Öryrkjar fá ekki 50 þúsund króna eingreiðslu frá ríkinu til viðbótar við desemberuppbót sína eins og á síðasta ári. Formaður flokks fólksins gagnrýnir að ekki sé hægt að koma til móts við fátæka þegar bankaskattar séu lækkaðir um milljarða.
Staða öryrkja hefur verið borin saman við stöðu þeirra sem eru atvinnulausir en atvinnulausir fá um 92 þúsund króna desemberuppbót. Í ár fá öryrkjar ekki nema um 48 þúsund krónur og er því um 45 þúsund króna munur á. Í fyrra ákvað ríkisstjórnin að gefa öryrkjum 50 þúsund króna eingreiðslu til að brúa bilið sem verður ekki gert í ár.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í þetta á þinginu í dag og segir Inga að Katrín hafi í raun ekki svarað fyrirspurninni.
„Þetta voru bara útúrsnúningar eins og þeim einum er lagið ef við erum að koma með spurningar fyrir þau í óundirbúnum fyrirspurnum, því miður,“ sagði Inga í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Þegar þú talar um 48 þúsund krónur í jólabónus, eða desemberuppbót til öryrkja núna, þetta skerðir allt. Þetta er skattað og þetta skerðir og uppi standa þau með ekki neitt,“ sagði Inga.
Hún gagnrýnir að ekki meira sé gert fyrir þá sem minnst mega sín á meðan komið sé til móts við aðra betur stadda.
„Á meðan getum við lækkað hér bankaskatt um milljarða króna og við getum verið að gefa aðgang að sjávarauðlindinni nánast ókeypis og geta ekki rétt fátæku fólki hjálparhönd og gefið því gleðileg jól þá er ég gjörsamlega miður mín,“ segir Inga.
„Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þau muni ekki taka utan um þennan þjóðfélagshóp þegar málin okkar ganga bæði í gegn um fjárlög og svo getum við komið því líka inn í fjárauka og þá gætu þau fengið greitt fyrir jólin.“
Hún segir þrátt fyrir þetta að ríkisstjórnin geti ekki annað en hlustað á sig.
„Þau hlusta á mig, þau geta ekki annað. Ég hef alltaf svo hátt. En jú þau hlusta og auðvitað vita þau að þetta er svona en það er bara spurningin um að taka utan um það og framkvæma hlutina."
Visir greindi frá.