Eftir Pál Vilhjálmsson:
Ritstjóri Heimildarinnar, Þórður Snær Júlíusson, er á móti tjáningarfrelsi. Ritstjórinn stefnir bloggara fyrir dóm að segja almælt tíðindi. Þórður Snær er sakborningur í lögreglurannsókn á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans og brota á friðhelgi.
Heimildin birtir í gær ítarlega frétt undir fyrirsögninni „Það er hreinlega vegið að tjáningarfrelsi fjölmiðla á Íslandi í dag“.
Fréttin er endursögn umræðu á alþingi sem Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri átti frumkvæði að.
Jódís sagði í fyrri ræðu sinni að frjálsir fjölmiðlar væru hornsteinn lýðræðisins, fjórða valdið. Þeir veittu þingmönnum nauðsynlegt aðhald og drægju athyglina að þeim málefnum sem brýnust væru hverju sinni.
Í öllum vestrænum ríkjum þætti stórfrétt að fimm blaðamenn, allir nema einn með bein tengsl við ríkisfjölmiðilinn, séu sakborningar í lögreglurannsókn.
En íslenskir fjölmiðlar þegja þunnu hljóði. Bloggari sem segir fréttir af málinu fær á sig málssókn - frá sakborningi.
Hvað gerir blaðamannastéttin sjálf? Jú, hún veitir sakborningum verðlaun. Upplýst var 14. febrúar á liðnu ári um fjóra sakborninga. Einum og hálfum mánuði síðar fengu þrír sakborningar verðlaun Blaðamannafélags Íslands. Stéttafélag blaðamanna telur sig ríki í ríkinu og að félagsmenn sé friðhelgir þótt þeir eigi aðild að alvarlegum afbrotum
Fjölmiðlar þegja yfir aðkomu blaðamanna að glæpum og stéttarfélagið verðlaunar blaðamenn grunaða um afbrot. Þetta myndi ekki gerast í nokkru vestrænu ríki, - nema Íslandi. Hér er ekki ekki allt með felldu í málefnum blaðamanna og fjölmiðla.
Blaðamenn og málpípur þeirra á alþingi segja þann vanda helstan á fjölmiðlum að þeir fái ekki nógu mikla fjármuni úr ríkissjóði. Hér eru höfð endaskipti á sannleikanum. Fjáraustur ríkisins gerir fjölmiðla ábyrgðalausa og blaðamenn siðlausa. Fjölmiðillinn sem mesta fjármuni fær, RÚV, er miðstöð glæpa og siðleysis.
Í hvað yrði aukið ríkisfé notað? Jú, til að höfða mál gegn bloggurum sem skrifa fréttir annars vegar og hins vegar til að greiða sakarkostnað blaðamanna er stunda glæpi.
Á meðan ríkið fjármagnar fjölmiðla verður ekki sú uppstokkun sem nauðsynleg er til að blaðamennska hér á landi verði húsum hæf.