Hagsmunasamtök heimilanna sendi rétt í þessu út fréttatilkynningu en samtökin fordæma aðgerðir og yfirlýsingar Íslandsbanka sem eru til þess gerðar að blekkja neytendur til að velja eða skipta yfir í verðtryggð lán að nýju.
Neytendur skulu hafa það í huga að bankar eru almennt ekki með hagsmuni neytenda í huga heldur eru hagsmunir þeirra sjálfra og þeirra fjárfesta, ávallt í forgrunni.
Í hartnær fjörtíu ár hafa bankarnir makað krókinn á verðtryggðum lánum heimilanna sem hækka og hækka í allt að 25 ár þrátt fyrir að samviskusamlega sé greitt af þeim.
Eftir þann tíma tekur höfuðstóll lánanna svo smám saman að lækka, hafi lántakandi yfirleitt ráðið við hækkandi afborganir fram að því. En jafnvel þá hækka afborganir áfram í veldisvexti því aðeins þannig næst að greiða niður stórhækkaðan höfuðstól á tilskildum tíma.
Núna sjá þeir fram á að sú mikla uppspretta sé hægt og rólega að þorna upp og það veldur stjórnendum bankans svo miklum áhyggjum að þeir bregða á það ráð að nota hunangsgildru lægri vaxta, til að blekkja fólk inn í gildru sem mun fljótlega lokast og skilja þau eftir án nokkurra bjargráða.
Það er staðreynd að jafnvel þó vextir verðtryggðra lána væru 0% myndu þau samt vera óhagstæðari en óverðtryggð lán miðað við núverandi forsendur um verðbólgu og vexti.
Við verðum að gera ráð fyrir því að þetta sé forsvarsmönnum Íslandsbanka vel kunnugt, því annars eru þeir engan veginn starfi sínu vaxnir.
Þrátt fyrir hærri afborganir í fyrstu eru óverðtryggð lán betri
Það eina sem er rétt í málflutningi Íslandsbanka er að hækkandi vextir í kjölfar hækkana meginvaxta Seðlabanka Íslands munu hafa áhrif til hækkunar á afborganir óverðtryggðra lána. Það er það sem þeim er ætlað að gera því þannig er slegið á þenslu og til þess er þetta hagstjórnartæki seðlabankans hugsað. En þrátt fyrir hækkun nú, munu vextir lækka á ný þegar aðstæður breytast.
Hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána vegna tímabundinnar verðbólgu, mun hins vegar hækka lánið og afborganir í veldisvexti, út lánstímann.
Það er því alltaf betra fyrir neytendur að herða ólina tímabundið og takast á við hærri afborganir, heldur en að þiggja þetta skammarlega gylliboð Íslandsbanka. Það boð er skammgóður vermir og helst hægt að líkja því við að „pissa í skóinn sinn".
Í þessu liggur samt kjarni vandans. Alltaf þegar erfiðleikar steðja að virðist eina ráðið vera að hækka vexti. Að sögn er það til að slá á verðbólgu og hækkandi vöruverð. Með því er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, því að fyrir langflestar fjölskyldur væri sá kostur betri að borga hærra vöruverð, en að húsnæðisskuldir eða leiga hækki.
Ríkisstjórnin verður nú þegar að grípa inn í og stöðva áhrif verðtryggingar á leiguverð og lán heimilanna a.m.k. allt næsta ár, ef ekki á illa að fara.
Samtökin minna á að það eru þeir sem verst eru settir sem enn eru fastir á leigumarkaði eða hafa ekki getað losað sig úr gildru verðtryggðra lána. Að Íslandsbanki skuli nú reyna að spila á neyð þessa verst setta hóps í samfélaginu er hreinlega skammarlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Hagsmunasamtök heimilanna beina því enn fremur til stjórnenda Íslandsbanka, vilji þeir í alvöru létta byrðum hækkandi afborgana af heimilum landsins, að þeim ber alls engin skylda til að hækka sína vexti þó að Seðlabankinn hækki meginvexti sína. Í því samhengi er rétt að minna stjórnendur bankans á að þegar Seðlabankinn lækkaði vexti fylgdi Íslandsbanki ekki eftir nema að litlu leyti. Þar munaði um 250% eða 2,5 prósentustigum þegar mest lét. Þessa lækkun eiga neytendur enn inni hjá Íslandsbanka og ein leið til að greiða þá skuld gæti verið að hækka vexti ekki frekar á meðan á þessu vaxtahækkunarskeiði seðlabankans stendur.
Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana!
Hagsmunasamtök heimilanna
Fréttatilkynninguna má skoða nánar með því að smella hér.