Friðarverðlaunahafi Nóbels gagnrýnir Facebook fyrir að kynda undir hræðsluáróðri

frettinErlent

Filippseyska blaðakonan og friðarverðlaunahafi Nóbels, Maria Ressa, gagnrýndi bandaríska tæknirisann Facebook harðlega þegar hún tók við verðlaunum sínum í gær og sakar samskiptamiðilinn um að kynda undir hræðsluáróðri um kórónuveiruna á Facebook.

Ressa sem er meðstofnandi fréttavefsins Rappler og hefur birt nokkuð gagnrýnar greinar um Rodrigo Duterte forseta Filippseyja, nýtti ræðu sína til að gagnrýna Silicon Valley þar sem heimastöðvar samskiptamiðilsins eru og ásakaði miðilinn um að ,,kalla fram það versta í mannfólkinu“.

Ressa sagði að tæknirisinn „hafi leyft lygavírus að smita okkur hvert og eitt, stilla okkur upp á móti hvert öðru, draga fram ótta, reiði og hatur og leggja grunninn að uppgangi valdhafa og einræðisherra um allan heim.

Hún bætti við: „Mesta þörf okkar í dag er að umbreyta hatri, ofbeldi og hræðsluáróðri sem streymir í gegnum miðilinn og er forgangsraðað af bandarískum netfyrirtækjum sem græða meiri peninga með því að dreifa þessu hatri og ósannindum og koma því versta af stað innra með okkur.

„Það sem gerist á samfélagsmiðlum verður ekki bara áfram á samfélagsmiðlum. Netofbeldi er raunverulegt ofbeldi," segir hún.

Ressa er fyrsta manneskjan frá Filippseyjum til að vinna hin eftirsóttu verðlaun og deildi hún verðlaununum með rússneska blaðamanninum Dmitry Muratov, aðalritstjóra hins óháða miðils Novaya Gazeta, fyrir sérstaka baráttu þeirra fyrir tjáningarfrelsi.

Hún sagði að staðreyndir og sannleikur væru kjarninn í að leysa stærstu áskoranirnar sem samfélagið stendur frammi fyrir í dag.

„Án staðreynda er enginn sannleikur og án sannleika er ekkert traust. Án trausts höfum við engan sameiginlegan veruleika og ekkert lýðræði og það verður ómögulegt að takast á við tilvistarvandamál heimsins: loftslag, kórónuveiru og baráttuna um sannleikann.

Heimild: The Daily Mail.