Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir skrifar í Morgunblaðið 30. desember:
„Bretar mæla ekki með bólusetningu barna 5-11 ára, af hverju við?“
Nú stendur til að bólusetja börn frá 5-11 ára. Ætlunin er að nota sama bóluefni og fullorðnir hafa verið bólusettir með undanfarið ár – einu sinni, tvisvar og þrisvar o.s.frv. Vernd bóluefnanna hefur verið klén ef nokkur eins og öllum ætti að vera orðið ljóst.
Rannsóknir á milljónum barna í Evrópu hafa verið gerðar, á um tveimur milljónum í Svíþjóð og enn fleirum í Þýskalandi. Í þeim öllum kemur skýrt fram að mjög fá börn urðu alvarlega veik af Covid og engin dauðsföll. Fjöldi rannsókna sýnir ótvírætt fram á að afar sjaldgæft er að börn veikist alvarlega af Covid og segja má að andlát meðal þeirra séu engin (faraldsfræðilega séð). Sænsk rannsókn Ludvigssons á 1.951.905 börnum í Svíþjóð á aldrinum 1-16 ára, sem sóttu skóla að mestu án nándartakmarkana eða notkunar andlitsgríma, sýndi engin dauðsföll hjá börnunum. Þrátt fyrir að Svíþjóð hafi haldið leikskólum og grunnskólum sínum opnum kom í ljós mjög lág tíðni alvarlegra Covid-19-einkenna hjá þessum börnum.
Nýleg þýsk rannsókn, SARSCoV-2 KIDS, varðandi börn og unglinga sem lagst hafa inn á sjúkrahús í Þýskalandi með annaðhvort SARS-CoV-2 eða PIMS-TS (Pediatric Inflammatory Multisystem Syndrome), sýndi að ekkert barn á aldrinum 5-18 ára lést.
Ómíkron tók yfir smitin
Ómíkron er með 50 stökkbreytingum – þ.e. nýr stofn veiru. Allar þessar rannsóknir voru gerðar fyrir tíð hins nýja stofns sem núna herjar á okkur. Varla er hægt að kalla þetta afbrigði kórónuveiru lengur, svo frábrugðin er SARS-CoV-2 þróunarlega séð. Alls hafa fundist um 50 stökkbreytingar í ómíkron og a.m.k. 36 á sjálfum tengisprota (spike) hennar.
Hvaða þýðingu hafa allar þessar stökkbreytingar? Hvaða áhrif hafa þær á árangur bóluefnanna sem fólk hefur verið bólusett með síðasta árið í eitt, tvö og jafnvel þrjú skipti eða oftar, örvun, og virðast ekki duga til lengdar og hjarðónæmið fjarri, þetta sem átti að stöðva faraldurinn? Notað er sama bóluefnið aftur og aftur og nú er ætlunin að sprauta börnin með þessum sömu bóluefnum sem verja hvorki þau né aðra gegn Ómíkron. Er hægt að búast við að þessi bólulyf verndi börnin eitthvað betur en þá eldri? Verndin er engin en óvissa aukaverkana nokkur. Hver er ávinningurinn ef aukaverkanirnar eru bara eftir?
Hjarðónæmið bíður enn síns tíma þótt 90% þjóðarinnar séu að fullu tví- eða þrísprautuð, en vitað er núna að bóluefnið virkar ekki gegn Ómíkron. Ekki frekar en það gagnast Dönum frændum okkar þar sem flest Ómíkronsmitin virðast borin uppi af tví- og þrísprautuðum einstaklingum undir fertugu. Nú er ekki verið að ræða skaðsemi bólulyfjanna til lengri eða skemmri tíma, sem eðlilega hefur ekkert verið rannsakað, það bíður ennþá niðurstaðna rannsókna.
Börnin með 99,99% vernd
Er hægt að bæta það sem þegar er ekki aðeins betra heldur best? Því ekki að leyfa börnum að njóta vafans og fara að að ráði vísinda varðandi fyrirhugaðar bólusetningar á þeim? Taka tillit til þess hve vel börnin eru vernduð af eigin ónæmiskerfi, hve væg einkenni veikinda eru, alvarleg einkenni covid eru sjaldgæf og dauðsföll ekki þekkt í rannsóknum milljóna barna. Hvers vegna ætti þá að bólusetja börn? Í alvöru, hvers vegna?
Svo miklar hafa stökkbreytingarnar orðið að nýju bóluefnin virka ekki lengur, né virðast þau vernda þá sem hafa fengið Covid áður eða verið meðhöndlaðir með einstofna mótefnum (monoclonal antibodies).
Á ég að láta bólusetja barnið?
Ef barnið mitt hefur litla sem enga áhættu af Covid; enga áhættu alvarlegra afleiðinga sjúkdóms eða dauða; engan ávinning af bólusetningu en mögulegan skaða til skamms tíma, til lengri tíma hugsanlegan skaða vegna óþekktra skaðlegra afleiðinga af bólusetningunni? Hvers vegna ætti ég þá að vera að útsetja barnið mitt fyrir óþarfa áhættu með þessari bólusetningu?
Bretar mæla ekki með bólusetningu barna 5-11 ára, af hverju við? Höfum við yfir betri þekkingu að ráða en þeir?
Læt kollega, dr. Robert Malone, þann sem uppgötvaði mRNA-tæknina sem bólulyfin eru byggð á, hafa síðasta orðið varðandi börnin þegar hann varar við og hvetur foreldra til að að hugleiða alvarlega hvað þau eru að gera. Hlýddu á eða lestu ákall Malones til foreldra í þessum tenglum:
https://globalcovidsummit-org.translate.goog/news/live-stream- event-physicians-alerting-parents? fbclid=IwAR1wJHiypkJTQSRyiBU8IaslG4IIz1_o2FMY2bSwOfWLiStlXFoVIwLby9c&_x_tr_sl=sv &_x_tr_tl=is&_x_tr_hl=is