Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur skrifar:
,,Forstjóri Grundar hefur veitt því athygli að vistmenn hans eru ólíklegri til að deyja úr kórónaveirunni hafi þeir verið bólusettir. Hann dregur því þá ályktun að bólusetja verði alla. En hvað um göngugrindur? Þær eru vissulega mikilvægt hjálpartæki aldraðra. En þýðir það að skylda eigi alla til að nota þær?"
Stolið og stælt frá Gísla Páli Pálssyni, forstjóra Grundarheimilanna:
"Algjört jarðsprengjusvæði. En hugleiðing dagsins er þessi: Er skynsamlegt að nota göngugrind eða ekki? Ég er ekki í neinum vafa og var að kaupa þá þriðju um daginn. Og er ánægður með að vera kominn með enn betri vörn við þessari hálku og slysagildrum sem alls staðar finnast.
Í samfélaginu eru mjög skiptar skoðanir á málinu. Eðlilega. Það eru þó talsvert fleiri á því að göngugrindur gagnist en hinir. Minnir að rúmlega 80% þeirra sem hefur verið boðin göngugrind hafi þegið hana. Og nær allir heimilismenn hjúkrunarheimilanna þriggja sem heyra undir Grundarheimilin, Grundar, Áss og Markar, nota göngugrind.
Margt er ritað og rætt um gagnsemi göngugrinda. Sumir myndu segja skaðsemi þeirra. Ég er ekki í neinum vafa. Miðað við slys á heimilismönnum Grundarheimilanna, þá er það engum vafa undirorpið í mínum huga að göngugrindur skipta öllu máli. Því fleiri göngugrindur því betra. Þeir sem enga eiga göngugrindina detta mest og slasast verst. Þeir sem eiga nýjustu gerð göngugrindar lenda í fæstum slysum.
Ég hugsa til þess með hryllingi ef þeir sem eru alfarið á móti göngugrindum hefðu ráðið för hér á landi í þessu vetrarveðri. Það er ef til vill kaldhæðið að segja þetta, en læt vaða: Ef enginn notaði göngugrind á hjúkrunarheimilum landsins væru fæstir þar fótafærir. Því ættu allir landsmenn að nota göngugrindur."
Grein Gísla Páls birtist í Morgunblaðinu 4. desember sl. og fylgir hér:
Bólusetning eður ei?
Eftir Gísla Pál Pálsson
Algjört jarðsprengjusvæði. En hugleiðing dagsins er þessi: Er skynsamlegt að láta bólusetja sig eða ekki? Ég er ekki í neinum vafa og var í þriðju bólusetningunni nýlega. Og er ánægður með að vera kominn með enn betri vörn við þessum andstyggðarvírus sem engu eirir.
Í samfélaginu eru mjög skiptar skoðanir á málinu. Eðlilega. Það eru þó talsvert fleiri á bólusetningarlínunni en hinir sem vilja ekki bólusetningu. Minnir að rúmlega 80% þeirra sem hefur verið boðin bólusetning hafi þegið hana. Og nær allir heimilismenn og starfsmenn hjúkrunarheimilanna þriggja sem heyra undir Grundarheimilin, Grundar, Áss og Markar, hafa þegið bólusetningu. Mismarga skammta eftir því sem tímasetningar hafa leyft.
Margt er ritað og rætt um gagnsemi bólusetninga við Covid 19. Sumir myndu segja skaðsemi bólusetninga. Ég er ekki í neinum vafa. Miðað við veikindi þeirra heimilis- og starfsmanna Grundarheimilanna sem hafa smitast af Covid-19, þá er það engum vafa undirorpið í mínum huga að bólusetning skiptir öllu máli. Því fleiri bólusetningar því betra. Veikindi framangreindra eru því minni eftir því sem bólusetningarnar eru fleiri. Óbólusettir veikjast mest og flestir talsvert mikið. Þeir sem hafa fengið þrjá skammta af bóluefni veikjast flestir lítið sem ekkert.
Ég hugsa til þess með hryllingi ef þeir sem eru alfarið á móti bólusetningum hefðu ráðið för hér á landi í þessum vonda faraldri. Það er ef til vill kaldhæðið að segja þetta, en læt vaða: Ef enginn hefði verið bólusettur á hjúkrunarheimilum væru engir biðlistar eftir rýmum þar.
Höfundur er forstjóri Grundarheimilanna. [email protected]