Fréttin greindi frá því í byrjun síðasta mánaðar að feðgarnir Ólafur Snævar Ögmundsson og Auðunn Snævar Ólafsson hafi verið bornir út úr íbúð af leigufélaginu Ölmu.
Blaðamaður fór og hitti feðgana sem að hafa í engin hús að venda enn sem komið er og þurftu að bregða á það ráð að leigja minnstu gerð af hjólhýsi sem þeir fá að hafa í garði á Eyrarbakka hjá systur Ólafs, Ingileifu Ögmundsdóttur. Leigan á hjólhýsinu er tæp 10 þúsund á sólarhring.
Vegna mikils álags hefur heilsu Ólafs hrakað mjög hratt og hann undanfarið verið að glíma við hjartaflökt. Einnig greindist hann með þvagsýrugigt stuttu eftir að þeir feðgar voru settir á götuna, auk þess sem heyrnin hefur versnað mikið.
Ólafur verður áttræður á næsta ári og samkvæmt lækni getur svona mikið áfall haft gífurlega mikil áhrif á heilsuna og ekki er víst að Ólafur nái sér að fullu.
Ekkert salerni er í hjólhýsinu og þar sem Auðunn er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól hefur hann þurft að nota flösku til að losa þvag, því ekki kemst hann án aðstoðar á salerni sem er á annarri hæð í húsi föðursystur hans.
Ingileif á tvo syni sem þurfa í sameiningu að lyfta Auðunni upp á efri hæð í húsinu til að komast á salernið.
Feðgarnir hafa reynt allt sem þeir geta til að fá aðstoð hjá Reykjavíkurborg og eru reglulega í sambandi við félagsráðgjafa. Þar er litla sem enga hjálp að fá og svörin eru að ekkert húsnæði sé á lausu og margra ára bið eftir félagslegu húsnæði.
Auðunn hefur sótt um hjá Brynju leigufélagi sem rekur leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og öryrkja, en fátt hefur einnig verið um svör þaðan og biðlistinn jafnframt sagður langur. Feðgarnir halda þó enn í vonina.
Ólafur segist tilbúinn að fara á hjúkrunarheimili, en segist þó ekki getað yfirgefið son sinn í þessu ástandi fyrr en hann sé kominn í öruggt skjól.
Biðlisti á hjúkrunarheimili eða þjónustuíbúðir er einnig sagður langur og því er alger óvissa í málum feðganna.
Stofnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir feðgana, og eru allir þeir sem sjá sér fært um að aðstoða feðgana hvattir til að leggja þeim lið.
Reikningsnúmerið á styrktarreikningum er 0123-05-3207 - kt.180644-4829
Feðgarnir vilja jafnframt koma á framfæri innilegum þökkum til þeirra sem lögðu þeim lið í síðasta mánuði, en um 120 þúsund kr. söfnuðust sem þeir gátu nýtt til greiða leigu fyrir hjólhýsið.
Viðtal við feðgana má sjá hér neðar:
2 Comments on “Feðgarnir enn heimilislausir: engin aðstoð borist frá hinu opinbera”
það er sorglegt að horfa upp á þetta gagnlausa lið sem er þarna niðri á alþingi
það virðist skipta þessa þingmenn meira máli að bora hausnum á sér lengra upp í rassgatið á kananum enn að sinna sínu fólki!
Þetta er sorgleg staða hjá þjóð sem er að hýsa tugi þúsunda fólks frá öðrum löndum og á meðan höfum við ekkert húsnæði fyrir fólkið sem býr fyrir á landinu.Hvar er allt “ góða fólkið” sem segist ætla að taka fólk swm kemur erlendis frá inn á heimili sín ? Eru þessir menn síðri en fólk frá öðrum löndum og því býður enginn þeim að búa hjá sér ?