Hinir ýmsu blóðflokkar hafa löngum vafist fyrir læknum sem allar götur frá árinu 1901 hafa reynt að rýna í hvað blóðflokkarnir gefa til kynna um okkur.
Nú hafa nýjustu rannsóknir leitt í ljós að blóðflokkarnir eru afgerandi fyrir það hvort við eigum eftir að veikjast af tilteknum sjúkdómum. Einn tiltekinn blóðflokkur gagnast betur en allir hinir.
Þannig deilast blóðflokkarnir fjórir á heimsvísu. Þess má þó geta að svæðisbundnar sveiflur koma fyrir og í Suður-Ameríku eru t.d. margir í flokki O á meðan flestir Norðurlandabúar eru í flokki A.
Íslendingar skera sig þó úr meðal Norðurlandaþjóðanna, því hér eru um 56% í blóðflokki O, 32% í blóðflokki A, 10% í B og einungis 3% í blóðflokki AB. Til samanburðar þá er A flokkurinn algengastur hjá frændum okkar Norðmönnum, þar sem 49% tilheyra þeim flokki, 39% eru í O flokki, 8% í B og 4% Norðmanna eru í AB blóðflokknum.
Flokkur O er konungur blóðflokkanna
Þeir sem eru í blóðflokki O geta tölfræðilega séð átt von á að sleppa við krabbamein, minnisglöp og hjartasjúkdóma.
Rannsókn ein leiddi nefnilega í ljós að fólki í blóðflokki A, B og AB er 15% hættara við að látast af völdum hjarta- og æðasjúkdóma en þeim sem eru í flokki O.
Auk þess virðist blóðflokkur O vernda líkamann gegn krabbameini.
Vísindamenn telja skýringuna vera fólgna í því að blóðflokkarnir A, B og AB fái ónæmiskerfið til að erfiða, með þeim afleiðingum að líkamanum verði hættara við að veikjast af krabbameini, á meðan O flokkurinn sé hagstæðari hvað þetta varðar.