Belgíska lögreglan hefur handtekið gríska demókratann og Evrópuþingmanninn Evu Kaili, sem er einnig ein af fjórtán varaforsetum Evrópuþingsins. Handtakan átti sér stað á föstudagskvöld í Brussel að því er heimildarmaður sem þekkir málið sagði við AFP.
Belgíska lögreglan hafði unnið að rannsóknum í fjóra mánuði vegna gruns um að Katar hafi reynt að múta stjórnmálamönnum Evrópusambandsins varðandi ákvarðanir fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram þessa dagana í Katar. Fjórir aðrir sem grunaðir eru í málinu voru handteknir fyrr á föstudag, sagði heimildarmaðurinn.
Kaili, sem er félagi eins þeirra fjögurra sem handteknir voru áður, er í haldi lögreglunnar til yfirheyrslu, bætti heimildarmaðurinn við.
Alríkissaksóknari Belgíu tilkynnti um fyrri handtökurnar eftir að 600.000 evrur í reiðufé fundust þegar lögregla fór inn á 16 heimili í höfuðborginni Brussel.
Saksóknarar tilgreindu hvorki deili á hinum grunuðu né nafngreindu landið sem átti hlut að máli og sögðu aðeins að um landa á Arabíuskaga væri að ræða.
Pier-Antonio Panzeri, sem er ítalskur fyrrverandi Evrópuþingmaður og úr sama flokki og Kaili, S&D, er einn af þeim fimm sem hafa verið handteknir og voru yfirheyrðir af lögreglunni í Belgíu. Um 50.000 evrur í reiðufé eig að hafa fundist hjá Panzeri.
Alríkissaksóknari Belgíu skrifar í fréttatilkynningu:
„Í nokkra mánuði hafa alríkisrannsakendur grunað, að land á Arabíuskaga hafi reynt að hafa áhrif á efnahagslegar og stjórmálalegar ákvarðanir á Evrópusþinginu með því að greiða háar fjárhæðir eða bjóða gjafir til þriðja aðila með mikilvæga pólitíska eða stefnumótandi stöðu innan Evrópuþingsins.“