Kvennavernd á Íslandi – GREVIO skýrslan og kvenfrelsunarkirkjan

ThordisArnar Sverrisson, Pistlar1 Comment

Eftir Arnar Steingrímsson sálfræðing:

Eins og marga vafalaust rekur minni til var árið 2011 gerður evrópskur samningur um vernd kvenna og barna á vettvangi Evrópuráðsins, „Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi“ (Council of Europe Convention on Preventing and Combating Violence Against Women and Domestic Violence).

Í daglegu tali er skírskotað til hans sem Evrópusamningsins, Miklagarðs- eða Istanbul samningsins (Istanbul Convention). Samningurinn hefur verið undirritaður af tæplega fjörutíu ríkjum álfunnar, fullgiltur á Alþingi Íslendinga árið 2018.

Í samningnum stendur: Samningsaðiljar „gera sér grein fyrir að ofbeldi gegn konum er birtingarform sögulegs ójafnvægis í valdahlutföllum milli kvenna og karla sem leitt hefur til drottnunar karla yfir og mismununar gegn konum og kemur í veg fyrir fullan framgang þeirra [og] viðurkenna að ofbeldi gegn konum er í eðli sínu kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn þeim er eitt helsta félagslega tækið til að neyða konur til að skipa lægri sess í samfélaginu en karlar, ...“  „[K]ynbundið ofbeldi gegn konum“ merkir ofbeldi sem er beint að konu vegna þess að hún er kona eða ofbeldi sem konur verða hlutfallslega meira fyrir,...“

Bindandi samningur gegn baráttunni gegn ofbeldi gegn konum

Jafnréttisstofa lýsir samningnum svo:

„Samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúlsamningur, var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Um er ræða fyrsta bindandi samninginn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Í megindráttum kveður hann á um skyldur opinberra aðila til að:

Tryggja réttindi brotaþola [bæði notað um konur (venjulega), sem samkvæmt dómsúrskurði eru ofbeldisþolendur, og konur, sem eru sakaráberar (venjulega)]; vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi; fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila; sinna forvörnum gegn ofbeldi; bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð. [Hér er átt við karlmenn.]

Í mars 2016 náðist fyrsti áfangi í fullgildingu Istanbúlsamningsins hér á landi með gildistöku breytinga á almennum hegningarlögum. Þar eru m.a. var sett í lög ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum.
Samkvæmt samningnum hafa stjórnvöld einnig skyldur sem kalla á aðgerðir til að fyrirbyggja og veita vernd gegn ofbeldi. Skyldur þessar snúa m.a. að; rekstri kvennaathvarfa; starfrækslu neyðarnúmers; þjónustu við þolendur; meðferðarúrræði fyrir gerendur.”

Forsætisráðherra stoltur

Katrín Jakobsdóttir segir í þessu sambandi: „Ég er stolt af því að tilheyra pólitískri hreyfingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem hefur um langa hríð haft kvenfrelsi sem einn af hornsteinum sinnar stefnu. Þessar áherslur hafa ratað inn í ríkisstjórnarsamstarfið og get ég meðal annars nefnt að aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota hefur verið fjármögnuð að fullu og Istanbúl samningurinn var fullgiltur sl. vor.“

Samningurinn dregur dám af svipuðum samningi Sameinuðu þjóðanna (Sþ). Grunnstefið er það sama: Kvenvernd, valdefling kvenna og vernd barna gegn feðrum sínum. Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum var samþykktur af SÞ árið 1979, oftlega kallaður kvennasáttmálinn.
Beijing (Peking) aðgerðaáætlun Sþ sá dagsins ljós 1995.

„[F]yrir konum og femínistum er Peking aðgerðaráætlunin ein sú merkasta sem tuttugasta öldin gaf af sér,“ segir Jafnréttisstofa. Félags- og jafnréttismálaráðherra segir í árskýrslu sinni 2018 um samninginn: „Hann er fyrsti lagalega bindandi alþjóðasamningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að sinna forvörnum gegn ofbeldi, veita vernd og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila og bjóða ofbeldismönnum [körlum] úrræði og meðferð.

Fullgilding samningsins af Íslands hálfu er í samræmi við efni stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og áherslur hennar í jafnréttismálum þar sem sérstaklega er fjallað um aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi.“

Fjöldi sveitarfélaga í Evrópu, innan vébanda „Evrópuráðs sveitarfélaga og héraða“ (Council of European Municipalties and Regions) hefur skrifað undir „Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum“ (The European Charter for Equality of Women and Men in Local Life).

GREVIO skýrslan

Aftur að Evrópuráðssamningum: Ráðið kom sér saman um að setja á stofn eftirlitsskrifstofu, sem heitir því langa nafni: „Secretariat of the monitoring mechanism of the Council of Europe Convention on Preventing and Combating Violence againt Women and Domestic Violence.“ Hópurinn segir sig óháðan.
Eftirlitsskrifstofan er hópur tíu kvenna: Sérfræðingahópur gegn ofbeldi í garð kvenna og heimilisofbeldi“ (GREVIO – Group of experts on action against violence against women and domestic violence – Istanbul convention). Sendisveit sérfræðinga á vegum hópsins kom á vormánuðum (2022) til Íslands til að kanna frammistöðu landans.

Skýrsla sérfræðinga GREVIO, útgefin 14. nóvember 2022. Kaflaskiptingin er þessi: Í fyrsta kafla er fjallað um almenn grundvallaratriði í sáttmálanum sjálfum; í kafla tvö er fjallað um samþættingu ákvæða og gagnsöfnum; í kafla þrjú er sjónum beint að ofbeldisvörnum; í fjórða kafla tekur við umfjöllun um vernd og stuðning við fórnaralömb; löggjöf er meginefni fimmta kafla; sjötti kafli er helgaður lögreglurannsóknum og réttarfari. Efnislegri umfjöllun lýkur á kafla um flóttamenn og móttöku þeirra.

Sendinefnd GREVIO sækir víða fanga um upplýsingar, m.a. hjá opinberum aðiljum. Það vekur athygli, að Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindastofa Íslands, Kvennathvarfið í Reykjavík og Stígamót, skrifuðu sameiginlegt álit, sem sérfræðingar GREVIO studdust við. En það var viðauki við skýrslu íslenskra yfirvalda til eftirlitsstofnunarinnar.

Sérfræðingahóp GREVIO skipuðu albanski blaðamaðurinn og kvenfrelsunaraðgerðasinninn, Iris Lurasi, forseti GREVIO; svissneski kvenfrelsarinn, Marie-Claude Hofner. Hún hefur m.a. haft sérstakar áhyggjur af konum og börnum, sem hafa lokast inn á heimilum sínum í covid-19 faraldrinum með ofbeldismanninum, heimilisföðurnum; breski mannréttindalögfræðingurinn, Louise Hooper, sérhæfð í kynjarétti; og Sabrina Wittmann, lögfræðingur og framkvæmdastjóri áðurnefndrar skrifstofu. „Das Private ist rechtpolitisch“ (réttarfarið nær til einkamála), segir hún. Það hljómar kunnuglega úr baráttu kvenfrelsaranna til breytinga á lögum og beitingu þeirra í baráttu sinni gegn körlum og fyrir valdeflingu kvenna.

Hildur Sunna Pálmadóttir, ráðgjafi hjá Dómsmálaráðuneytinu, valdi viðmælendur sérfræðinganna. Hildur Sunna er lögfræðingur og sérfræðingur ráðuneytisins í kynofbeldi. Stjórnarráðiðið segir:

„Vitundarvakningu dómsmálaráðherra, Neyðarlínunnar, ríkislögreglustjóra og hinna ýmsu samstarfsaðila gegn ofbeldi verður fram haldið með áherslu á að vinna gegn ofbeldi og áreitni í aðdraganda hátíðanna. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi en starfshópinn skipa Sigríður Björk Guðjónsdóttir [Ríkislögreglustjóri, lögfræðingur], Guðfinnur Sigurvinsson [stjórnsýslufræðingur og aðstoðarmaður þingsflokks Sjálfstæðisflokksins,“ segir Morgunblaðið], Hildur Sunna Pálmadóttir [lögfræðingur] og Eygló Harðardóttir.“ Eygló er list- og viðskiptafræðingur, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins, segir Alþingi. (Hún þáði m.a. ráðgjöf hjá flokkssystur sinni, Sif Friðleifsdóttur, fyrrum ráðherra, fyrir fimmtán milljónir fyrir nokkrum árum.)

Á meðal útvalinna viðmælenda eru háttsettir embættismenn (high-level public figures) eins og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og kvenfrelsari. Hún var einn ákafasti talsmaður „austurrísku leiðarinnar“ í heimilisofbeldismálum. Sú leið fólst í því að fjarlægja karla/feður af heimilum sínum, væri undan þeim kvartað.

Ragna Bjarnadóttir, deildarstjóri hjá Dómsmálaráðuneytinu er einnig nefnd til sögu.
Morgunblaðið segir: „Ragna Bjarnadóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 2006 og meistaraprófi frá Oxfordháskóla 2009. Ragna var aðstoðarsaksóknari hjá embætti ríkissaksóknara árin 2006 til 2008, aðstoðarsaksóknari og deildar-stjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 2009-2010, var lögfræðingur hjá Mannréttindadómstóli Evrópu 2011 til 2014 og hefur verið stundakennari við lagadeildir HÍ og Háskólans í Reykjavík. Frá árinu 2016 hefur Ragna starfað sem lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, nú dómsmálaráðuneytinu.“

(II hluti fylgir.)

One Comment on “Kvennavernd á Íslandi – GREVIO skýrslan og kvenfrelsunarkirkjan”

  1. Þetta mynnir mig á atvik sem ég varð vitni að nýlega. Atvikið átti sér stað í sundklefa úti á landi. Vesældarlegur piltur var að berja tvo aðra pilta með bakpokanum sínum. Ég fylgdist þegjandi með, furðandi mig á þvî, af hverju þeir létu hann ekki finna til tevatnsins. En eftir á að hyggja áttaði ég mig á því að vesældarlega drengnum yrði trúað, en ekki þeim sterkari.

    Allir þeir karlmenn sem ég þekki eru undir hælnum á konunum sínum. Og þeir mest sem andmæla því, þegar ég nefni það. Eins og ég segi og skrifa “ kerlmenn nútímans eru konur fortíðarinnar”

Skildu eftir skilaboð