Hersh: Zelensky-stjórnin sveik út 400 milljónir dollara af bandarískri aðstoð í fyrra

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Öryggismál, Úkraínustríðið, Utanríkismál1 Comment

Erna Ýr Öldudóttir þýddi umfjöllun eftir bandaríska Pulizer-verðlaunahafann Seymour Hersh, birtist fyrst á Substack undir nafninu „Trading with the enemy“ þann 12. apríl 2023

Hömlulaus spilling í Kænugarði, á meðan bandarískir hermenn safnast saman við landamæri Úkraínu. hvernig Sér Biden-stjórnin fyrir sér endalokin?

Ríkisstjórn Úkraínu, undir forystu Volodymyr Zelensky, hefur fengið bandarískt skattfé til að greiða bráðnauðsynlegt dísileldsneyti dýru verði. Eldsneytið heldur úkraínska hernum gangandi í stríðinu við Rússland. Ekki er vitað hve mikið Kænugarðsstjórnin greiðir fyrir lítrann af eldsneyti. Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon greiddi allt að 400 dollara fyrir lítra fluttan frá höfn í Pakistan, með vörubíl eða fallhlíf, inn í Afganistan á meðan á þeim langdregnu átökum stóð.

Einnig er á huldu hvernig Zelensky hefur keypt eldsneytið frá Rússlandi, landinu sem hann og Washington eiga í stríði við. Úkraínuforseti og margir í fylgdarliði hans hafa dregið að sér fleiri milljónir Bandaríkjadala sem ætlaðir voru til kaupa á dísileldsneyti. Einn sérfræðingur bandarísku leyniþjónustunnar CIA áætlaði að fjársvikin næmu amk. 400 milljónum dollara á síðasta ári. Annar sérfræðingur stofunarinnar kvað spillingarstigið í Kænugarði vera að nálgast spillinguna í stríðinu í Afganistan, „þó svo að engra faglegra bókhaldsgagna sé að vænta frá Úkraínu.“

Keyptu af Rússum, hirtu mismuninn

„Zelensky hefur verið að kaupa dísil á afslætti frá Rússum,“ sagði einn fróður bandarískur leyniþjónustumaður við mig. „Og hver er að borga fyrir bensínið og olíuna? Það erum við. Pútín og ólígarkarnir hans græða milljónir“ á þessu.

Mörg ráðuneyti í Kænugarði hafa bókstaflega „keppst,“ var mér sagt, um að stofna skúffufyrirtæki um samninga um útflutning á vopnum og skotfærum við vopnasala úti um allan heim, upp á hlut. Margir þeirra eru í Póllandi og Tékklandi, en aðrir eru taldir vera við Persaflóa og í Ísrael. „Það kæmi mér ekki á óvart að frétta af enn fleiri stöðum eins og Cayman-eyjum og Panama, og það er fullt af Bandaríkjamönnum sem taka þátt í þessu,“ sagði bandarískur sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum við mig.

Forstjóri CIA, Willliam Burns, bar spillingarmálið upp við Zelensky á fundi þeirra í janúar sl. í Kænugarði. Skilaboð hans til Úkraínuforseta, var mér sagt frá fyrstu hendi, voru eins og úr mafíumynd frá 1950. Háttsettir hershöfðingjar og embættismenn í Kænugarði reiddust yfir því sem þeim fannst vera græðgi Zelenskys. Burns sagði við Úkraínuforseta, að það væri vegna þess að „hann tæki til sín stærri hlut en hinir fengu.“

William Burns, forstjóri CIA, í Kænugarði í vetur.

Skýringin á uppsagnahrinunni komin

Burns afhenti Zelensky lista yfir þrjátíu og fimm hershöfðingja og háttsetta embættismenn sem CIA og aðrir hjá bandarískum stjórnvöldum vissu að tækju þátt í spillingunni. Zelensky brást við þrýstingi Bandaríkjamanna tíu dögum síðar. Hann rak tíu af „prúðustu“ embættismönnum listans en gerði lítið annað. „Þeir tíu sem hann rak höfðu gerst svo ósvífnir að monta sig af peningunum — t.d. með því að keyra um Kænugarð á nýjum Mercedes Benz,“ sagði leyniþjónustumaðurinn við mig.

Litið væri á hálfvelgjuna í viðbrögðum Zelenskys og kæruleysi Hvíta hússins, bætti leyniþjónustumaðurinn við, sem enn eina vísbendinguna um skort á forystu. Þetta leiði til „algjörs niðurbrots“ á trausti milli Hvíta hússins og sumra eininga leyniþjónustunnar. Annað ágreiningsefni, sem ég hef ítrekað í nýlegum umfjöllunum, er hin sterka trú og skortur á pólitískri færni sem Tony Blinken utanríkisráðherra og Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi hafa sýnt. Forsetinn og tveir helstu ráðgjafar hans í utanríkismálum „lifa í öðrum heimi“ en reyndir stjórnarerindrekar og her- og leyniþjónustufulltrúar Hvíta hússins. „Þeir hafa enga reynslu, dómgreind og siðferðileg heilindi. Þeir ljúga bara, skálda upp sögur. Diplómatísk afneitun er annað mál,“ sagði leyniþjónustumaðurinn. –„Hún er nauðsynleg.“

Þekktur bandarískur stjórnarerindreki á eftirlaunum, sem er harðlega andvígur utanríkisstefnu Biden gagnvart Kína og Rússlandi, lýsti Blinken sem ekki merkilegri en „uppblásnum starfsmanni þingsins“ og Sullivan sem „kosningastjóra“ sem eins og fyrir slysni lendir með sinn erindrekstur á fremstu víglínu alþjóðamálanna á viðsjárverðum tímum „með engan skilning á andstæðum sjónarmiðum. Þetta eru svo sem þokkalegir pólitíkusar,“ bætti hann við, „en nú er orku- og stjórnmálaheimurinn algjörlega á hvolfi. Nú eru Kína og Indland að selja hinum vestræna heimi hreinsað eldsneyti. Þetta eru hrein viðskipti.“

Það hjálpar ekki til í krísunni að Pútín er óútreiknanlegur. Leyniþjónustumaðurinn sagði mér að allt sem Pútín hafi verið að „gera í Úkraínu stangist á við langtímahagsmuni Rússlands. Tilfinningar hafi bori skynsemina ofurliði og að hann sé að gera óábatasama hluti. Og svo ætlum við að setjast niður með Zelensky og Pútín og leysa úr því? Ekki séns.“

Samráðs- og undirbúningsskortur í stjórnkerfinu

„Það er gjá á milli forystu Hvíta hússins og leyniþjónustusamfélagsins,“ sagði leyniþjónustumaðurinn. Gjáin nær aftur til haustsins, þegar, eins og ég greindi frá í byrjun febrúar, Biden fyrirskipaði leynilega eyðileggingu á Nord Stream gasleiðslunum í Eystrasalti. „Að eyðileggja Nord Stream leiðslurnar var aldrei rætt, eða jafnvel vitað fyrirfram, af leyniþjónustusamfélaginu,“ sagði embættismaðurinn mér. „Það er engin áætlun um hvernig á að binda enda á stríðið. Bandaríkin eyddu tveimur árum í að skipuleggja innrásina í Normandí í Seinni heimsstyrjöldinni. Hvað ætlum við að gera ef Kína ákveður að ráðast inn í Taívan? Embættismaðurinn bætti við að Öryggisráðið (NIC) hafi enn ekki óskað eftir mati Öryggismatsnefndarinnar (NIE) um hvernig eigi að verja Taívan fyrir árás Kína, til að veita þjóðaröryggis- og pólitískar leiðbeiningar ef slíkt gerist.  Hann sagði enga ástæðu ennþá, þrátt fyrir ítrekuð pólitísk stóryrði bandarískra stjórnmálamanna, bæði úr röðum Demókrata og Repúblikana, að gruna að Kína hafi í hyggju að ráðast inn í Taívan. Kína hafi tapað milljörðum á því að byggja hið gríðarmetnaðarfulla Belti- og braut-verkefni, sem miðar að því að tengja Austur-Asíu við Evrópu. Eins fjárfestingar, kannski heimskulegar, í hafnaraðstöðu úti um allan heim. „Málið er,“ sagði embættismaðurinn við mig, „það er ekkert starfandi NIE ferli lengur.“

„Burns er ekki vandamálið,“ sagði embættismaðurinn. „Vandamálið er Biden og helstu undirsátar hans - Blinken og Sullivan og grúppíurnar þeirra - sem líta á þá sem gagnrýna Zelensky sem stuðningsmenn Pútíns. Við erum á móti illum verkum. Úkraína mun berjast „þar til síðasta skotinu verður hleypt af og enn munu þeir berjast. Og svo kemur Biden og segir Bandaríkjamönnum að við ætlum að berjast eins lengi og þarf.“

Bandarískar úrvalssveitir í viðbragðsstöðu

Embættismaðurinn minntist á lítt þekkta og sjaldan rædda aðgerð, heimilaða af Biden. Tvær hersveitir skipaðar þúsundum af bestu bardagadeildum bandaríska hersins eru á svæðinu. Hersveit 82. flugherdeildar sem hefur æft ákaft í bækistöð sinni í Póllandi, fáeina kílómetra frá landamærum Úkraínu. Hún fékk liðsstyrk seint á síðasta ári með hersveit 101. flugherdeildar sem var send til Rúmeníu. Mannafli herdeildanna tveggja , þegar stjórnunar- og stuðningsdeildir, ásamt vörubílum og bílstjórum sem flytja stöðugan straum vopna og herbúnaðar sem koma sjóleiðina, til að halda sveitunum viðbúnum fyrir bardaga, gæti numið yfir 20 þúsund manns.

Leyniþjónustumennirnir sögðu mér að „engar vísbendingar séu um að nokkur háttsettur embættismaður í Hvíta húsinu viti í raun hvað á að gera við 82. og 101. flugherdeildirnar. Eru þær þarna sem hluti af NATO-æfingu eða til að berjast með herdeildum NATO ef Vesturlönd ákveða að mæta herdeildum Rússa í Úkraínu? Eru þeir þarna til að stunda æfingar eða til að verða kveikjan að átökum? Reglurnar um þátttöku í stríðinu kveða á um að þeir megi ekki ráðast á Rússa nema þeir verði fyrir árás að fyrra bragði.“

„En barnaskólinn flytur þetta leikrit,“ bætti embættismaðurinn við. „Það er engin öryggissamhæfing og bandaríski herinn er að búa sig undir að fara í styrjöld. Við höfum ekki hugmynd um hvort Hvíta húsið viti hvað er að gerast. Hefur forsetinn upplýst bandarísku þjóðina um hvað er í gangi? Einu upplýsingarnar sem fjölmiðlar og almenningur fá í dag eru frá talsmönnum Hvíta hússins.

„Þetta er ekki bara slæm forysta. Það er engin. Núll.“ Embættismaðurinn bætti við að teymi úkraínskra orrustuflugmanna sé nú að fá þjálfun í Bandaríkjunum til að fljúga bandarískum F-16 orrustuþotum, með það að markmiði, ef þörf krefur, að fljúga í bardaga gegn rússneskum hermönnum og öðrum skotmörkum innan Úkraínu. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um slíka aðgerð.

Ofurbjartsýni og hvað á að gerast næst?

Skýrustu yfirlýsingarnar um stefnu Bandaríkjanna hafa ekki komið frá Hvíta húsinu, heldur frá Pentagon. Hershöfðinginn Mark A. Milley, yfirherforingi, sagði 15. mars síðastliðinn: „Rússland er enn einangrað. Herbirgðir þeirra eru að tæmast hratt. Hermenn þeirra eru hvatningarlausir, óþjálfaðir, áhugalausir hermenn og fangar, og forysta þeirra hefur brugðist. Þar sem Rússar hafa ekki náð stefnumarkmiðum sínum, treystir Rússland í auknum mæli á önnur lönd, eins og Íran og Norður-Kóreu. . . . Þetta samband er byggt á grimmilegum áætlunum þeirra um að grafa undan og kæfa frelsið og viðhalda harðstjórn sinni. . . . Úkraínuher er enn sterkur. Þeir eru færir og þjálfaðir. Úkraínskir hermenn eru með . . . sterkar herdeildir. Skriðdrekarnir, fótgönguliðsbardagabílarnir og brynvörð farartæki munu aðeins styrkja víglínuna.“

Bandaríski yfirhershöfðinginn Mark A. Milley metur rússneska herinn ekki mikils.

Það eru vísbendingar um að Milley sé jafn bjartsýnn og hann hljómar. Mér var sagt að fyrir tveimur mánuðum hafi herforingjaráðið hans fyrirskipað starfsmönnum að semja stríðssáttmála til að leggja fyrir Rússa í framhaldi af ósigri þeirra á vígvellinum í Úkraínu.

Ef allt fer á versta veg fyrir undirmannaðan og yfirbugaðan Úkraínuher á næstu mánuðum, munu þá bandarísku hersveitirnar tvær taka höndum saman við NATO-hermenn og berjast við rússneska herinn í Úkraínu? Er þetta áætlun, eða von, Bandaríkjaforseta? Er þetta ræðan sem hann vill flytja þjóðinni? Ef Biden ákveður að deila hugsunum sínum með bandarísku þjóðinni gæti hann viljað útskýra hvað tvær hersveitir, fullmannaðar og tilbúnar, eru að gera svona nálægt átakasvæðinu.

One Comment on “Hersh: Zelensky-stjórnin sveik út 400 milljónir dollara af bandarískri aðstoð í fyrra”

  1. Mjög góð grein hjá þér!

    Þú ættir kannski að hafa samband við ráðamenn íslands og kenna þeim kvernig hlutirnir eru og virka?

Skildu eftir skilaboð