Málfrelsi boðar til fundar: Ótti, áróður, einangrun – Er samfélagsvefurinn að rofna?

frettinFjölmiðlar, Fundur, Innlent, SamfélagsmiðlarLeave a Comment

Samtökin Málfrelsi boða til fundur á laugardag 15. apríl sem haldinn verður í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl. 14. Fyrirlesarar verða Dr. Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við HÍ og Laura Dodsworth, rithöfundur og blaðamaður.

Í lýsingu viðburðarins segir:

Ný íslensk rannsókn sýnir á sláandi hátt hvernig geðheilbrigði og lífshamingja barna hefur farið niður á við á síðustu þremur árum, eftir að samfélagið var drepið í dróma hræðsluáróðurs sem hafði að meginmarkmiði að einangra fólk. Á sama tíma dregur sífellt úr eðlilegum mannlegum samskiptum vegna tilkomu rafrænna samskiptamiðla.

Hvaða áhrif hefur þetta á samfélög okkar og samskipti, sem á endanum byggja að mestu á líkamlegri tjáningu? Er samfélagsvefurinn að rakna upp? Hverjar verða afleiðingarnar, hvað drífur þessa þróun áfram og hvernig getum við brugðist við henni? Þessum spurningum verður leitast við að svara á fundi Málfrelsis - samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, sem haldinn verður í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl. 14 laugardaginn 15. apríl.

Í metsölubók Lauru Dodsworth, "A State of Fear" er fjallað um hinn fordæmalausa hræðsluáróður sem upphófst snemma árs 2020 og hvernig sálfræðilegum aðferðum var beitt til að hræða fólk til hlýðni og skera á mannleg samskipti. Laura segir frá þessari fordæmalausu áróðursherferð og afleiðingum hennar og gerir grein fyrir uppljóstrunum um vinnubrögð breskra stjórnvalda í faraldrinum.

Hún segir einnig frá efni næstu bókar sinnar "Free your Mind: The new world of manipulation and how to resist it" sem er væntanleg í júní, en sú bók er hugsuð sem handbók um hvernig hægt er að verjast þeim áróðri sem sífellt dynur á okkur.

Dr. Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands steig nýverið fram og varaði við þeim áhrifum sem rafræn samskiptatækni er að hafa á samfélagið. "Tæknin er búin að taka yfir samfélagið og í mínum huga er misskilningur að hún sé viðbót við það sem fyrir var. Hún umbreytir öllu sem fyrir var" segir Viðar í nýlegu viðtali í Morgunblaðinu.

Tækni- og neysluvæðing nútímans hefur grafið undan félagslegum töfrum hversdagslífsins og aukið á angist, skautun og ójöfnuð – svo eitthvað sé nefnt. Við getum ekki stöðvað tækniþróunina segir hann, en hún má ekki stjórna lífi okkar. "Sérstaklega ekki þar sem hún er á forsendum alþjóðlegra tæknirisa." Viðar segir frá rannsóknum sínum, en hann vinnur nú að bók um þessa ógnvænlegu þróun og afleiðingar hennar.

Skildu eftir skilaboð