Seymour Hersh: Hvernig Bandaríkin eyðilögðu Nordstream leiðslurnar

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, NATÓ, Njósnir, Orkumál, Öryggismál, Stjórnmál, Úkraínustríðið, Umhverfismál, UtanríkismálLeave a Comment

Heildarþýðing á umfjöllun Seymour Hersh, sem birtist fyrst á Substack 8. febrúar 2023
Þýðandi Erna Ýr Öldudóttir

Köfunar- og björgunarmiðstöð bandaríska sjóhersins er að finna á afskekktum stað, við enda sveitatroðnings í útjaðri Panama borgar. Í borginni er sumardvalarstaður í miklum vexti, en hún er staðsett í pönnuskafti suðvestur Flórída, 112 km suður af Alabama. Byggingar miðstöðvarinnar bera jafn lítið yfir sér og staðsetningin. Gróf steinsteypt eftirstríðsára-mannvirki sem minna á menntaskóla í vesturbæ Chicago. Myntvaskahús og dansskóli eru handan við það sem nú er fjögurra akreina vegur.

Miðstöðin hefur þjálfað mjög hæfa djúpsjávarkafara í áratugi. Áður var þeim deilt niður á bandarískar herdeildir úti um allan heim. Þeir búa yfir færni í tækniköfun til að vinna góðverk, svo sem með því að koma C4 sprengiefni fyrir til að hreinsa hafnir og strendur af rusli og ósprungnum sprengjum. En ekki síður til að vinna illvirki, eins og að sprengja erlenda olíuborpalla, skemma inntaksventla fyrir neðansjávarvirkjanir og eyðileggja lokur á mikilvægum siglingaskurðum. Miðbær Panama borgar státar af næststærstu innisundlaug Bandaríkjanna. Hún var gráupplagður staður til að ráða til sín bestu og þagmælskustu útskriftarnema köfunarskólans. Síðasta sumar framfylgdu þeir skipunum 80 metrum undir yfirborði Eystrasaltsins.

Í júní síðastliðnum, í skjóli vandlega kynntrar NATO-æfingar, BALTOPS 22, komu þeir fyrir fjarstýrðu sprengiefni. Þremur mánuðum síðar, eyðilagði það þrjár af samtals fjórum Nord Stream-gasleiðslunum, er haft eftir heimildarmanni með fyrstu handar vitneskju um aðgerðina.

Tvær pípurnar, sem saman voru þekktar sem Nord Stream 1, höfðu séð Þýskalandi og stórum hluta Vestur-Evrópu fyrir ódýru rússnesku jarðgasi í yfir áratug. Annað sett af pípum, Nord Stream 2, höfðu verið lagðar en voru ekki enn komnar í gagnið. Nú, þegar rússneskir hermenn höfðu safnast saman við landamæri Úkraínu, og blóðugasta stríð í Evrópu síðan 1945 vofði yfir, leit forsetinn Joseph Biden á leiðslurnar sem vopn í höndum Vladimir Pútín. Hann myndi beita jarðgasi fyrir pólitískum metnaði og metnaði sínum til landvinninga.

Óskað var eftir áliti Adrienne Watson, talsmanns Hvíta hússins, á fréttinni og hún svaraði í tölvupósti: „Þetta er rangt og algjör skáldskapur.“ Tammy Thorp, talsmaður leyniþjónustu CIA, svaraði á sama hátt: „Þessi fullyrðing er að öllu leyti alröng.“

Ákvörðun Biden um að skemma leiðslurnar var tekin eftir meira en níu mánaða háleynilegar umræður. Rætt var fram og til baka innan þjóðaröryggissamfélagsins í Washington, um hvernig best væri að koma henni í framkvæmd. Mikinn hluta tímans snerist málið ekki um hvort, heldur hvernig ætti að framkvæma hryðjuverkið án þess að upp um þau kæmist.

Mikilvæg skrifræðisleg ástæða er fyrir því hversvegna útskriftarnemum úr harðkjarna köfunarskólans í Panamaborg var treyst fyrir verkefninu. Kafararnir voru úr sjóhernum, en ekki Sérsveit Bandaríkjahers. Leynilegar aðgerðir Sérsveitarinnar þarf nefnilega að tilkynna til þingsins og upplýsa um þær fyrirfram til forystu öldunga- og fulltrúadeildarinnar – Átta manna gengisins svokallaða. Biden-stjórnin gerði allt sem hægt var til að forðast leka á meðan skipulagningin fór fram seint á árinu 2021 og á fyrstu mánuðum ársins 2022.

Biden forseti og utanríkismálateymið hans - þjóðaröryggisráðgjafinn Jake Sullivan, utanríkisráðherrann Tony Blinken og Victoria Nuland, stefnumótandi aðstoðarutanríkisráðherra - höfðu verið hávær og samstíga í andúð sinni á leiðslunum tveimur. Leiðslurnar lágu samhliða, 1.200 km langar, á botni Eystrasaltsins. Þær náðu frá tveimur höfnum í norðausturhluta Rússlands nálægt landamærum Eistlands, og teygðu sig framhjá dönsku eyjunni Borgundarhólmi, áður en þær enduðu í Norður-Þýskalandi.

Bein leið, sem gerði gasflutninga í gegnum Úkraínu óþarfa, hafði verið blessun fyrir þýska hagkerfið. Það naut gnægðar af ódýru rússnesku jarðgasi - nógu til að reka verksmiðjur sínar og kynda heimili sín. Samtímis var þýskum dreifingaraðilum gert kleift að selja umframgas með hagnaði um alla Vestur-Evrópu. Skemmdarverk sem rekja mætti til stjórnvalda myndi brjóta loforð Bandaríkjanna um að lágmarka bein átök við Rússland. Leynd var því bráðnauðsynleg.

Frá byrjun var Nord Stream 1 litin hornauga af Washington, og and-rússneskum NATO ríkjum, sem ógn við vestræn yfirráð. Eignarhaldsfélagið Nord Stream AG, var stofnað í Sviss árið 2005 í samstarfi við Gazprom. Það er rússneskt hlutafélag á markaði, sem skilar gífurlegum hagnaði fyrir meirihlutaeigendur, ólígarka undir hæl Pútíns. Gazprom réði yfir 51 prósenta hlut í fyrirtækinu. Fjögur evrópsk orkufyrirtæki — eitt í Frakklandi, eitt í Hollandi og tvö í Þýskalandi — deildu hinum 49 prósentunum og höfðu umboð til að stjórna sölu á ódýru jarðgasi til dreifingaraðila í Þýskalandi og Vestur-Evrópu. Hagnaði Gazprom var deilt með rússneskum stjórnvöldum og áætlað var að tekjur ríkisins af gasi og olíu sum árin hafi numið allt að 45 prósentum af árlegum fjárlögum Rússlands.

Pólitískur beygur Bandaríkjanna var ekki ástæðulaus. Pútín myndi nú hafa mikilvæga stóra viðbótartekjulind. Þýskaland og Vestur-Evrópa myndu ánetjast ódýru jarðgasi frá Rússlandi. Bandaríkin yrðu þeim ekki mikilvæg lengur. Reyndar er það nákvæmlega það sem gerðist. Margir Þjóðverjar litu á Nord Stream 1 sem hluta af frelsun samkvæmt hinni frægu Ostpolitik-kenningu Willy Brandt, fyrrverandi kanslara. Endurreisn Þýskalands og annarra Evrópuþjóða úr rústunum eftir Seinni heimsstyrjöldina, með ódýru rússnesku gasi. Það yrði drifkraftur velmegandi markaðs- og viðskiptahagkerfa Vestur-Evrópu.

Nord Stream 1 leiðslan var nógu hættuleg, að mati NATO og Washington. Nord Stream 2 leiðslan, hverrar smíði var lokið í september 2021, myndi að fengnu samþykki þýskra eftirlitsaðila, tvöfalda magnið af ódýru gasi sem Þýskalandi og Vestur Evrópu stæði til boða. Aðeins önnur leiðslan myndi veita nógu gasi fyrir meira helminginn af árlegri neyslu Þýskalands. Spennan magnaðist stöðugt á milli Rússlands og NATO, mögnuð upp af árásargjarnri utanríkisstefnu Biden-stjórnarinnar.

Andstaðan við Nord Stream 2 blossaði upp í aðdraganda vígslu Biden í forsetaembætti í janúar 2021. Repúblikanar í öldungadeildinni, undir forystu Ted Cruz frá Texas, báru ítrekað upp hina pólitísku ógn af ódýru rússnesku jarðgasi, við staðfestingu Blinken í embætti utanríkisráðherra. Þá hafði öldungadeildin einróma samþykkt lög, sem eins og Cruz orðaði það við Blinken, „stoppuðu [leiðsluna] í sporunum“. Búist var við gríðarlegum pólitískum og efnahagslegum þrýstingi frá þýsku ríkisstjórninni, þá undir forystu Angelu Merkel, um skrúfa frá seinni gasleiðslunni.

Myndi Biden standa upp í hárinu á Þjóðverjum? Blinken sagði já, en bætti við að hann hefði ekki rætt einstök sjónarmið nýs forseta. „Ég þekki sterka sannfæringu hans um að Nord Stream 2 sé slæm hugmynd,“ sagði hann. „Ég veit að hann myndi leyfa okkur að nota öll möguleg tól til að sannfæra vini okkar og samstarfsaðila, þar á meðal Þýskaland, um að halda ekki áfram með hana.“

Nokkrum mánuðum síðar, þegar lagningu seinni leiðslunnar var við það að ljúka, lúffaði Biden. Þá í maí, í ótrúlegum viðsnúningi, hætti stjórnin við refsiaðgerðir gegn Nord Stream AG. Embættismaður utanríkisráðuneytisins viðurkenndi að hindrun leiðslunnar með refsiaðgerðum og diplómasíu hefði „alltaf verið langsótt.“ Á bak við tjöldin eiga embættismenn bandarískra stjórnvalda að hafa hvatt Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, sem þá stóð frammi fyrir hótun um innrás Rússa, til að gagnrýna ekki ákvörðunina.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Repúblikanar í öldungadeildinni, undir forystu Cruz, tilkynntu um tafarlausa hindrun á öllum tilnefningum Biden í utanríkismálaembætti. Þeir seinkuðu afgreiðslu árlegra varnarmálafjárlaga um marga mánuði, langt fram á haust. Politico lýsti viðsnúningi í stefnu Biden gagnvart seinni rússnesku gasleiðslunni sem „einu ákvörðuninni, sem líklega sé óreiðukenndari en brottflutningur hersins frá Afganistan, og hafi stofnað forsetatíð Biden í hættu.“

Ríkisstjórnin átti í vök að verjast, þrátt fyrir frest vegna kreppunnar um miðjan nóvember þegar orkueftirlit Þýskalands stöðvaði samþykki annarrar Nord Stream leiðslunnar. Verð á jarðgasi hækkaði um 8% á fáeinum dögum. Ótti óx í Þýskalandi og Evrópu um að stöðvun leiðslunnar og vaxandi líkur á stríði milli Rússlands og Úkraínu myndu leiða til kulda um veturinn. Fyrir Washington var enn ekki ljóst hvar Olaf Scholz, nýskipaður kanslari Þýskalands, stóð. Nokkrum mánuðum fyrr, eftir fall Afganistan, hafði Scholz opinberlega samþykkt kröfu Emmanuel Macron Frakklandsforseta, um sjálfstæðari utanríkisstefnu Evrópu, í ræðu í Prag. Ræðan gaf skýrt til kynna þverrandi traust á Washington og ófyrirsjáanlegum aðgerðum þaðan.

Á meðan á þessu stóð höfðu rússneskir hermenn safnast jafnt og þétt saman á ógnandi hátt við landamæri Úkraínu. Í lok desember voru fleiri en hundrað þúsund hermenn tilbúnir til atlögu frá Hvíta-Rússlandi og Krímskaga. Áhyggjurnar mögnuðust í í Washington, þar á meðal var það mat Blinken að þessi hermannafjöldi gæti „tvöfaldast á skömmum tíma“.

Athygli stjórnvalda beindist enn og aftur að Nord Stream. Svo lengi sem Evrópa var háð lögnum með ódýru jarðgasi var óttaðist Washington að lönd eins og Þýskaland yrðu treg til að útvega Úkraínu vopn og fé sem þyrfti til að sigra Rússland.

Það var á þessu augnabliki örvæntingar sem Biden veitti Jake Sullivan leyfi til að setja saman hóp þvert á stofnanir til að brugga launráð.

Allir kostir áttu að vera uppi á borðinu. En aðeins einn birtist.

ÁÆTLUNARGERÐIN

Í desember 2021, tveimur mánuðum áður en fyrstu rússnesku skriðdrekarnir keyrðu inn í Úkraínu, boðaði Jake Sullivan til fundar nýstofnaðs vinnuhóps. Karlar og konur úr Sameinaðri stjórn starfsmanna, leyniþjónustu CIA og innanríkis- og fjármálaráðuneytinu. Þau áttu að leggja til hvernig skyldi bregðast við yfirvofandi innrás Pútín.

Hann yrði fyrstur af röð af leynilegra funda, í öryggisherbergi á efstu hæð í gamalli skrifstofu framkvæmda, við hliðina á Hvíta húsinu. Húsið var einnig aðsetur ráðgjafaráðs utanríkisleyniþjónustu forsetans (PFIAB). Þvaður fram og til baka leiddi að lokum til mikilvægrar spurningar áður en lengra yrði haldið: Myndu tilmælin sem hópurinn sendi forsetanum vera afturkræf - eins og tillögur að refsiaðgerðum og gjaldeyrishöftum - eða óafturkræf - af stað færi röð aðgerða sem ekki yrðu stöðvaðar?

Það sem þátttakendum varð ljóst, samkvæmt heimildarmanni með beina vitneskju um málið, er að Sullivan ætlaði hópnum að smíða áætlun um eyðingu Nord Stream leiðslanna tveggja - og að með því væri hann að uppfylla ósk forsetans.

Persónur og leikendur: F.v. Victoria Nuland, Anthony Blinken og Jake Sullivan.

Á næstu fundum ræddu þátttakendur möguleikann á að leggja til atlögu. Sjóherinn lagði til að nota kafbát, nýlega tekinn í notkun, til að ráðast beint á leiðslurnar. Flugherinn stakk upp á að varpa sprengjum, með seinkaðri virkni, sem hægt yrði að sprengja með fjarstýringu. CIA hélt því fram að hvað sem yrði gert, yrði það að fara leynt. Allir sem hlut áttu að máli skildu hvað var í húfi. „Þetta var ekkert barnaafmæli,“ sagði heimildarmaðurinn. Ef árásin yrði rekjanleg til Bandaríkjanna, „myndi það flokkast sem stríðsyfirlýsing.“

Á þessum tíma var CIA stjórnað af William Burns, hæverskum fyrrverandi sendiherra í Rússlandi, sem hafði verið aðstoðarutanríkisráðherra Obama-stjórnarinnar. Burns gaf fljótt leyfi fyrir vinnuhópi stofnunarinnar þar sem fyrir tilviljun var valinn aðili kunnugur getu djúpsjávarkafara sjóhersins í Panamaborg. Á vikunum eftir hófu meðlimir vinnuhóps CIA að sjóða saman áætlun um leynilega aðgerð með aðstoð djúpsjávarkafara, sem innihélt sprengingu á leiðslunum.

Eitthvað þessu líkt hafði verið gert áður. Árið 1971 frétti bandaríska leyniþjónustan, frá enn óþekktum heimildarmönnum, að tvær mikilvægar sveitir rússneska sjóhersins væru í samskiptum um neðansjávarstreng sem lá á botni Okhotskhafs á austurströnd Rússlands. Kapallinn tengdi svæðisstjórn sjóhersins við höfuðstöðvar meginlandsins í Vladivostok.

Handvalið teymi starfsmanna leyniþjónustu CIA og Þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA hittist einhvers staðar á Washington svæðinu, með djúpri leynd. Teymið vann áætlun um að nota kafara sjóhersins, breytta kafbáta og djúpkafbátabjörgunarbíl. Eftir margar þreytandi tilraunir tókst að finna rússneska kapalinn. Kafararnir komu háþróuðum hlustunarbúnaði fyrir á kaplinum sem tókst að hlera og taka upp samskipti Rússanna.

NSA komst að því að háttsettir yfirmenn rússneska sjóhersins væru fullvissir um öryggi kapalsins, og kjöftuðu þeir frjálslega við kollega sína án dulkóðunar. Skipta þurfti um upptökutækið og segulband þess mánaðarlega. Verkefnið lifði þannig góðu lífi í áratug þar til að 44 ára gamall borgaralegur tæknimaður frá NSA að nafni Ronald Pelton sem var reiprennandi í rússnesku kjaftaði frá. Pelton var svikinn af rússneskum liðhlaupa árið 1985 og dæmdur í fangelsi. Frá Rússum fékk hann aðeins fimm þúsund dollara greidda fyrir uppljóstrun sína um aðgerðina, en til viðbótar 35 þúsund dali fyrir önnur rússnesk gögn sem hann lagði fram en voru aldrei gerð opinber.

Þessi vel heppnaða neðansjávaraðgerð, með dulnefninu Ivy Bells, var frumleg og áhættusöm en veitti ómetanlegar upplýsingar um skipulag og fyrirætlanir rússneska sjóhersins.

Þrátt fyrir þetta deildi þverstofnanalegi hópurinn í upphafi ekki eldmóði CIA fyrir leynilegri djúpsjávarárás. Of mörgum spurningum var enn ósvarað. Rússneski sjóherinn gætti Eystrasaltsins eins og sjáaldur auga síns og engir olíuborpallar voru á svæðinu til að veita skjól. Þyrftu kafararnir að fara til Eistlands, rétt við landamærin hjá jarðgashleðslubryggjum Rússlands, til að þjálfa sig fyrir verkefnið? „Það væri óðs manns æði,“ var leyniþjónustunni tjáð.

Í gegnum „allt þetta ráðabrugg,“ sagði heimildarmaðurinn, „sumir starfsmenn CIA og utanríkisráðuneytisins sögðu: „Ekki gera þetta. Þetta er heimskulegt og verður pólitísk martröð ef það kemst upp.““

Engu að síður, snemma árs 2022, tilkynnti CIA vinnuhópurinn þverstofnanalegum hópi Sullivan: „Við höfum fundið leið til að sprengja leiðslurnar í sundur.“

Það sem gerðist næst var sláandi. Hinn 7. febrúar, innan þriggja vikna fyrir óumflýjanlega innrás Rússa í Úkraínu, hitti Biden Olaf Scholz, kanslara Þýskalands á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. Eftir nokkurt flökt var hann nú kyrfilega kominn í bandaríska liðið. Á blaðamannafundinum í kjölfarið sagði Biden ögrandi: „Ef Rússland ræðst inn . . . Þá verður engin Nord Stream 2. Við munum binda endi á það.“

Tuttugu dögum fyrr, hafði Nuland, aðstoðarráðherra, án mikillar fjölmiðlaathygli, flutt sömu skilaboð í meginatriðum, á kynningarfundi utanríkisráðuneytisins. „Ég vil vera mjög skýr við ykkur í dag“, svaraði hún spurningu. „Ef Rússar ráðast inn í Úkraínu mun Nord Stream 2 verkefnið á einn eða annan hátt ekki halda áfram.

Nokkrir sem tóku þátt í skipulagningunni óttuðust það sem þeim fannst vera óbeinar tilvísanir í árásina.

„Þetta var eins og að leggja kjarnorkusprengju á jörðina í Tókýó og segja Japönum að við ætluðum að sprengja hana,“ sagði heimildarmaðurinn. „Áætlað var að framkvæma eftir innrás og ekki að greina frá því opinberlega. Biden annað hvort skildi það einfaldlega ekki eða hunsaði það.“

Lausmælgi Biden og Nuland, ef það var ástæðan, gæti hafa gert suma skipuleggjendurna ergilega. En tækifæri skapaðist. Að sögn heimildarmannsins ákváðu sumir af háttsettum embættismönnum CIA að það að sprengja leiðslurnar „gæti ekki lengur talist leynilegur kostur vegna þess að forsetinn væri búinn að blaðra þessu.“

Áætlunin um að sprengja Nord Stream 1 og 2 í tætlur lækkaði skyndilega úr leynilegri aðgerð sem krafðist upplýsingar þingsins, í leyniþjónustuaðgerð með stuðningi Bandaríkjahers. Heimildarmaðurinn útskýrði að samkvæmt lögum: „Engin lagaleg krafa var lengur til staðar um að greina þinginu frá fyrirætluninni. Allt sem þurfti að gera núna var bara að láta gossa — en áfram varð það samt að vera leyndarmál. Rússar fylgjast ákaflega vel með Eystrasalti.“

Meðlimir vinnuhóps stofnunarinnar höfðu engin bein samskipti við Hvíta húsið. Þau voru óð í að komast að því hvort forsetinn meinti það sem hann hafði sagt. Átti að framkvæma aðgerðina? Heimildarmaðurinn rifjaði upp: „Bill Burns kemur aftur og segir: „Gerum það.““

Norski sjóherinn var snöggur að finna staðinn, fáeina kílómetra úti fyrir Borgundarhólmi...

AÐGERÐIN

Noregur var ákjósanlegur staður fyrir verkið.

Á undanförnum árum austur-vestur-krísunnar, hefur bandaríski herinn aukið umtalsvert viðveru sína í Noregi. Vesturlandamæri landsins liggja 2.250 km meðfram Norður-Atlantshafi og sameinast við heimskautsbaug þeim rússnesku. Pentagon hefur boðið þar upp á hálaunuð störf og samninga, þrátt fyrir gagnrýni heimamanna, með því að fjárfesta hundruðum milljóna dollara í að uppfæra og stækka aðstöðu bandaríska sjó- og flughersins í Noregi. Nýju verkefnin innihéldu, síðast en ekki síst, háþróaða tilbúna ljósopsratsjá lengst í norðri sem getur njósnað djúpt inn í Rússland. Hún var tekin í notkn á sama tíma og bandaríska leyniþjónustan missti aðgang að röð langdrægra hlustunarstöðva í Kína.

Nýuppgerð bandarísk kafbátastöð, sem hafði verið í smíðum um árabil, var komin í notkun og fleiri bandarískir kafbátar gátu nú unnið náið með norskum starfsbræðrum sínum til að fylgjast með og njósna um stóra rússneska kjarnorkustöð 400 km í austur, á Kólaskaga. Bandaríkin hafa einnig stækkað norska flugstöð í norðri til muna og afhent norska flughernum flota af Boeing-smíðuðum P8 Poseidon eftirlitsflugvélum til að efla langdrægar njósnir sínar um allt Rússland.

Í staðinn reitti norska ríkisstjórnin frjálslynda og nokkra hófsama á þinginu til reiði í nóvember, með því að samþykkja viðbótarsamstarfssamning um varnarmál (SDCA). Samkvæmt nýja samningnum myndi bandarískt réttarkerfi hafa lögsögu á ákveðnum „samþykktum svæðum“ í norðurhlutanum, yfir bandarískum hermönnum sem sakaðir yrðu um glæpi utan herstöðvar. Jafnframt yfir norskum ríkisborgurum sem sakaðir eða grunaðir yrðu um að hafa truflað starfið í herstöðinni.

Noregur er einn af stofnmeðlimum NATO-sáttmálans árið 1949, í árdaga Kalda stríðsins. Í dag er aðalritari NATO Jens Stoltenberg, harður and-kommúnisti. Hann gegndi embætti forsætisráðherra Noregs í átta ár áður en hann tók við æðsta embætti NATO, með stuðningi Bandaríkjanna árið 2014. Hann var harðlínumaður í öllu sem snertir Pútín og Rússland, og hafði unnið með bandarísku leyniþjónustunni frá Víetnamstríðinu. Honum hefur verið treyst fullkomlega síðan. „Hann er hanskinn sem passar við bandarísku höndina,“ sagði heimildarmaðurinn.

Í Washington vissu skipuleggjendurnir að þeir yrðu að fara til Noregs. „Þeir hötuðu Rússa og norski sjóherinn var fullur af afburða sjómönnum og köfurum sem höfðu reynslu, kynslóð eftir kynslóð, af mjög arðbærri djúpsjávar olíu- og gasleit,“ sagði heimildarmaðurinn. Einnig væri hægt að treysta þeim til að halda verkefninu leyndu. (Norðmenn kunna að hafa haft aðra hagsmuni líka. Eyðilegging Nord Stream — ef Bandaríkjamenn kæmust upp með það — myndi gera Norðmönnum kleift að selja miklu meira af sínu eigin jarðgasi til Evrópu).

Einhverntíman í mars flugu nokkrir liðsmenn hópsins til Noregs til að hitta norsku leyniþjónustuna og sjóherinn. Ein af lykilspurningunum var, hvar nákvæmlega í Eystrasaltinu væri besti staðurinn til að koma sprengiefninu fyrir. Nord Stream 1 og 2, hvor um sig með tveimur settum af pípum, voru aðskildar stóran hluta af lögninni, og um rúmlega 1,6 km þar sem þær komu til hafnar í Greifswald í norðausturhluta Þýskalands.

Norski sjóherinn var ekki lengi að finna rétta staðinn, á grynningum Eystrasaltsins nokkrum kílómetrum undan Borgundarhólmi Danmerkur. Leiðslurnar lágu með rúmlega 1,6 km millibili meðfram hafsbotni sem var aðeins 80 metrar að dýpt. Það væri vel á færi kafaranna, sem, gerðir út frá norskum Alta sprengjuleitara, myndu kafa með blöndu af súrefni, köfnunarefni og helíum sem streymdi úr tönkunum þeirra. Þeir myndu koma C4 hleðslum fyrir á pípunum fjórum með steyptum hlífum. Það yrði leiðinlegt, tímafrekt og hættulegt starf, en grynningarnar við Borgundarhólm höfðu annan kost, þar voru engir stórir sjávarfallastraumar til að gera köfun erfiðari.

Lögn Nordstream leiðslanna í Eystrasalti.

Eftir smá umhugsun höfðu Bandaríkjamennirnir allir gleypt við tillögunni.

Þá kemur dularfullur djúpköfunarhópur sjóhersins í Panamaborg aftur við sögu. Þrátt fyrir að hafa útskrifað nema, sem tóku þátt í Ivy Bells aðgerðinni, voru þeir álitnir affallið frá flotaskólanum í Annapolis, sem venjulega leitast eftir þeirri dýrð að verða úthlutað stöðum sem Flotaselur, orrustuflugmaður eða kafbátamaður. Verði maður „svartur sauður“ - það er að segja meðlimur í minna eftirsóknarverðri skipadeild - þá er að minnsta kosti hægt að sækja um á tundurspilli, herskipi eða landgönguskipi. Minnst upphefð felst í námuhernaði. Kafarar úr honum koma aldrei fram í Hollywood-kvikmyndum eða á forsíðum glanstímarita.

„Bestu djúpkafararnir eru þröngur hópur, aðeins þeir albestu eru ráðnir í verkefnið og þeim var sagt að vera reiðubúnir fyrir kvaðningu CIA í Washington,“ sagði heimildarmaðurinn.

Norðmenn og Bandaríkjamenn fundu stað og samverkamenn, en annað áhyggjuefni var, að hvers kyns óvenjuleg neðansjávarvirkni á hafsvæðinu við Borgundarhólm gæti vakið eftirtekt sænska eða danska sjóhersins, sem gætu tilkynnt um hana.

Danmörk var einnig stofnmeðlimur NATO og var þekkt í leyniþjónustusamfélaginu fyrir sérleg tengsl sín við Bretland. Svíar höfðu sótt um aðild að NATO. Þeir höfðu sýnt fram á mikla færni í að stjórna hljóð- og segulskynjara neðansjávarkerfum sínum. Þau fylgdust vel með rússneskum kafbátum sem birtust af og til í afskekktum sjó sænska eyjaþyrpinganna og neyddust til að koma upp á yfirborðið.

Norðmenn og Bandaríkjamenn voru sammála um að upplýsa þyrfti nokkra háttsetta embættismenn í Danmörku og Svíþjóð almennt um hugsanlega köfunarstarfsemi á svæðinu. Þannig gæti einhver í háttsettur gripið inn í og haldið upplýsingunum utan við stjórnkerfið. „Það sem þeim var sagt og það sem þeir vissu var viljandi ekki samhljóða,“ sagði heimildarmaðurinn mér. (Norska sendiráðið var beðið um að tjá sig um þessa frétt, en ansaði ekki).

Norðmenn voru lykilmenn við að leysa aðrar hindranir. Rússneski sjóherinn var þekktur fyrir að búa yfir eftirlitstækni sem getur komið auga á og virkjað neðansjávarsprengjur. Það varð að fela bandarísku sprengiefnin á þann hátt að þau myndu falla inn í umhverfið - eitthvað sem gæti lagað sig að seltu sjávarins. Norðmenn höfðu lausnina.

Norðmenn höfðu einnig svar við úrslitaspurningunni um hvenær aðgerðin skyldi fara fram. Síðastliðin 21 ár í júní, hefur Sjötti bandaríski flotinn, hvers flaggskip er með aðsetur í Gaeta, suður af Róm á Ítalíu, staðið fyrir mikilli NATO-æfingu í Eystrasalti. Mýgrútur skipa bandamanna af öllu svæðinu hafa tekið þátt. Æfingin, sem haldin yrði í júní, var kynnt sem Baltic Operations 22, eða BALTOPS 22. Norðmenn lögðu hana til sem kjörið tækifæri til að koma sprengjunum fyrir.

Bandaríkjamenn komu með mikilvægt atriði. Þeir sannfærðu skipuleggjendur Sjötta flotans um að bæta rannsóknar- og þróunaræfingu við áætlunina. Æfingin, eins og sjóherinn birti hana opinberlega, kom Sjötta flotanum í samvinnu við „rannsóknar- og hernaðarmiðstöðvar“ sjóhersins. Æfingin yrði haldin undan strönd Borgundarhólms og fæli í sér teymi NATO kafara sem kepptist við að koma fyrir sprengjum, á meðan önnur lið kepptust með nýjustu neðansjávartækni við að finna þær og eyða þeim.

Æfingin var bæði gagnleg og snilldar dulargervi. Strákarnir frá Panamaborg myndu gera sitt besta og C4 sprengiefnin yrðu á sínum stað í lok BALTOPS22, með áföstum 48 tíma klukkum. Allir Bandaríkjamenn og Norðmenn yrðu löngu horfnir við fyrstu sprenginguna.

Dagarnir liðu. „Klukkan tifaði og við vorum við það að klára útfærslu verksins,“ sagði heimildarmaðurinn.

Þá fékk Washington hland fyrir hjartað. Sprengjunum yrði enn komið fyrir á BALTOPS, en Hvíta húsið hafði áhyggjur af því að tveggja daga gluggi fyrir sprenginguna væri of nálægt lokum æfingarinnar. Augljóst yrði að Bandaríkin hefðu átt þátt í henni.

Í staðinn kom Hvíta húsið með nýja beiðni: „Geta starfsmenn á plani fundið upp einhverja leið til að sprengja leiðslurnar síðar eftir skipun?“

Sumir meðlimir skipulagshópsins urðu reiðir og svekktir, vegna að því er virtist, óákveðni forsetans. Kafararnir í Panamaborg höfðu ítrekað æft sig í að koma C4 fyrir á leiðslum, eins og þeir myndu gera á BALTOPS. Nú varð liðið í Noregi að finna aðferð til að láta Biden fá það sem hann vildi - getuna til að sprengja leiðslurnar þegar honum þóknaðist.

Handahófskenndar breytingar á síðustu stundu er eitthvað sem CIA er vant að fást við. En það endurvakti samt áhyggjur sumra um nauðsyn og lögmæti aðgerðarinnar í heild.

Leynilegar skipanir forsetans rifjuðu upp valþröng CIA frá dögum Víetnamstríðsins. Þegar Johnson forseti stóð frammi fyrir vaxandi andstöðu gegn Víetnamstríðinu, skipaði hann stofnuninni að brjóta grunnreglur sínar. Þær bönnuðu henni sérstaklega að starfa innan Bandaríkjanna. Hann lét CIA njósna um leiðtoga andsnúna stríðinu, til að komast að því hvort þeim væri stjórnað af Rússlandi kommúnistanna.

Stofnunin féllst á endanum á það og allan áttunda áratuginn varð ljóst hversu langt hún hafði verið tilbúin að ganga. Í framhaldinu komu dagblaðauppljóstranir í kjölfar Watergate-hneykslismálins, um njósnir stofnunarinnar um bandaríska ríkisborgara, þátttöku hennar í morðinu á erlendum leiðtogum og hvernig hún gróf undan sósíalískri ríkisstjórn Salvador Allende.

Þessar opinberanir leiddu til raða dramatískra yfirheyrslna um miðjan áttunda áratuginn í öldungadeildinni, undir forystu Frank Church frá Idaho. Þannig varð ljóst að Richard Helms, þáverandi forstjóri stofnunarinnar, samþykkti að honum bæri skylda til að gera það sem forsetinn vildi, jafnvel þótt það kostaði að brjóta lög.

Í óbirtum, lokuðum vitnisburði útskýrði Helms með eftirsjá: „þú ert nánast flekklaus þegar þú gerir eitthvað af þér“ samkvæmt leynilegum fyrirmælum forseta. „Hvort sem það er rétt að þú gerir það, eða rangt að þú gerir það, starfar [CIA] samkvæmt öðrum reglum og grunnreglum en nokkur annar hluti ríkisvaldsins.“ Hann var í raun að segja öldungadeildarþingmönnum að honum, sem yfirmanni CIA, skildist að hann hefði starfað fyrir Krúnuna, en ekki samkvæmt stjórnarskránni.

Bandaríkjamenn, sem voru að störfum í Noregi, störfuðu fyrir samskonar öfl, og hófu samviskusamlega að leysa nýja verkefnið. Hvernig skyldi sprengja C4 sprengiefnið úr fjarlægð eftir skipun Biden. Þetta var miklu erfiðara verkefni en þeir í Washington náðu að gera sér í hugarlund. Það var engin leið fyrir liðið í Noregi að vita hvenær forsetinn gæti ýtt á takkann. Yrði það eftir nokkrar vikur, marga mánuði, hálft ár eða lengur?

C4 sprengiefnið sem fest yrði við pípurnar, yrði virkjað með sónarbauju, slepptri með flugvél með skömmum fyrirvara, en aðferðin fól í sér fullkomnustu merkjavinnslutækni. Þegar seinkaðar tímasprengjurnar væru komnar á sinn stað, gætu þær fyrir slysni sprungið vegna flókinnar blöndu af bakgrunnshljóðum í hafinu, í mikilli skipaumferð Eystrasaltsins. Hljóði frá nálægum og fjarlægum skipum, neðansjávarborunum, jarðskjálftum, öldum og jafnvel sjávarskepnum. Til að koma í veg fyrir þetta myndi sónarduflið, þegar það var komið á sinn stað, gefa frá sér röð einstakra lágtíðni tóna - líkt og flauta eða píanó gefur frá sér - sem tímasprengjurnar myndu þekkja og eftir fyrirfram stillta töf, sprengja sprengiefnin. („Þú vilt merki sem er nógu öruggt til að ekkert annað merki gæti fyrir slysni sprengt sprengiefnið,“ sagði Dr. Theodore Postol, prófessor emeritus í vísindum, tækni og þjóðaröryggisstefnu við MIT, mér. Postol, sem hefur starfað sem vísindaráðgjafi yfirmanns flotaaðgerða varnarmálaráðuneytisins, sagði að vandamálið sem hópurinn stóð frammi fyrir í Noregi vegna seinkunar Biden, vera háð tilviljun. „Því lengur sem sprengiefnið er í sjónum því meiri hætta yrði á tilviljun sem myndi valda sprengingu.“)

Þann 26. september 2022, flaug P8 eftirlitsflugvél Norska sjóhersins í, að því er virtist, venjubundið flug og varpaði sónarbauju. Merkið dreifðist neðansjávar, fyrst til Nord Stream 2 og síðan áfram til Nord Stream 1. Nokkrum klukkustundum síðar sprakk C4 sprengiefnið af afli og þrjár af fjórum gaspípunum voru teknar úr notkun. Innan nokkurra mínútna mátti sjá tjarnir af metangasi, sem varð eftir í sprungnum pípunum, breiða úr sér á yfirborði sjávarins. Heimurinn komst að því að eitthvað óafturkræft hafði átt sér stað.

NIÐURLAG

Í beinu framhaldi af sprenginunum á gasleiðslunum fóru bandarískir fjölmiðlar með atvikið eins og óleysta ráðgátu. Ítrekað var bent á Rússland sem líklegan sökudólg, og hvatt til þess með skipulögðum leka frá Hvíta húsinu. Það var gert án þess að hafa nokkurn tíma staðfesta skýra ástæðu fyrir slíkum sjálfsskaða, umfram einfaldar hefndir. Nokkrum mánuðum síðar, þegar í ljós kom að rússnesk yfirvöld hefðu í hljóði reynt að fá áætlanir um viðgerðakostnað á leiðslunum, lýsti New York Times fréttinni sem „flækjukenningum um hver stóð á bak við“ árásina. Ekkert stórt bandarískt dagblað kafaði ofan í hótanir sem beindust að lögnunum frá Biden og Nuland aðstoðarutanríkisráðherra.

Þó aldrei hafi verið ljóst hví Rússar myndu eyðileggja sínar eigin ábatasömu gasleiðslur, þá komu skýrari rök fyrir orðum forsetans frá utanríkisráðherranum Blinken.

Aðspurður á blaðamannafundi í september síðastliðnum, um afleiðingar versnandi orkukreppu í Vestur-Evrópu, lýsti Blinken augnablikinu sem hugsanlega góðu.

Þetta er stórkostlegt tækifæri til að fjarlægja í eitt skipti fyrir öll fíkn í rússneska orku, og taka þannig frá Vladimír Pútín vopnvæðingu orkunnar, sem leið til að efla heimsveldishugmyndir sínar. Það er mjög mikilvægt og það býður upp á gríðarleg stefnumótandi tækifæri fyrir næstu ár, en á meðan erum við staðráðin í að gera allt sem við mögulega getum til að tryggja að afleiðingarnar af þessu öllu séu ekki bornar af borgurunum í löndunum okkar eða, að svo komnu máli, um allan heim.“

Enn nýlegar lýsti Victoria Nuland yfir ánægju með eyðileggingu nýjustu leiðslunnar. Þegar hún bar vitni við yfirheyrslu í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar í lok janúar, sagði hún við Ted Cruz öldungadeildarþingmann: „Eins og þú, er ég, og ég held að ríkisstjórnin sé, afar fullnægð að vita að Nord Stream 2 er núna, eins og þið mynduð segja, málmhrúga á sjávarbotni.“

Heimildarmaðurinn hafði hreinskilnari orðalag um ákvörðun Biden um að eyðileggja meira en 2.400 km af Gazprom leiðslum í vetrarbyrjun. „Jæja,“ sagði hann og talaði um forsetann, „ég verð að viðurkenna að gaurinn er með hreðjar. Hann kvaðst munu gera það og hann gerði það.“

Aðspurður hvers vegna hann teldi að Rússar hefðu ekki brugðist við, sagði hann kaldhæðnislega: „Kannski vilja þeir geta gert það sama og Bandaríkin gerðu.“

„Þetta var fallega dulbúið verk,“ hélt hann áfram. „Að baki var leynileg aðgerð sem notaðist við sérfræðinga á sínu sviði og búnað sem notaðist við leynimerkjasendingar.“

„Eini ljóðurinn á verkinu var ákvörðunin um gera það.“

------

Um höfund þessarar fréttaumfjöllunar:

Seymour Myron „Sy“ Hersh (f. 8. apríl 1937) er bandarískur rannsóknarblaðamaður og stjórnmálarithöfundur. Hann hlaut viðurkenningu árið 1969 fyrir að afhjúpa My Lai fjöldamorðin og yfirhylmingu þeirra í Víetnamstríðinu. Fyrir það hlaut hann Pulitzer-verðlaunin fyrir alþjóðlega fréttamennsku árið 1970. Á áttunda áratugnum fjallaði Hersh um Watergate-hneykslið fyrir The New York Times. Hann greindi frá leynilegri sprengjuárás Bandaríkjanna á Kambódíu og njósnum CIA innanlands. Árið 2004 greindi hann frá pyntingum og misnotkun Bandaríkjahers á föngum í Abu Ghraib í Írak fyrir The New Yorker. Hersh hefur unnið fimm George Polk verðlaun og tvö National Magazine verðlaun. Hann er höfundur ellefu bóka, þar á meðal The Price of Power: Kissinger in the Nixon White House (1983), frásögn af ferli Henry Kissinger sem vann National Book Critics Circle Award.

Seymour „Sy“ Hersh.

Skildu eftir skilaboð