Eftir Arnar Sverrisson:
Það virðist renna upp fyrir Bandaríkjamönnum, að „alþjóðareglur“ þeirra um samskipti við önnur ríki verði stöðugt óvinsælli. Enda eru þær samdar af þeim sjálfum til að vernda eigin hagsmuni.
Uppgangur Kína, Rússa og Indverja, gefur þjóðum „þriðja heimsins“ eða ríkjum sunnan miðbaugs, fyrirheit um annars konar alþjóðareglur. Þau dreymir meira að segja um heim, þar sem þau verða fær um að hrista af sér ok aldalangs arðrás alþjóðlegra auðhringa og nýlenduvelda.
Ísland nýlenduþjóð?
Einu sinni voru Íslendingar nýlenduþjóð og eru það í vissum skilningi enn þá, andlega og stjórnmálalega. Við höfum gagnrýnilaust gert fyrrum kúgara að vinum og skipum okkur í sveit með þeim í alþjóðamálum. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.
Ofangreindir vinir hafa á síðustu árum beitt Íslendinga viðskiptaþvingunum og Barrack Obama, Bandaríkjaforseti, gaf á sínum tíma út tilskipun þess efnis, að halda skyldi samskiptum við Íslendinga í lágmarki, nema hvalveiðibanni hans yrði hlýtt.
Forsætisráðherra Breta gerði Íslendinga að hryðjuverkamönnum
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, gerði okkur að hryðjuverkamönnum. Vinirnir, að Norðurlandaþjóðunum undanskildum, höfnuðu fjárhagslegri fyrirgreiðslu, þegar bandaríska kreppan reið yfir þjóðina. Þá sýndu Rússar vinsemd. Þorskastríðunum hafa líklega flestir gleymt.
Það leikur varla á tveim tungum, að í utanríkismálum séu Íslendingar taglhnýtingar Bandaríkjamanna og annarra vina í Nató. Þeir hafa óbeint tekið þátt í fjölmörgum brotum á alþjóðalögum og lagt blessun sína yfir hryðjuverk og hernað gegn vinaþjóðum, síðast, þegar gasleiðsla granna okkar á meginlandinu var sprengd í loft upp. (Yfirklór Bandaríkjamanna þess efnis, að tveim úkraínskum köfurum sé um að kenna, er blátt áfram grátbrosleg.)
Bandaríkin séu án vafa herskáasta ríki veraldar fyrri og síðar
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hinn háaldraði Jimmy Carter, hefur lýst því yfir, að lýðræði sé ekki lengur við lýði í ríki hinna hugprúðu og frjálsu, að „Bandaríkin séu án vafa herskáasta ríki veraldar fyrri og síðar.“ (Samkvæmt þessu er því rangt að halda því fram, að Bandaríkjamenn flytji út lýðræði - nema þá í líkpokum.)
Í nýlegri bandarískri samantekt er upplýst (The Military Intervention Project – Tuft University), að fjörutíu ríki, víðs vegar um heim, hafi verið beitt viðskiptaþvingunum. Fjögur hundruð sinnum hefur bandaríski herinn farið með ófriði á hendur öðrum ríkjum undir gunnfána lýðræðis og frelsis.
Sama á við um svokölluð stríð gegn hryðjuverkamönnum, sem gengið hafa af tæpri milljón manns dauðri, skapað glundroða, eymd og fátækt. Þessum stríðum eigum í megingreinum það að þakka, að flóttamönnum fjölgar stöðugt í veröldinni.
Blekkt veröld
Þegar vinir okkar höfðu blekkt veröldina með áróðri um gereyðingarvopn í Írak, létu þeir til skarar skríða og skópu íbúum Íraks helvíti á jörðu. Íslendingar stóðu þá með vinum sínum og greiddu flutningi hertóla leið til þessa fjarlæga fornmenningarlands, þar sem vagga menningarinnar stóð. „Annað hvort eru þið með okkur eða móti,“ sagði hinn heillum horfni forseti Bandaríkjamanna, George W. Bush.
Þessi boðskapur laust eyru fulltrúa um 90% jarðarbúa á þingi nýlega. Þeir skirrast við að styðja þá stefnu Bandaríkjanna/Vesturlanda að steypa lýðræðislegri stjórn Úkraínu og koma á fót úkraínskum Natóher, með þeim fyrirséðu afleiðingum, að Rússar gerðu innrás. Nefndir fulltrúar neita líka að taka þátt í kunnuglegri yfirlýsingahræsni og bolabrögðum Vesturlanda í viðskiptum.
Efnahagslegar og hernaðarlegar hamfarir auðdrottna
Því efnahagslegar og hernaðarlegar hamfarir auðdrottna Vesturlanda og auðsveipra stjórnmálamanna þeirra á alþjóðavettvangi, er illur fyrirboði. Stríð og kreppugerð eru þaulreyndar aðferðir hertólaframleiðenda til að auðgast. Þannig sækja þeir aura skattgreiðenda í ríkissjóði og vefja ríki og þegna þeirra í skuldir.
Auðdrottnarnir hafa þegar hagnast vel á bóluefnum og lyfjum. Þegar ríki fara á hausinn bíður Alþjóðabanki auðhringanna með opinn arminn. En nú gæti komið babb í bátinn. Það eru nefnilega líkur til, að fleiri og fleiri ríki fúlsi við seðlum þeirra. Þá er viðbúið að spilaborgin falli. Bandaríkin er í raun gjaldþrota.
Þegar heimurinn tekur á sig nýja mynd og fnæst verður að yfirgangi og yfirlæti Vesturlandabúa, er hætt við, að Evrópu og Bandaríkjunum fatist flugið. Vængjaslátturinn er þegar orðinn næsta veiklulegur hjá sumum aðildarríkja Nató. Mótmælendum vex fiskur um hrygg, þó varla sé á það minnst í fréttaskeytum.
Tyrkir kurra og murra og urra, margfaldir í roðinu. Uppsögn gæti verið á næsta leyti. Ungverjar eru óþægir. En þegar allt um þrýtur er næsta ólíklegt að alþjóðlegum böðlum og vinum þeirra verði boðið til borðs.
Verða Íslendingar útlagar í nýrri veröld?
Ætli Íslendingar verði útlagar í nýrri veröld? Ætli þeir verði látnir sæta viðskiptaþvingunum af þeim, sem þeir hafa skorið upp herör gegn? Það gerðist um árið, þegar þeir fóru í viðskiptastríð við Rússa undir forystu "hárkerastofukvenfrelsarans" frá Sauðárkróki, Gunnars Braga Sveinssonar.
Íslensk stjórnvöld leggja lóð sitt á vogarskál ósættis og ófriðar í viðbjóðslegu og ónauðsynlega stríði (nema fyrir hergagnaiðnaðinn að sjálfsögðu) í Úkraínu.
Þar falla unglingspiltar í hrönnum. Samtímis verður stríðsáróðurinn sífellt grátbroslegri. Rússneskum hermönnum er att á foraðið með skóflur og stinningarlyf að vopni, segja Sameinuðu þjóðirnar og RÚV. Þrátt fyrir þennan skringilega vopnabúnað hefur „hakkavélin“ í Bakhmut þjónað tilgangi sínum.
Ég skora á íslensk stjórnvöld að girða sig í friðarbókina. Hvar er andi Þorgeirs Ljósvetningagoða, mesta friðarhöfðingja Íslendinga?