Í gær var hér fjallað um nýlega ráðningu Seðlabanka Íslands í nýja stöðu loftslags- og sjálfbærnifræðings og að boðað hefði verið til fundar í bankanum þar sem nýi sérfræðingurinn átti að kynna nýja starfið. Sagt var að seðlabankastjóri myndi segja frá því hvernig hamfarahlýnun og verðbólga haldast í hendur og að með lækkandi hitastigi jarðar yrði frekar unnt að kæla hagkerfið og slökkva verðbólgubálið. Einnig var sagt að nektarmálverk Gunnlaugs Blöndal, sem fjarlægt var úr almenningsrými bankans árið 2019, yrði hengt upp á ný sem tákn um aukinn kvenleika og feminisma innan bankans, en nýr loftslags- og sjálfbærnifræðingur bankans er kvenmaður og feministi.
Hér var blandað saman réttu og skálduðu efni í tilefni 1. apríl. Hið rétta er að hin nýja staða var búin til en enginn kynningarfundur var haldinn í bankanum og því ekki boðið upp á kolefnissporalaust skordýrasnakk frá fyrirtækinu engisprettur.is.
Og ekkert er hægt að fullyrða um að innan Seðlabankans trúi menn í raun á samspil verðbólgu og loftslagsbreytinga. Þó skyldi engan undra enda eru háðsglósur skemmtikrafta nú orðnar óaðgreinanlegar frá raunveruleikanum.
Það má færa fyrir því rök að verðbólga og loftslagsbreytingar haldist í hendur. Lágir vextir ýta undir stórar og dýrar langtímafjárfestingar, enda líta þær vel út á blaði þegar vextir eru lágir, en þegar kemur í ljós seinna að engin innistæða var fyrir þeim fjárfestingum þá lenda þær á brunaútsölu og mikið fé tapast. Auðlindum Jarðar var því sólundað í steinsteypu og malbik sem engin eftirspurn var eftir og aðrar og nothæfari fjárfestingar urðu aldrei raungerðar.
Mögulega mun nýr loftslags- og sjálfbærnisérfræðingur benda á þetta. Mögulega mun loftslags- og sjálfbærnisérfræðingur Seðlabanka Íslands þess í stað atast í starfsmönnum fyrir pappírs- og prentaranotkun, of mikla lýsingu, of orkufrekt loftræstikerfi, of mikið kjötát (mælt með að starfsfólk Seðlabankans verði vegan), of margar flugferðir, of mikla bílanotkun, en Seðlabanki Íslands situr vitaskuld ofan á stærðarinnar bílastæðakjallara. Honum þarf jafnvel að loka og starfsmenn þurfa að vaða slyddu og snjó í fínu fötunum sínum eins og hver annar launamaður.
Og ekki er ólíklegt að brjóstamálverk Gunnlaugs Blöndals verði hengt upp á ný. Málverkið var tekið niður í kjölfar me-too umræðunnar árið 2019. Sú umræða er nú liðin undir lok og fjórum árum síðar eru ber brjóst komin í tísku á ný og krakkar í skólum farnir að leira og baka typpi og píkur.
Allt á þetta eftir að koma í ljós, og hver veit nema apríl-gabb Fréttarinnar rætist, a.m.k. að hluta til, eins og svo margt annað háð nú til dags.