Namibíumálið: búið til á Íslandi, jarðað í Noregi

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Namibíumálið er með fæðingardag, 12. nóvember 2019. Kveiksþáttur RÚV var sýndur þann dag. Kynntur var til sögunnar Jóhannes uppljóstrari Stefánsson, eina heimildin fyrir meintum mútugjöfum Samherja til namibískra embættis- og stjórnmálamanna.

Jarðaför Namibíumálsins fór fram í Noregi 1. mars 2023. Þann dag birtist afsökun norska stórblaðsins Aftenposetn Innsikt. Lykilsetningin er eftirfarandi:

Aftenposten Innsikt hefur enga stoð fyrir þeirri fullyrðingu að Jóhannes Stefánsson hafi komið fram „fyrir hönd“ Samherja í mútumáli til manna í Namibíu né að samningur um eitthvað slíkt hafi verið gerður á milli Samherja og namibískra aðila. Um er að ræða ásakanir Jóhannesar Stefánssonar.

Jóhannes Stefánsson er eina heimildin um að Samherji hafi stundað mútur í Namibíu. Allt Namibíumálið byggir á einum manni sem, frómt sagt, er ekki trúverðug heimild. Í blaðamannskólum er kennt að einnar heimildar fréttir beri að varast og því meira sem fréttamálið er stærra.

Þegar heimildin er hatursfullur eiturlyfjafíkill og stórtækur vændiskaupandi, sem hringir í fólk og hótar limlestingum og lífláti, þarf ekki að kunna blaðamennsku til að átta sig á að ekki er um að ræða góðan pappír.

Afsökun Aftenpostin Innsikt 1. mars kemur í kjölfar forsíðugreinar tímaritsins í febrúar. Danskur blaðamaður, Lasse Skytt, skrifaði þar norræna útgáfu af Kveiksþætti RÚV frá 2019. Skytt fékk nýjustu uppfærsluna frá Jóhannesi. Þegar búið er að fara yfir fréttina af ritstjórn Aftenposten Innsikt er niðurstaðan afgerandi.

„engin stoð“ er fyrir fullyrðingu Jóhannesar Stefánssonar.

Hvers vegna birti RÚV, í félagi með Kjarnanum og Stundinni (nú Heimildinni) staðlausa stafi Jóhannesar uppljóstrara? Jú, RÚV og fylgimiðlar stunda ekki blaðamennsku heldur málafylgju. RÚV ætlaði að „taka niður“ Samherja og nota til þess ásakanir Jóhannesar.

Namibíumálið er önnur atlaga RÚV að Samherja. Sú fyrri, Seðlabankamálið, hófst 2012. Þá var eina heimildin fölsuð gögn sem Helgi Seljan veifaði framan í myndavélar RÚV um leið og hann ásakaði Samherja um stórfelld brot á þágildandi gjaldeyrislögum. Ítarleg rannsókn og dómsmál leiddu í ljós sakleysi Samherja og óvönduð vinnubrögð RÚV.

RÚV og fylgimiðlar eru í pólitísku bandalagi með vinstriflokkunum í herförinni gegn Samherja, bæði í Seðlabankamálinu og Namibíumálinu.

Þeir sem fylgjast með pólitískri umræðu hafa tekið eftir að stjórnmálamenn eru steinhættir að tala um Namibíumálið. Svo dæmi sé tekið hefur nýr formaður Samfylkingar ekki sagt eitt aukatekið orð um málið. Ekkert, núll, nada.

Logi Einarsson forveri Kristrúnar lét gamminn geisa á sínum tíma, fékk jafnvel eiginkonuna, héraðsdómara, í lið með sér til að skrifa dóm í þágu fréttamanns RÚV og Heimildarinnar, Aðalsteins Kjartanssonar. Þeim dómi var hnekkt í landsrétti. Ekki löngu síðar hætti Logi sem formaður. Logi og frú reiddu hátt til höggs. Er höggið geigaði varð formaðurinn að taka pokann sinn.

Málafylgja, sem sagt, og gagnkvæmir hagsmunir. RÚV sér um að búa mál í hendur vinstriflokkunum, sem aftur tryggja að RÚV fái peninga á fjárlögum.

Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar útskýrir spillinguna með þessum orðum:

Þess í stað er samfélagið okkar gegnsýrt af spillingarmentalíteti, þar sem reglan um „greiða gegn greiða“ gildir. Aðgangur að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra byggist á því að þú standir inni í tjaldinu og pissir út, frekar en að standa utan við það og pissa inn.

RÚV, samkvæmt greiningu ritstjórans, situr í ríkistjaldinu miðju og hótar að míga á allt og alla fái stofnunin ekki sinn skerf af skattfé almennings. Sjálfur er ritstjórinn á kafi í spillingunni. RÚV niðurgreiðir laun hans á Heimildinni með því að hafa hann á föstum verktakasamningi.

Þórður Snær kvartar undan að blaðamenn skipti ekki lengur máli. Ástæðan er að meintir blaðamenn stunda ekki blaðamennsku heldur hafa málafylgju að lifibrauði annars vegar og hins vegar taka þátt í pólitík.

Málafylgjan skeytir hvorki um heiður né skömm, enn síður um lög og reglur. Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar eru sakborningar í refsimáli. Siðlaus og glæpsamleg málafylgja er eitt, blaðamennska er annað.

One Comment on “Namibíumálið: búið til á Íslandi, jarðað í Noregi”

 1. Eru ekki einhverjir fleiri sem nú þurfa að biðjast afsökunar?

  Sunnudaginn 30. Maí 2021 birtu stjórnendur Samherja afsökunarbeiðni til landsmanna, í fjölmiðlum, fyrir að bregðast of harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið.

  Þótti þeim sjálfum ljóst að þeir hefðu gengið of langt í þeim viðbrögðum.

  Nú sjá allir hvílíka auðmýkt stjórnendur Samherja sýndu með þessari afsökunarbeiðni.

  En Jesú segir: 5 “Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa”. Matt. 5.

  29 “Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.” Matt.11.

  7 “Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt.

  Í stað háðungar, skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu.
  Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.

  8 Því að ég, Drottinn, elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán.
  Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála.” Jesaja 61.

Skildu eftir skilaboð