Hverfismiðstöð með nýrri sundlaug, þeirri fyrstu í Reykjavík í 23 ár, og nýju bókasafni var opnuð í Úlfarsárdal í morgun. Heildarfjárfesting verkefnisins er upp á 14 milljarða króna og framkvæmdin er ein sú stærsta sem Reykjavíkurborg hefur ráðist í. Borgarstjóri segir daginn tímamót í sögu borgarinnar.
Húsnæðinu í Úlfarsárdal er ætlað að vera miðstöð mennta, menningar og íþrótta en mannvirkið í heild er um 18 þúsund fermetrar. Sundlaug og bókasafn deila afgreiðslu en í miðstöðinni er einnig Dalskóli, samrekinn leik- og grunnskóli, ásamt frístundaheimili. Í sumarbyrjun 2022 bætist íþróttahús knattspyrnufélagsins Fram við - og síðar sama ár verður keppnisvöllur utanhúss vígður. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir þetta eina stærstu framkvæmd sem borgin hefur ráðist í frá upphafi.
Borgarstjóri gleymdi opnuninni
Hin nýja Dalslaug er áttunda almenningssundlaug Reykjavíkur en síðast var ný sundlaug opnuð í Reykjavík árið 1998, Grafarvogslaug. Eftirvænting eftir nýrri laug, og opnun miðstöðvarinnar allrar, ruglaði borgarstjóra örlítið í ríminu í morgun.
„Ég steingleymdi að ég væri að fara í sund að vígja laugina og smellti mér bara í sturtu,“ segir hann.
Þannig fari hann allavega tvisvar í bað í dag. „Það er auðvitað alveg sérstaklega ánægjulegt að mæta alveg tandurhreinn í nýju sundlaugina í Úlfarsárdal,“ segir borgarstjóri.
Dagur segir að ákveðið hafi verið að teygja opnunarhátíðina yfir helgina vegna sóttvarnatakmarkanna. Þannig verði frítt ofan í laugina um helgina og allir velkomnir til að skoða bókasafnið og skólann fyrir eða eftir sundferð. „Þannig þetta verður ein allsherjar hverfis- og borgarhátíð,“ segir Dagur B. Eggertsson að lokum.
Visir greindi frá.