Var hótað líkamsmeiðingum fyrir að lýsa vantrausti á Heimildina vegna Eddu Falak

frettinInnlendarLeave a Comment

Sigríður Mjöll Björnsdóttir doktor við Konstanz háskólann í Þýsklandi tjáði sig fyrir nokkrum dögum um mál Eddu Falak hjá Heimildinni, og segist aldrei hafa orðið vitni að jafn miklum munnsöfnuði á ævi sinni ásamt áreiti og hótunum. „Bara af því að ég lagði orð í belg. Mjög kaldhæðnislegt að umræða sem ætti að snúast um að bæði vernda og valdefla fólk gegn ofbeldi sé svona ofbeldisfull,“ skrifar Sigríður á facebook, og biður vinsamlegast um að fá ekki fleiri nafnlaus símtöl þar sem henni er hótað líkamsmeiðingum.

Fyrir nokkrum dögum skrifaði Sigríður Mjöll pistil á facebook þar sem hún lýsti yfir vantrausti á Heimildina sem fréttamiðil, í ljósi afstöðu miðilsins til “missagna” Eddu Falak sem gerst hefur sek um það að “missegja” um starfsferil sinn. Sigríður sagði að í sínu starfi sem háskólakennari hefði hún umsvifalaust verið rekin hefði hún gerst sek um slíkt hið sama. En í fjölmiðli sem (kaldhæðnislega) kallar sig “Heimildin” virðast lygar afstæðar, skrifar Sigríður.

Í samtal við Fréttina sagði Sigríður að síminn hefði hringt um miðja nótt á hennar tíma og hún verið milli svefns og vöku með símann opinn, þar sem von væri á foreldrum hennar í heimsókn síðar um daginn. Hún sagði þetta hafa verið ljót orð sem hún muni ekki nákvæmlega, en um var að ræða hótanir um líkamsmeiðingar og einnig var því haldið fram að hún væri „heimsk og snobbuð tussa sem þyrfti að læra hvað raunverulegt ofbeldi þýddi.”

Aðspurð hort hún vissi hverjir hefðu slegið á þráðinn til hennar sagðist hún ekki vita það en símhringingarnar hafi verið þrjár talsins. Hún sagðist ekki ætla að aðhafast frekar í málinu en að sér hefði blöskrað.

Sigríður segist hafa fram að þessu verið stuðningskona Eddu Falak og telur virkilega þörf á þessari umræðu, og það sé virkilega dapurlegt hvað þetta hefur slæm áhrif á konurnar sem treystu henni og hefur sömuleiðis áhrif á þeirra trúverðugleika.

Hún segist svo innilega vona að einhver annar taki við keflinu af Eddu, því baráttan megi ekki tapast.

Pistillinn sem Sigríður Mjöll skrifað sl. sunnudag og undirritar sem brotaþoli er svo hljóðandi:

Kæra Heimild,

Ég lýsi hér með yfir vantrausti á Heimildinni sem fréttamiðli í ljósi afstöðu hennar til “missagna” Eddu Falak sem gerst hefur sek um það að “missegja” um starfsferil sinn. Ég veit að í mínu starfi sem háskólakennari hefði ég umsvifalaust verið rekin hefði ég gerst sek um slíkt hið sama. En í fjölmiðli sem (kaldhæðnislega) kallar sig “Heimildin” virðast lygar afstæðar.
Áður fagnaði ég því að Edda skyldi gefa konum tækifæri til þess að tjá reynslu sína vegna þess að oftast er það þeirra eina  úrræði í mjög viðkvæmri stöðu. Þar með gátu þær raungert reynslu sem aðrir reyndu að útmá. Það var mikilvægt og trúverðugleiki þeirra kvenna sem stigu fram er ósnortinn. Hins vegar hefur Edda Falak sýnt fram á að hún hefur ekki burði til þess að sinna þessum erfiða málaflokki.

Heimildin heldur því fram að um “menningarstríð” sé að ræða þar sem andstæðingar MeToo ráðist gegn  Eddu Falak. Fyrir mig var MeToo bylting sem gaf mér fyrst kleyft að vinna úr hörmulegri reynslu. En að einhver skuli nýta sér ömurlega reynslu fólks til frama í fjölmiðlum er mér ofar skilningi. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur hún síðastliðinn sólarhring hótað “lúserum” ofbeldi  á samfélagsmiðlum.

Ég hef aldrei áður heyrt nafnorðið missögn þrátt fyrir að hafa að miklu leyti eytt minni starfsævi í að skoða íslenskt mál. Ég veit í raun varla hvað orðið þýðir. Það eina sem ég veit er að Edda Falak hefur með mjög alvarlegum hætti grafið undan trúverðugleika sínum. Að Frosti Logason skyldi afhjúpa hana var, að mínu mati, óheppileg tilviljun — en það kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd að með lágmarks rannsóknarvinnu hefði hver sem er  getað gert slíkt hið sama.
Ég skil heldur ekki af hverju ýmsar konur á samfélagsmiðlum styðja Eddu Falak í krafti #afsakið. Ég stal pony-hesti af leikskólanum mínum þegar ég var þriggja ára og laug að mömmu minni um það — þetta hefur ekkert með þá alvarlegu staðreynd að gera að Edda Falak bjó til falskan söguþráð sem varð henni til frama í fjölmiðlum.

Ég hef reynt það á eigin skinni hvernig það er að vera brotaþoli ofbeldis og veruleika þess að reyna að reka ofbeldismál í dómskerfinu. Það er ekki auðvelt hlutskipti. Að einhver hafi skapað sér svigrúm í umræðunni á grundvelli falskra reynslusagna er vægast sagt móðgun við brotaþola ofbeldis.  Mér blöskrar yfirhylminingin og tvískinnungshátturinn sem birtist í umræðunni um þetta mál. Allt er það í mótsögn við þau gildi sem drifu MeToo-hreyfinguna áfram.

Virðingarfyllst,
Sigríður Mjöll Björnsdóttir (brotaþoli)

Skildu eftir skilaboð