta í Höllina í enn einu bólusetningarátaki Big Farma í boði örvæntingarfullra valdhafa án þess að hann sé spurður leyfis eða þurfi að gefa upplýst samþykki og án þess að siðfræðingar eða heimspekingar rísi upp – ekki endilega til að mótmæla heldur þó ekki væri nema til að ljá röddu gagnrýnnar hugsunar lið.
Vitnað er látlaust í rannsóknir Big Farma þó að gígantískir fjárhagslegir hagsmunir þeirra ættu einir og sér að hringja aðvörunarbjöllum og leynilegir samningar þeirra við stjórnvöld víða um heim – líka á Íslandi – í krafti einokunar og trygginga um engar skaðabætur hljóti að vekja allt hugsandi fólk til umhugsunar.
Í skrifum sínum hefur ísraelski metsöluhöfundurinn Yuval Noah Harari varað við einræðistilburðum stjórnvalda í baráttunni við Covid-19 og dregið upp býsna dökka mynd af framtíðinni. Skyldu stærstu fjölmiðlar heims halda áfram að hampa honum nú þegar þeir þurfa að taka afstöðu gegn helstu styrktaraðilum sínum?
Sjálfur var ég á meðal þeirra fyrstu sem báru grímu á Íslandi þegar fyrstu smit bárust til landsins og fékk bágt fyrir. Sóttvarnalæknar margra landa, m.a. Íslands, vöruðu við fölskum forvarnaráhrifum grímanna. Nú hefur þeim sömu snúist hugur og hika ekki við að boða grímuskyldu með reglulegu millibili.
Getur verið að í fyllingu tímans muni nýjar rannsóknir og reynslan af bóluefnunum og þeim aðferðum sem beitt er nú leiða í ljós slælega virkni þeirra, ágalla eða jafnvel skaðsemi og um leið afhjúpa vítaverða afstöðu þeirra sem stóðu að innleiðingu og útbreiðslu bólusetningarlyfjanna, sem enginn vill þurfa að axla ábyrgð á?
Ég veit ekki um ykkur en ef ég væri starfandi heilbrigðisstarfsmaður eða ábyrgur stjórnmálamaður myndi ég leyfa sem flestum að njóta vafans í þessum efnum og leggja mestu áhersluna á forvarnirnar og að vernda þá sem veikastir eru fyrir gagnvart hinni skæðu veiru. Skipulögð útskúfun þeirra sem ekki treysta í blindni bólusetningarherferðum þeim sem nú standa yfir gegn Covid-19, sem þar að auki hafa ekki enn sannað gildi sitt til fullnustu, ætti aldrei að verða örþrifaráð neinna valdhafa. Hvorki hér né annars staðar. Fyrr né síðar.