Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:
Fyrsta hluta greinarinnar má lesa hér.
Sérfræðingasveit GREVIO nýtti örfáa daga sína vel, átti tal við fulltrúa margra ráðuneyta og sveitarfélaga, þ.m.t. starfshóp Katrínar um GREVIO og Landsnefnd kvenfrelsunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Women).
Sérfræðingarnir létu ekki þar við sitja. Þeir sátu á rökstólum við fjölda hálfopinberra stofnana og félaga. Þar á meðal – auk áðurnefndra - er Alþýðusamband Íslands, en þar voru tveir harðsvíraðir kvenfrelsarar í forystu, kvennaathvörfin tvö, Kvennaráðgjöfin, Konur á Íslandi (W.O.M.E.N), „Trans“ Ísland, Samtökin 78, Blaðamannafélag Íslands, Rauði krossinn, og svo fleiri, sem sýsla með ofbeldi karla gegn konum.
Það kom mér þó á óvart, að RÚV, Öfgar og Líf án ofbeldis ættu erindi á viðmælandalistann. Það kom hins vegar ekki á óvart, að Karlaathvarfið og Félag um foreldrajafnrétti (áður Ábyrgir feður) hafi ekki verið virt viðlits.
Hrós fyrir minnkandi „launamun“
Sérfræðingafereykið gefur Íslendingum hrós fyrir að hafa minnkað „launamun“ (engin nánari greining á því); fyrir brautryðjandakennslu í skólum um jafnrétti (sem venjulega merkir misrétti af hálfu karla); vitundarvakningarherferðir (enn þá ein stendur nú yfir) og kennslu drengja um jákvæða karlmennsku.
Sérfræðingarnir ljúka lofsorði á viðeigandi yfirvöld fyrir þann skilning, að konur verði oftar fyrir heimilis- og kynofbeldi. En það er síendurtekin kennisetning kvenfrelsunarkirkjunnar. Sömuleiðis er lofað það framtak að hafa fulltrúa barnaverndarnefndar með í för, þegar feður/karlar eru fjarlægðir af heimilum sínum. Barnahús, Bjarmahlíð og Bjarkarhlíð eru taldar lofsverðar stofnanir. Bjarma- og Bjarkarhlíð eru styrktar af hinu opinbera og sinna einkum konum, ofbeldisfórnarlömbum karla – að sögn.
Íslendingar þurfa að girða sig betur í brók
Að dómi nefndra sérfræðinga GREVIO verða Íslendingar að girða sig betur í brók í kvennavernd. M.a. þarf betri samhæfingu, betri talnagögn, meiri peninga til kynofbeldisiðnaðarins, betri starfsþjálfunaráætlanir fyrir konur í kreppu til að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þeirra og valdeflingu; gefa þeim kost á neyðarsíma allan sólarhringinn um allt land; hraða afgreiðslu dómsmála og dæma fleiri karla; fjölga kvennaathvörfum; koma á skráningu og úrvinnslu gagna um morð karla á konum; beita nálgunarbanni á feður/karla í meira mæli; tryggja að konur taki á móti kvenkyns flóttamönnum; gera frekari skoðanir á þvingunarhjónaböndum, þvinguðum ófrjósemisaðgerðum, þvingaðri fóstureyðingu og heiðursmorðum.
Að síðustu er svo bent á, að dómstólar ættu að taka meira tillit til ofbeldis foreldris (les: föður) gegn börnum sínum við úrskurði um forsjá og samveru barna og foreldra. Áhyggjum er lýst af skyldu til sáttaumleitanna, áður en ofbeldi af hálfu foreldris (les: föður) er skoðað. Þetta er sérstakt baráttumál félagsskapar mæðra: Lífs án ofbeldis.
Dómsmálaráðherra ánægður með niðurstöðuna
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sem greinilega hefur frelsast í kjölfar tíðra samtala við ríkislögreglustjóra og forsætisráðherra, er hamingjusamur með niðurstöðu fjórmenninganna frá GREVIO:
„Þetta er jákvæð skýrsla í nær alla staði fyrir Ísland og undirstrikar fyrst og fremst þann einhug sem hefur ríkt innan míns ráðuneytis, og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar, um þann forgang sem þessi mál eiga að njóta. Nú þegar þessi fyrsta skýrsla GREVIO um Ísland hefur verið birt er verkefnið í höndum starfshóps sem forsætisráðherra og dómsmálaráðherra hafa nú þegar skipað til að móta landsáætlun um innleiðingu á Istanbúl-samningnum hér á landi.“
Flokkssystir Jóns, Diljá Mist Einarsdóttir, lögfræðingur, hvetur bróður sinn í trúnni til dáða. Í fyrirspurn á Alþingi segir hún:
„Hyggst ráðherra bregðast við tilmælum og ábendingum í nýrri skýrslu GREVIO, eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum, sem felur í sér aðgerðir og baráttu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum? Ef svo er, hvernig?“
Diljá Mist er mikill kvenfrelsari. Hún spurði nýlega í grein í Vísi: „Verða konur fyrir fordómum í heilbrigðiskerfinu?“ Hún svarar vitaskuld játandi:
„Ég hef átt fjölmörg samtöl við vinkonur mínar og kunningjakonur um viðmót í heilbrigðiskerfinu og hvort það kunni að vera litað af kynjuðum staðalmyndum. Þegar ég komst að því að nýlega hefði heilsufar á Íslandi verið kortlagt í úttekt á vegum heilbrigðisráðuneytisins út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum, ákvað ég að beina fyrirspurn að heilbrigðisráðherra um eftirfylgni vegna þeirrar vinnu. Í byrjun þessa þingvetrar fékk ég svar frá ráðherra við fyrirspurn minni um kynja- og jafnréttissjónarmið í heilbrigðisþjónustu. Það er skemmst frá því að segja að svar heilbrigðisráðherra er ekki mjög ítarlegt.“ (Þetta viðmót hlýtur að valda kvenfrelsurum áhyggjum, því það eru næstum bara konur í heilbrigðisþjónustunni.)
Diljá Mist er líka ójafnaðarmaður. Í Silfri RÚV sagði hún nýlega: „Við Sjálfstæðismenn munum aldrei tala fyrir kerfi eða umhverfi þar sem fyrsta eða æðsta markmið er að jafna kjör fólks.“
Stjórnarráðið segir um skýrsluna:
„Ísland hlýtur hrós fyrir margvíslega þætti og fram kemur að skýrslan varpi ljósi á skýran vilja og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda til þess að koma á kynjajafnrétti, sérstaklega með baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og því að bæta lagalega stöðu þolenda og minnka launabil kynjanna. Enn fremur hlýtur Ísland hrós fyrir að vera leiðandi í innleiðingu jafnréttiskennslu á öllum skólastigum, vitundarvakningu um ofbeldi gegn konum og fleiri slíkum herferðum auk margvíslegra aðgerða stjórnvalda á hinum ýmsu sviðum þar sem lögð er sérstök áhersla á bætta stöðu kvenna og stúlkna. Fram kemur í skýrslunni að starfsfólk lögreglu sé vel þjálfað til að takast á við kynferðisbrot og heimilisofbeldi og margvíslegar lagabreytingar sýni að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á aðgerðir sem miða að baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Þá hlýtur Ísland lof fyrir að vera leiðandi í stofnun úrræða eins og Barnahúss, Bjarkarhlíðar og Bjarmahlíðar sem talin eru til fyrirmyndar.“
Svört skýrsla
Félagsskapurinn, „Líf án ofbeldis“ telur skýrsluna aftur á móti „kolsvarta“ og segir: „Nefndin lýsir þungum áhyggjum af meðferð sýslumanna, dómstóla og barnaverndaryfirvalda á málum þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis, hvað varðar forsjá og umgengni, og gagnrýnir meðal annars harðlega notkun hugmynda sem skortir vísindalegt réttmæti þegar þolendur greina frá ofbeldi annars foreldrisins (les: feðra), hugmynda um foreldraútilokun (e. Parental alienation), hér oftast talað um tálmun á umgengni.“ (Hér er sérstaklega átt við baráttu mæðranna gegn hugtakinu, „foreldrafirringu,“ sem er þeim skelfilegur þyrnir í augum, og ofbeldis feðra gegn börnum sínum. Þær fullyrða, að dómstólar taki ekki tillit til slíks ofbeldis.)
Það ætti lýðum að vera ljóst, hverjum klukkan glymur; drengjum, feðrum, karlmönnum og fjölskyldum. Það er átakanlegt til þess að hugsa, að aldargömul firra – samkvæmt öllum gildum vísindum um manninn – nokkurra vansælla yfirstéttarkvenna, hafi orðið að trúarbrögðum á Vesturlöndum.
Firran er sú, að konum af tegundinni, homo sapiens, stafi hætta af karlpeningi kynsins, að hver og einn sveinstauli, sem skríður úr móðurkviði, sé kúgari móður sinnar og annarra kvenna.
Trúarsetningar kvenfrelsunartrúarbragðanna hafa ratað inn í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og Evrópuþjóða. Þær hafa eins og trúarbrögðin um hamfarahlýnun, verið bræddar saman í sjálfbærnimarkmiðum SÞ og framtíðarsýn Alheimsefnahagsráðsins (World Economic Forum). Þar ráða ferðinni sömu auðvaldsöfl og fjármögnuðu Kvennakirkjuna, þar til hún komst að mestu leyti á jötu skattgreiðenda fyrir harðfylgi kvenfrelsara úr flestum stjórnmálaflokkum.
Hin alþjóðlega kvenfrelsunarkirkja heyrir undir tvo páfastóla eins og kirkja kristinna manna fyrr á öldum, þ.e. hjá SÞ og Evrópusambandinu/Evrópuráðinu. Þeir stunda trúboð um allan heim. Það er fjármagnað af skattgreiðendum og fyrrgreindum auðjöfrum, sjóða þeirra og stofnana. Kvenfrelsunarvísindastofnunum er m.a. gert hátt undir höfði.
Vísindamennsku þeirra gætti mjög, meðan á covid-19 faraldrinum stóð. Boðskapurinn var einfaldur að venju: faraldurinn kemur miklu verr niður á konum og hvetur eiginkarla og feður til að berja á konum sínum og afkvæmum. Því þyrfti að puðra meira skattfé í kvenvænan kynofbeldisiðnað. Melinda Gates var meðal margra kvenfrelsara, sem fluttu þennan boðskap, enda styrkir sjóður hennar og Bóluefna-Bills kvenfrelsunarkirkjuna rausnarlega.
Kvennakirkjan á Íslandi
Á Íslandi er einnig keimlíka kirkjudeild að finna, Kvennakirkjuna. Aðalhugmyndafræðingar hennar eru Auður Eir Vilhjálmsdóttir og núverandi biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir. Auður Eir er einnig þekkt fyrir hlutverk sitt á hinu alræmda Stúlknaheimili, Bjargi. (Sbr. pistil undirritaðs: „Ofbeldiskonur. Stúlknaheimilið Bjarg.
Auður Eir Vilhjálmsdóttir.“) Auður Eir skrifar: „Ég naut þeirrar miklu gæfu að vera með í annarri bylgju kvennaguðfræðinnar og eiga vinkonur sem voru þar jafn frá sér numdar og ég var.“ [Önnur bylgja kvenfrelsunar mótaði sérstaklega hernaðaráætlunina gegn körlum, m.a. með tilliti til kynofbeldis. Rannsóknir leiddu líka í ljós, að Jesús hafi verið blökkukona.]
Á heimasíðu Kvennakirkjunnar má fræðast: „Stefnur kvennaguðfræðinnar eru ýmsar og viðfangsefnin líka. Sumar skrifa biblíuskýringar, aðrar skrifa um feðraveldið, um kirkjuveldið, um frelsun og frelsi kvenna, um mátt kvennasamstöðunnar, um stjórnun kvenna, um starfsmöguleika kvenna, sögu kvenna og margt fleira. …
Kvennaguðfræðin „segir frá konum sem börðust fyrir afnámi þrælahalds á 19. öld og gegn böli áfengisneyslu, fátæktar og menntunarskorts og fyrir því að kristin trú yrði boðuð víða um heiminn. Margar fremstu baráttukvenna kvennahreyfingarinnar sóttu mátt sinn til kristinnar trúar.“
Baráttan gegn „böli áfengisneyslu“ snýr að karlmönnum. Frenjurnar ásökuðu þá um að sinna ekki heimilum sínum, konum og börnum. Sú ruglaðasta meðal þeirra óð um öldurhúsin með exi til að leggja áherslu á trúboð sitt. Það er full ástæða til að lofa nefnda baráttu gegn þrælahaldi. En það var ekki kynbundið. Það leikur varla vafi á því, að kvennaguðfræði sé samofin kvenfrelsunarfræðunum og að leiðtogar kirkjunnar séu – eins og stjórnkerfið allt – undir hana seldir.
Eins og raun ber vitni um ræður kvenfrelsunarforsjá ríkjum í samfélaginu á nær öllum stigum þess og sérhverjum vettvangi. Dugi þeim ekki formleg völd til framdráttar er tíðum beitt ásökunum um allra handa kynofbeldi af karla hálfu. Dómar götu- og fjölmiðlaréttarins, stofnanna (m.a. kirkjunnar) og fyrirtækja, eru óvægnir. Karlar tapa, jafnframt þótt saklausir séu af öðru en þeirri erfðasynd að vera fæddir í „röngu kyni.“ (En því má náttúrulega redda á Landsspítalanum.)
Kostnaðurinn við kvenfrelsunarstyrjöldina er geigvænlegur. Kostnaður við kvenfrelsunarstjórnsýsluna er væntanlega gríðarlegur. Alþingismenn virðast ekki hafa áhuga á því að taka hann saman.
Kvenfrelsunarlögfræðingar, kynjafræðingar og fleiri af því sauðahúsi, fjöldaframleiddir við Háskóla Íslands og háskóla erlendis, hafa fundið sér skálkaskjól og framavettvang í kvenfrelsunarkirkjunni; stjórnsýslu, atvinnulífi og kynofbeldisiðnaði.
Það er hörmulegt í sjálfu sér, en hörmulegust er þó fórn drengja á altari kvenfrelsunarkirkjunnar.
Tilvísanir með greininni má finna hér.
One Comment on “Kvennavernd á Íslandi – GREVIO skýrslan og kvenfrelsunarkirkjan: hluti ll”
Kvenfrelsið er orðið svo þróað að konan mín er farin að fyrirlíta mig fyrir að reyna að vera karlmaður, hvílík framtíð fyrir börnin ykkar. En sem betur fer á ég ekki börn. Ég hef hlustað á menn segja að þeir myndu gera hitt og þetta ef einhver myndi nauðga börnunum þeirra.það er bara í nös unum á þeim. Þeir eru trúleysingjar og þar af leiðandi gungur sem myndu ekki gera neitt.