Ummæli fjölmiðla um ,,óbólusetta“ kærð til Fjölmiðlanefndar

frettinInnlendarLeave a Comment

Kvörtun vegna hatursorðræðu í garð óbólusettra beint til Fjölmiðlanefndar

Í erindinu, sem dagsett er 15. desember sl. og Fréttin.is hefur afrit af, er vísað til brota á lögum um fjölmiðla nr. 38/2001 sem fjalla m.a. um hatursorðræðu.

Þá segir að í fjölmiðlum hafi að undanförnu birst orðræða sem helst megi líkja við jaðarsetningu óbólusetts fólks. Stjórnmálamenn, ritstjórar, félagasamtök, heilbrigðisstarfsfólk, sóttvarnalæknir, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar o.fl. hafi tjáð sig með afgerandi hætti í þá veru að bólusettu fólki stafi veruleg hætta af óbólusettum. Bent er á að t.d. hafi verið staðhæft að óbólusettir séu ,,verksmiðjur fyrir ný afbrigði” og að „rétt væri að setja óbólusetta í sóttkví að eilífu”. Einnig er vísað til þess að Mæðrastyrksnefnd hafi ekki viljað hleypa óbólusettum inn í húsnæði sitt.

Fram kemur í erindinu að þótt sum tilvitnaðra ummæla séu augljóslega fyrst og síðast á ábyrgð þeirra sem létu þau frá sér fara, sé þess vænst að fjölmiðlanefnd taki gagnrýnislausan fréttaflutning hlutaðeigadi fjölmiðla til sjálfstæðrar skoðunar út frá meginreglum laga um hlutverk og skyldur fjölmiðla. Þess er vænst að fjölmiðlanefnd árétti í því sambandi að fjölmiðlum beri að upplýsa almenning en ekki taka þátt í að formyrkva hugi fólks, dreifa ósannindum og ala á fordómum.

Með vísan til framgöngu fjölmiðlanefndar hvað viðvíkur svonefndum falsfréttum er þess krafist að fjölmiðlanefnd fjalli sérstaklega um þann þátt framangreindrar fjölmiðlaumfjöllunar sem telst gagnrýniverður fyrir þær sakir að hann hvílir á ótraustum vísindalegum grunni.

Nánar eru tiltekin sex tilvik ummæla og fjórir fjölmiðlar sem birt hafa ummælin sem kvartað er yfir og talið að þau kunni að varða við ákvæði 26. gr. og 27. gr. fjölmiðlalaga.

Í erindinu er vísað sérstaklega til ábyrgðar fjölmiðla í lýðræðislegu tilliti og áréttað að hugmyndir almennings um vörn bóluefnanna gegn smiti séu mótaðar af daglegum fréttaflutningi af hlutfalli óbólusettra meðal þeirra sem greinast hérlendis, og nýgengi smita eftir bólusetningarstöðu. Þessar tölur innihaldi hins vegar það mikla bjögun að þær gefi í raun engar vísbendingar um vörn bóluefnanna gegn smiti. Staðreyndin sé sú að engin hágæða rannsókn (slembiröðuð íhlutunarrannsókn) hafi metið vörn bóluefnanna gegn einkennalausu smiti. Það finnist því engin áreiðanleg gögn sem styðji staðhæfingar um að óbólusettir séu líklegri til að smitast af Covid.

Tilvitnaður fréttaflutningur sé dæmi um framsetningu sem birst hefur í íslenskum fjölmiðlum á árinu 2021. Eru ummælin talin fela í sér hatursorðræðu í garð minnihlutahóps þar sem alið er á ótta/hatri gagnvart óbólusettu fólki sem af persónulegum ástæðum hafi valið að þiggja ekki tilraunabóluefni eða getur ekki þegið slíka sprautu af heilsufars- eða öðrum ástæðum.

Fram kemur í rökstuðningi að tilvitnuð ummæli feli einnig í sér vísvitandi hvatningu til mismununar og séu þar af leiðandi mun alvarlegri en hefðbundin gagnrýni á grundvelli stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis, sem allir þjóðfélagsþegnar þurfa að geta þolað.

Við mat á alvarleika þeirra ummæla sem hér um ræðir beri að horfa til þess að hér eigi í hlut blaðamenn, forstjórar, ritstjórar o.fl. sem teljast vera í áhrifastöðum og teljast til fyrirmynda hins almenna borgara þegar kemur að því að skilgreina hvað telst viðeigandi orðaval og orðræða. Ummæli slíks áhrifafólks á opinberum vettvangi vegi af þessum sökum þyngra en annarra. Því verði það að teljast alvarlegt þegar fólk sem gegnir ábyrgðarstöðum ræðst beint á samheldni samfélagsins með því að samþykkja, ala á eða stuðla á fordómum.

Tekið er fram í kvörtuninni að ekki sé lítið gert úr gildi tjáningarfrelsis. Framganga fjölmiðlanefndar og fulltrúa hennar síðustu ár, hafi verið á þann veg að greina hafi mátt ríka áherslu á takmörkun tjáningarfrelsis til að verjast hatursorðræðu.

Í erindinu er kallað eftir því að fjölmiðlanefnd verði sjálfri sér samkvæm við meðferð og úrlausn þeirra atriða sem hér um ræðir. Um sé að ræða viðfangsefni sem færi fræðilega umfjöllun fjölmiðlanefndar inn á svið raunveruleikans. Verji nefndin ekki þau gildi í verki sem hún hefur vegsamað í orði, væri nefndin að bregðast því hlutverki sem henni er að lögum ætlað að gegna.

Í lok erindisins er þess krafist að fjölmiðlanefnd taki kvörtunina til efnislegrar meðferðar, rannsaki hvert og eitt atvik eftir þörfum og ákvarði hæfileg viðurlög fyrir brot á áður tilgreindum lagaákvæðum. Þess er jafnframt krafist að fjölmiðlanefnd taki afstöðu til þess hvort tilefni sé til að kæra alvarlegustu tilvikin til lögreglu, sbr. 57. gr. laga fjölmiðlaga.

Hér fyrir neðan má lesa brot úr skjalinu og smella á rannsóknir sem vísað er til.

Athugunarrannsókn gefur til kynna að vörn gegn smiti sé til staðar, en að hún dvíni hratt, og sé einungis 20% fimm mánuðum eftir annan skammt. Rannsakendur gerðu tilraun til að leiðrétta gagnvart þeirri bjögun sem stafar af mismunandi aldri smitaðra, en það er aðeins einn af mörgum þáttum sem geta haft áhrif á niðurstöður.

Fjöldi rannsókna bendir til að veirumagn sé ekki minna í smituðum bólusettum einstaklingum þótt þeir séu oft með minni einkenni en óbólusettir. Bóluefni sem fela einkenni en draga ekki úr smiti geta þannig aukið útbreiðslu veirunnar. Önnur rannsókn sýndi að 25% bólusettra en aðeins 23% óbólusettra hafi smitað heimilisfólk sitt. Mörg dæmi eru um að bólusettir hafi smitað marga jafnvel í fullbólusettum hópum.

Arnar Þór Jónsson hrl. sendir erindið f.h. Sigríðar Láru Hermannsdóttur.

Skildu eftir skilaboð