Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins vegna lyfs gegn Covid ekki í samræmi við lög

frettinCOVID-19, LyfLeave a Comment

Hinn 6. ágúst 2021 barst Lyfjastofnun umsókn læknis um heimild til að ávísa undanþágulyfinu X (lyfið sem um ræðir er Ivermectin þó það komi ekki fram í máli umboðsmanns) til aðila sem forvörn og/eða meðferð við SARS-CoV-2, eða Covid-19, á grundvelli 1. mgr. 12. gr. lyfjalaga nr. 100/2020. Stofnunin synjaði umsókninni þremur dögum síðar, eða 9. ágúst 2021.

Í kjölfar þessa átti aðilinn í samskiptum við Lyfjastofnun dagana 9. til 23. ágúst 2021 þar sem hann óskaði m.a. eftir því að stofnunin rökstyddi ákvörðunina og afhenti honum gögn sem hún byggðist á. Í svörum stofnunarinnar var þeirri afstöðu lýst að aðilinn væri ekki aðili málsins heldur væri það læknirinn sem óskað hafði eftir undanþágunni. Aðilinn kærði ákvörðun Lyfjastofnunar til heilbrigðisráðuneytisins 30. sama mánaðar.

Heilbrigðisráðuneytið staðfesti synjun Lyfjastofnunar á fjórum öðrum umsóknum sama læknis um heimild til að ávísa lyfinu sem fyrirbyggjandi vegna Covid-19 á þeim grundvelli að hann hefði ekki sýnt fram á að skilyrði væri fullnægt um að sérstakar og vel rökstuddur ástæður yrðu að vera fyrir notkun lyfsins.

Kvartað var til umboðsmanns alþingis vegna málsins sem hefur nú ályktað að úrskurður heilbrigðisráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við lög þar sem hann taldi að aðilinn hafi átt sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun Lyfjastofnunar sem um var að ræða og hafi ráðuneytinu því borið að leysa efnislega úr stjórnsýslukæru hans.

Umboðsmaður beinir því síðan til ráðuneytisins að taka mál aðilans til meðferðar að nýju, berist beiðni þess efnis frá honum, og leysa úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti umboðsmanns. Jafnframt beinir umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu. Lyfjastofnun var sent afrit af áliti þessu til upplýsingar, segir í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.

Skildu eftir skilaboð