Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir afar mikilvægt að ef verði af bólusetningu barna hér á landi að þá verði það undirbúið með öllum tiltækum ráðum og upplýsingum. Lykilatriði sé að fólk átti sig á því að um val sé að ræða.
Willum Þór ræddi bólusetningar barna að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í morgun. Lyfjastofnun Evrópu samþykkti fyrir þremur vikum notkun bóluefnis Pfizer fyrir börn á aldrinum fimm til ellefu ára. Bóluefnið hefur verið pantað og er á leið til landsins en reiknað er með markaðsleyfi hér á landi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagst reikna með því að bólusetningin hefjist aðra vikuna í janúar. Fyrir liggur að ekki verður bólusett í Laugardalshöll en hugsanlega í grunnskólum.
„Ég ítreka að þetta verður alltaf val. Það er rosalega mikilvægt, ef við bjóðum þetta svona, að við undirbúum það vel með öllum tiltækum upplýsingum og ráðum. Vöndum okkur við þetta. Þetta er mjög viðkvæmt mál og eðlilega. Nú er ég bara að tala sem foreldri,“ segir Willum Þór.
Hann segir samtal í gangi um framkvæmdina.
„Heilsugæslan er að undirbúa framkvæmdina á þessu. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig það verður framkvæmt.“
Yfirstandandi bylgja faraldursins hefur að hluta verið borin uppi af óbólusettum börnum á grunnskólaaldri.
„Það er auðvitað búið að leggja til grundvallar um hvað þetta snýst, að vernda börnin. Þannig verðum við að horfa á þetta. En á sama tíma þarf að leggja áherslu á að þetta er val, sem er í boði. Svo er framkvæmdin og upplýsingagjöfin lykilatriði í þessu.“
Viðtal við Willum Þór má sjá hér að neðan Visir greindi frá.