Af hverju mótmæla Frakkar hækkun eftirlaunaaldurs svona kröftuglega?

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Fjármál, Mótmæli, Pistlar, StjórnarfarLeave a Comment

Fjölmenn mótmæli með uppþotum hafa geisað í Frakklandi undanfarnar vikur. Meginstraumsfjölmiðlar á Vesturlöndum hafa greint frá þeim án þess að segja frá kjarna málsins, eins og svo oft áður þegar eitthvað gerist sem almenning varðar um. Þegar mótmælin, sem telja milljónir manna, hafa fengið umfjöllun, er látið að því liggja að þetta séu nú bara „Frakkar með ólæti“. Þjóðin er fræg fyrir byltingar, verkföll og Gul vesti, svo eitthvað sé nefnt.

Vinnusömum Íslendingum, sem myndi ekki einu sinni láta sig dreyma um að fara á eftirlaun við 64 ára aldur, hvað þá 62 ára aldur, finnst þetta ef til vill mikill hávaði af litlu tilefni. Í bandarískum fjölmiðlum eru uppþotin jafnvel notuð til að útmála verkalýðshreyfinguna sem óstýrilátan rumpulýð sem ekki er treystandi. Eitthvað kannast maður við svipaða framsetningu hérlendis þegar almenningur er með múður. En skoðum aðeins betur hvað er um að vera þarna. 

Lögregluofbeldið yfirgengilegt

Franska lögreglan hefur beitt mótmælendur mjög harkalegu ofbeldi. Ef við sæjum svona myndir eða myndbönd frá til dæmis Kína, Íran eða Rússlandi, yrði fussað og sveiað og hneykslast á stjórnvöldum þar, eins og vanalegt og eðlilegt þykir eftir áratugalangan skoðanamótandi fréttaflutning frá þeim löndum. En franska löggan virðist mega spreyja og lemja borgarana í buff án þess að það hreyfi sérstaklega við blaðamönnum og mannréttindafrömuðum sem ekkert aumt mega sjá annarsstaðar en í eigin bakgarði.

Athygli vakti um daginn þegar að mótmælendurnir brutust inn í höfuðstöðvar bandaríska sjóðastýringafyrirtækisins BlackRock í París, hins stærsta í heimi, og gerðu þar mikið skurk. BlackRock stýrir m.a. lífeyrissjóðum Frakka. Sagan segir að fyrirtækið hafi farið af krafti í fasteignatengdar fjárfestingar á einkamarkaði, sem innihalda lánavafninga (CDO), en þegar árið 2010 voru þessir vafningar taldir vera haldnar svipuðum veikleikum og þeir sem hrundu af stað fjármálahruni ársins 2008 í Bandaríkjunum.

Nú standi svona lánavafningar völtum fótum á ný í heiminum. BlackRock brást við með því að hlaða þessum fjárfestingum inn í lífeyrissjóði Frakka, þannig að þegar þær byrja að falla saman (og þær munu gera það), munu lífeyrissjóðir fransks almennings verða fyrir skellinum, á meðan auðæfi ríkmenna í umsjón BlackRock fljóta þægilega yfir ólgusjó fjármálahrunsins framundan.

Macron sýndi einræðistilburði

Mótmælendur eru ævareiðir út í forsetann, Emmanuel Macron, sem sjálfur er fyrrverandi háttsettur bankamaður til að byrja með. Hann ákvað að skauta framhjá þinginu og nota sérúrræði frönsku stjórnarskrárinnar til að hækka eftirlaunaaldur Frakka. Frönsku þjóðinni var þannig sagt, að eftir ævistarfið þurfi hún að seinka eftirlaunatöku, og þegar að henni kemur verði hvort sem er gripið í tómt, til að bjarga auðæfum bankavina Macron. Forsetinn flúði í heimsókn til Kína, og mótmælendur báru eld að uppáhalds veitingastað hans í París, La Rotonde brasserie á Montparnasse.

Mótmælendur við Bastille-neðanjarðarlestarstöðina í París.

Sé það ekki þegar orðið of seint, væri ef til vill upplagt fyrir íslenska banka- og lífeyrissjóðsmenn - sem og lífeyris- og innistæðueigendur á Íslandi - að kanna hvort að þeir séu með belti og axlabönd, eða að minnsta kosti annað af hvoru, því BlackRock og fleiri erlend fyrirtæki eru vissulega með nokkra íslenska sjóði í stýringu. Eitthvað vita Frakkarnir sem við höfum ekki fengið að sjá ennþá.

author avatar
Erna Ýr Öldudóttir

Skildu eftir skilaboð