Félag verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna

frettinGeir Ágústsson, Loftslagsmál2 Comments

Eftir Geir Ágústsson verkfræðing:

Við getum ekki lengur bara haft skoðanir sem einstaklingar. Þú þarft að vera „sérfræðingur“ til að geta tjáð þig. Viltu ekki nota grímu? Þú ert enginn sérfræðingur! Viltu ekki taka ákveðin lyf? Þú ert enginn sérfræðingur! Við getum einfaldlega ekki verið einstaklingar með skoðanir og lífsviðhorf og valið og hafnað eins og okkur hentar. Nei, þú þarft að vera „sérfræðingur“! Nema auðvitað þú viljir tjá þig um íþróttir eða veðrið. Þá má hlæja að sérfræðingunum.

Gott og vel, úr því svona er komið er auðvitað ekki annað í stöðunni en að aðlagast tíðarandanum. Það hefur lítill hópur lækna til að mynda gert. Um daginn var stofnað Félag lækna gegn umhverfisvá. Eru læknar sérfræðingar í umhverfisvá? Nei. Þeir eru sérfræðingar í lækningum. En þökk sé Félagi lækna gegn umhverfisvá geta læknar nú tjáð sig af miklu sjálfsöryggi um umhverfisvá, þ.e. þessa einu sem kemst að í umræðunni (til að mynda ekki þá sem á sér stað í Kína svo Vesturlönd geti keypt rafhlöður í bílana sína). „Það er glórulaust ástand og hrein sturlun,“ segir einn meðlima í Félagi lækna gegn umhverfisvá. Væri heimurinn sjúklingur yrði að leggja hann inn á gjörgæsludeild, segir einn geðlæknirinn í félagsskapnum. Félag lækna gegn umhverfisvá er mætt til leiks í umræðunni um veðurfar og loftslagsbreytingar.

Svona félagsstarfi má auðvitað svara. Nú er ég verkfræðingur og enginn sérfræðingur um veiruvarnir (er ekki búinn að fá sprautu af neinu tagi í yfir 25 ár), grímur (nota þær ekki nema mér sé beinlínis meinað að framkvæma erindi mín), lýsi (ég tek það þótt veirutímar hafi talið það vera gagnslaust til að styrkja ónæmiskerfið), mataræði (ég borða ennþá kjöt og finnst tilhugsunin að borða skordýr vera viðbjóðsleg) og loftslagsbreytingar (finnst ennþá skrýtið að hamafarahlýnun, kuldatíð og snjókoma eigi einhvern veginn að haldast í hendur). Hvernig á ég að geta tjáð mig um umhverfisvá? Jú, ég gæti mögulega stofnað Félag verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna. Þá fengi ég aldeilis umboð!

„Læknar ættu að einbeita sér að vinnu sinni og láta áhyggjur af veðrinu vera í öðru sæti,“, segir formaður Félags verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna, Geir Ágústsson. „Kannski væru biðlistar eftir geðlæknum styttri ef þeir eyddu ekki tíma í að stofna félag um veður og snjókomu,“ segir einn stofnmeðlima Félags verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna.

Þetta félag fengi mögulega boðskort í kjaftaklúbba ýmissa ríkisstarfsmanna (t.d. lækna, prófessora og veðurfræðinga) og spekinga á ríkisstyrkjum til að ræða þar, fyrir hönd Félags verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna, augljósar staðreyndir sem blasa við öllum sem fá ekki borgað fyrir að líta framhjá þeim. Fjölmiðlamenn á ríkisstyrkjum veita tækifæri á viðtölum og birta þau jafnvel án þess að afbaka þau. Stjórnmálamenn senda skeyti og þakka fyrir brýn innlegg í þjóðmálaumræðuna. Skattgreiðendur opna vasa sína svo félagsmenn geti ferðast um heiminn til að vara við hættulegri upplýsingaóreiðu.

Félagi verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna yrði tekið fagnandi og flugeldasýningar og forsíðufréttir myndu fagna tilkomu þess.

Ekki satt?

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 16. mars. 2023

2 Comments on “Félag verkfræðinga gegn heimsendaspám lækna”

  1. Góð kómísk ádeila, fékk mig til að brosa. Takk Geir 🙂

Skildu eftir skilaboð