Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa ákveðið að virkja SMS-skilaboð sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði umhverfis Heklu.
Hekla er farin að þenjast út og er komin á sama mark og fyrir eldgosið árið 2000.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Lögreglustjórinn á Suðurlandi varar fólk við því að fara í göngu á Heklu.
Ferðafólk sem fer inn á svæðið nálægt Heklu mun fá SMS tilkynningu um að lítill fyrirvari sé til að bregðast við ef eldgos hefst. Síðast gaus í Heklu árið 2000 og þar á undan liðu 10 ár á milli síðustu gosa. Ekki er hægt að útiloka að SMS-skilaboðin berist til fólks aðeins utan við skilgreint svæði og er því almenningur beðinn um að hafa það í huga.
Almannavarnir segja að mælingar á þenslu sýni að kvikuþrýstingur í kvikuhólfi undir Heklu hafi náð sama marki árið 2006 og það var fyrir eldgosið árið 2000.
„Engir sérstakir fyrirboðar eru um að Hekla sé nær því að gjósa nú en áður, en rétt þykir að nýta þessa tækni til þess að upplýsa fólk sem fer á þetta svæði um hættuna,“ segir í tilkynningu frá Almannavörnum.